Örvitinn

Litlir dílar á basiliku

Ég er búinn að vera með myndarlega basiliku í eldhúsglugganum í allt sumar. Hef verið samviskusamur við að vökva og hef klippt af henni smotterí þegar ég hef þurft agnarögn af þessu góða kryddi.

Í dag tók ég eftir því að litlir dílar voru komnir á laufin. Ég kippti einu laufinu af og skoðaði þá nánar, dílarnir voru ljósgrænir og þegar ég rýndi vel sá ég að þeir hreyfðust!

Plantan fór beina leið í ruslið og ruslapokinn út í tunnu. Þetta er ákaflega sorglegt, hún var næstum dauð í sumar þegar við vorum viku í bústað, en á afskaplega skömmum tíma hresstist hún eftir að ég kom heim til að sinna henni.

En ég skil ekki hvaðan bölvaðar pöddurnar komu, því þetta var gríðarlegt magn og ég hef ekkert séð áður þrátt fyrir að hafa reglulega vökvað basilikuna. Það eru engar aðrar plöntur í glugganum. Verst að ég hef ekki hugmynd um hverslags pöddur þetta voru.

Af einhverri undarlegri ástæðu langar mig ekkert sérstaklega í basiliku akkúrat þessa stundina.

dagbók
Athugasemdir

Nanna - 13/08/06 23:24 #

Sennilega hefur þetta verið blaðlús, hún er algeng á basilíku. Fullþroskaðar blaðlýs fljúga svo að þessar hafa líklega bara svifið inn um gluggann. Ég hef stundum gripið til þess ráðs að hvolfa pottinum og dýfa basilíkunni (ekki moldinni þó) í rétt rúmlega 40°C heitt vatn í nokkrar mínútur. Blöðin þola það en lýsnar ekki. Afskaplega vistvænt - en svo má líka prófa að úða með sápuvatni eða eitri.

Matti - 13/08/06 23:28 #

Takk fyrir, ég prófa þetta þegar ég treysti mér í næstu plöntu :-) Ég sá óskaplega eftir þessari í ruslið.

Carlos - 14/08/06 11:21 #

Annað trix væri að hvolfa poka yfir plöntuna og kveikja í einni sígarettu undir pokanum þannig að pöddurnar dræpust af kolsýru og nikótíni. Ekki jafn geðsleg lausn og þessi sem Nanna stingur upp á.

Már - 15/08/06 08:27 #

Matti. Okkar reynsla er að grænu pöddurnar séu órjúfanlegur partur af því að reyna að rækta eitthvað matarkyns sem kemur úr kjörbúðinni.

Okkur hefur ekki enn tekist að setja basiliku út í garð og láta hana halda lífi, en piparmynta og graslaukur eru orðnir fastir ábúendur í garðinum, og afétnir salat-hausar sem við smelltum í moldarbeð í vor vaxa nú eins og þeir séu á ríkisstyrkjum frá Guðna Ágústs.

Már - 15/08/06 08:32 #

...ég átti við að grænu pöddurnar virðast iðurlega koma þegar maður ræktar svona dót innandyra.

Vel að merkja, þá búum við á 2 1/2 hæð og sjáum t.d. aldrei vespur inni hjá okkur, þannig að þætti það harla öflugt af blaðlúsunum að fljúga alla leiðina upp til okkar utanfrá.

Þess vegna pössum við líka upp á að hafa engar aðrar plöntur í eldhúsglugganum á meðan svona búðardót stendur þar, og þvoum gluggann og umhverfis hann vandlega með grænsápu á eftir.