Örvitinn

Myndavélaháski á heiði

Ég er búinn að sækja linsuna úr viðgerð og veit hvað óhappið kostaði mig fjárhagslega, tíu þúsund krónur. Ég tel það vel sloppið miðað við það sem gerðist og við hæfi að segja öðrum en nánustu ættingjum og vinum frá. Held ég þurfi ekki lengur á áfallahjálp að halda.

riðið inn dalinnÞegar við riðum af heiðinni á föstudag gekk ferðin greiðlega. Við höfðum farið upp á heiði með því að ríða inn dal, yfir á nokkrum sinnum, meðfram þröngum stígum og upp bratta brekku í þoku en á bakaleiðinni fórum við malarveg. Ég var því kominn á nokkuð góða ferð og hesturinn minn átti nokkra ágæta spretti á bakaleiðinni.

Um morguninn tók ég allt úr myndavélatöskunni nema D200 vélina glænýju og 18-70 kit linsuna sem ég hafði á vélinni þann daginn. Aðrar linsur, flass og aukahlutir urðu eftir. Bakpokanum hef ég alltaf lokað með því að renna báðum rennilásum saman í miðju, þannig er fljótlegra að opna pokann og komast að vélinni. Auk myndavélar skellti ég bol og trefli í töskuna, bæði til að hafa varaföt og til að dúða myndavélina í töskunni.

Ég er óvanur hestamaður. Fór síðast á hestabak í klukkutíma fyrir fimm árum. Fékk því þægilegan hest, Eiríkur talaði um hann sem barnahest, þ.e.a.s. þetta var hestur sem börn hefðu getað notað og hafa notað. Sem var eins gott, ég þurfti stundum að rembast við að halda jafnvægi en þetta gekk áfallalaust fyrir sig.

Tja, ekki alveg.

Við vorum semsagt að ríða niður af heiðinni. Veðrið var gott, þokunni hafði létt og ég skoppaði á hestinum sem stýrði ferðinni, ég var bara farþegi. Mér fannst ég alltaf skoppa meira en allir aðrir en þegar við ræddum saman strákarnir kom í ljós að þeir voru að hugsa það sama. Ég var semsagt skoppandi, búinn að fara nokkuð góðan spöl á tölti, brokki, stökki eða hvað þetta heitir allt saman. Þegar ég hægði á mér (tja, hesturinn sá svosem bara um þetta) eitt sinn tilkynnti Einar Már með titrandi rödd. "Bakpokinn þinn er galopinn og galtómur". Við skoppið hafði myndavélin, sem ásamt linsunni vegur um eitt kíló, bankað á bakpokann, glennt sundur rennilásana og stokkið út í frelsið, væntanlega með viðkomu á afturendanum á hestinum og þaðan út í óvissuna.

Shitt. 210.000,- kr myndavél og áföst 30.000,- kr linsa* höfðu skoppað af bakinu á mér uppi á miðri heiði. Í kringum grófan malarveg ekkert nema urð og grjót. Ég fékk sting í magann og viskísoparnir höfðu ekkert með það að gera í þetta skipti. Ég var eflaust ekki tryggður fyrir þessu.

Ég reið til baka á móti hópnum. "Týndir þú myndavél" spurði fólk í fyrsta hópnum sem ég mætti, "átt þú þennan bol" sá næsti. Djísus, ég sá fyrir mér myndavél í mörgum bútum og glerbrot í kring. Á eftir mér höfðu riðið tugir hestamanna sem ég nú mætti, vélin gat hugsanlega lifað af fallið ef hún lenti heppilega, en ekki járnaða hófa í hundraðatali. Skömmu síðar reið framhjá mér maður með myndavélina mína um hálsinn. Ég reyndi að ná athygli hans en hann hunsaði mig og tók stefnuna á Einar sem var skammt frá með bakpokann minn.

Ég sneri við og heimti vélina úr örmum Einars. Það sá ekki á henni. Ég prófaði að taka mynd. Allt virkaði. Ég tók aðra, fókusaði, breytti stillingum, grandskoðaði vélina. Ekkert amaði það.

Vélin hafði legið við hlið vegarins en ekki á honum miðjum. Regin sagði mér að honum hefði ekkert litist á blikuna þegar hann sá myndavélina fyrst, svo linsulokið lengra frá, þvínæst trefil, húfu og svo bol. Hann ímyndaði sér að ég hefði dottið af baki og dregist með trylltum hestinum langa leið.

Það eina sem var að linsunni er að hún fókusaði ekki á víðustu stillingu (18mm) á hluti sem voru langt í burtu. Það kom ekki að sök og ég gat tekið myndir það sem eftir var ferðar. Þessi mynd er tekin fyrir fall, þessi eftir að myndavélin var endurheimt. Ég fór með linsuna í viðgerð á mánudag og sótti hana áðan. Hún var "brotin að innan" , þ.e.a.s. járnhringur inni í linsunni brotnaði við höggið. Ég held ég hafi sloppið vel með að borga tíu þúsund krónur.

Hvaða lexíu lærði ég sem ég get deilt með lesendum. Jú, ekki loka myndavélabakpoka með því að renna honum saman í miðju, rennið alla leið yfir öðru hvoru megin, allavega ef þið eruð að fara á hestbak.

Á þessari mynd horfi ég í vélina og hugsa, "ég trúi ekki að helvítis vélin sé í lagi".

* Verð út úr búð, ég borgaði dálítið minna.

Athugasemdir

Sirrý - 12/10/06 17:09 #

Þetta er kraftaverk :C)