Örvitinn

Galdrakarlinn í OZ

Ég og Kolla kláruðum Galdrakarlinn í Oz í kvöld. Mikið óskaplega er þetta skemmtileg bók.

Ég man satt að segja ekki eftir að hafa lesið hana áður. Auðvitað þekkti ég söguna í grófum dráttum en samt var ýmislegt sem ég þekkti ekki.

Við lásum myndskreytta útgáfu sem Fjölvi gaf út ári 1985. Þetta er óstytt útgáfa og við höfum því tekið okkur nokkuð góðan tíma í að klára bókina. Yfirleitt lásum við einn kafla á kvöldi en stundum var hálfur kafli látinn duga þegar þeir voru í lengra lagi.

Galdrakarlinn í OZ hentar ágætlega fyrir sex ára krakka. Þetta er litríkt ævintýri með allskonar pælingum sem þau ná alveg að grípa. T.d. þversagnirnar með óskir fuglahræðunnar sem vill heila en er sífellt að leysa vandamál, Pjátra viðarhöggvara sem vill hjarta en er sífellt að gráta og ljónsins sem þráir hugrekki en er sífellt að sýna það í verki. Kolla hafði að minnsta kosti gaman að henni. Við fengum fullt af tækifærum til að ræða um ævintýri og raunveruleika meðan á lestrinum stóð.

Nú þurfum við að finna einhverja aðra klassík til að lesa saman. Ágætt að taka sér væna bók í þetta og lesa á nokkrum vikum.

bækur
Athugasemdir

Kristján Atli - 16/10/06 02:29 #

Alkemistinn? Hún er reyndar ekki myndskreytt ...

Matti - 16/10/06 07:43 #

Tja, hún er reyndar á sex ára "leveli", en ég nenni ekki að lesa hana aftur :-)