Örvitinn

Menningarnótt í Reykjavík

flugeldasýningin á MenningarnóttEins og glöggir lesendur Fréttablaðsins hafa séð fórum við í miðbæinn í gær (Það er semsagt lítil mynd af okkur í blaðinu). Drógum Áróru með okkur þrátt fyrir unglingaveikiskast á háu stigi.

Við mættum í bæinn um tvö. Byrjuðum í Gallerí Fold þar við ætluðum að leyfa stelpunum að fara í listasmiðju en þar var allt uppbókað þannig að ekkert varð úr því. Röltum svo niður Laugaveginn, komum okkur fyrir í bænum og settumst meðal annars á Austurvelli eftir að hafa keypt gos og kringlur í 10-11. Á Austurvelli var áhugavert mannlíf, syngjandi róni, óhæfir einstæðir feður (ungabörn eiga ekki að dunda sér með kveikjara og kóktappa, dósina undan jógúrtina á ekki að skilja eftir á grasinu heldur henda í ruslið sem er fjóra metra í burtu) og allskonar fólk að njóta blíðunnar.

Sáum Gunna og Felix á sviðinu við Landsbankann. Stelpurnar höfðu afar gaman að því enda eru þeir snillingar, ná bæði til foreldra og barna. Það eina sem ég hef út á þeirra atriði að setja er þessa Landsbankafígúra sem kom hræðilega út, það var bara of mikill markaðsbragur af því. Eftir Gunna og Felix kíktum við á danssýningu inni í bankanum. Reyndar sáum við hjónin ekkert en Kolla og Inga María sáu dansinn enda tókum við þær á háhest. Þarna hefði þurft að pæla örlítið í samspili áhorfenda og dansara. Kolla lýsti sýningunni fyrir okkur með tilþrifum.

Við fórum svo að leita okkur að kvöldmat, fengum ekki inni á La Primavera. fengum borð á Viktor en enga þjónustu og létum okkur því hverfa. Enduðum á Kaffi Reykjavík. Þar fengum við bæði borð og góða þjónustu, en maturinn var ekkert spes, þetta sjávarréttahlaðborð þeirra er satt að segja frekar óspennandi, fiskur er yfirleitt ekkert spes kaldur.

Óli bassiEftir kvöldmat fórum við aftur að stóra sviðinu og kíktum á Baggalút sem Óli spilar með og Benna Hemm Hemm. Benni var að gera góða hluti þarna. Nenntum ekki að horfa á Mezzoforte og tróðum í gegnum mannþröngina og röltum að bílnum. Á leiðinni að bílnum sagði ég við Gyðu að það væri eflaust gaman að fara barnlaus á Menningarnótt því það er svo mikið um að vera og erfitt að draga börnin með á allt. Ókum svo að Sæbrautinni þar sem við lögðum fyrir neðan Borgartún og horfðum á flugeldasýninguna. Vorum dálítið langt í burtu en útsýnið var samt gott.

Umferðin var ansi þung á heimleiðinni en gekk þokkalega. Inga María steinsofnaði að sjálfsögðu í bílnum og rumskaði varla þegar ég bar hana í rúmið sitt og klæddi úr fötunum.

Ég tók myndir

dagbók
Athugasemdir

Gulla - 22/08/06 20:16 #

Flottar myndir frá menningarnóttinni, sérstaklega þykja mér flugeldamyndirnar góðar. Kemur skemmtilega út að vera í góðri fjarlægð og ná öllu umhverfinu og sólsetrinu með - magnaðar myndir! ...eins og alltaf, ég er farin að hljóma eins og biluð plata þegar ég er að hrósa myndunum þínum :)