Örvitinn

Öfgamaðurinn

Í Blaðinu í dag er frétt um mótmælin við Vinaleið og talað við Reyni Harðarson sálfræðing og foreldri og Hilmar Ingólfsson skólastjóra í Hofstaðaskóla (fjandakornið, hann var það þegar ég var þarna). Þetta er haft eftir Hilmari:

Hann segir andstöðu gegn þessu átaki sé ofstæki og jaðri við frekju

Það er ofstæki og frekja að mótmæla Vinaleið Þjóðkirkjunnar. Þeir sem vilja hlutlausa skóla eru öfgamennirnir. Ekki þeir sem vilja troða kristnum áróðri í barnaskóla, nei, þeir sem mótmæla.

Á meðan heyrist þögnin ein frá hófsama Þjóðkirkjuliðinu. Alveg eins og vanalega.

kristni
Athugasemdir

Óli Gneisti - 22/10/06 01:28 #

Ég er búinn að vera frekar reiður yfir þessu í dag. Hvernig vogar þetta fólk sér að ætla að taka völdin af foreldrum?

Halldór E. - 22/10/06 02:51 #

Vegna löngunnar þinnar til að fá viðbrögð frá einhverjum innan kirkjunnar sem hefur athugasemdir við Vinaleið, þá hef ég ákveðið að láta undan þrýstingi.

Almennir grunnskólar eiga ekki að vera trúarlegar stofnanir. Helgihald innan almennra grunnskóla verður þannig aldrei annað en tilraun "trúaðra" einstaklinga til að gera skólann annað en honum er ætlað. (Um einkenni umræðunnar)

Þessi skilningur setur að mínu mati Vinaleiðinni mjög þröngar skorður sem ég vona að þeir sem starfa að verkefninu virði.

Matti - 22/10/06 11:58 #

Ég lagaði vísunina hjá þér, þú gleymdir að setja gæsalappir utan um slóðina.

Ég vil gera eina athugasemd við greinina. Þú líkir samstarfi kirkju og frístundaheimila ÍTR við annað félagsstarfs sem börnum er boðið upp á. Þó er sá eðlismunur á að til að börn fari ekki í kirkjuna þarf foreldri að taka það fram sérstaklega. Til að barn fari í tónlistarnám eða karate þurfa foreldrar að panta það sérstaklega.

Kirkjan er semsagt með sérstöðu. Þú getur augljóslega séð það með því að ímynda þér að öll börn væru sjálfkrafa skráð í tónlist, karate og félagsstarf Vantrúar en svo þyrftu foreldrar að taka sérstaklega fram hvað af þessu þau vildu ekki að börn sín stunda.

Að sjálfsögðu á hverju foreldri að vera frjálst að senda börn sín kirkju, jafnvel þó mér finnist það persónuleg ógeðfellt. En tengslin eins og þau eru núna eru óeðlileg. Þetta á að vera algjörlega ótengdt frístundarstarfi ÍTR.

Halldór E. - 22/10/06 18:33 #

Tengslin eins og þú lýsir þeim eiga EKKI við þar sem ég hef komið að starfi kirkjunnar. Það er ekki nóg með að foreldrar hafi merkt við þátttökuna á eyðublaði frá ÍTR, heldur gerðum við kröfu um sérskráningu á sérstökum eyðublöðum sem útskýrðu kirkjustarfið á starfstíma Frístundaheimila. Ég tek undir með þér, að það að kirkjustarf sé tekið sem sjálfsagður hlutur, sem þurfi að skrá sig úr, er óheppileg leið.

Matti - 22/10/06 20:14 #

Við þetta má bæta að heimsókn í Seljakirkju er á stundaskrá Frístundastarfsins.

Ekki er boðið upp á neitt annað skipulagt starf fyrir þá krakka sem ekki fara í kirkjuna.

Gyða - 22/10/06 22:27 #

Tekið af síðunni hans Halldórs sem hann vísaði í hér að ofan: "Þannig eru frístundaheimilin miðstöðvar þar sem börnin koma saman, fara þaðan í dans, fótbolta, karate, píanótíma eða kirkjuna og taka þátt í því starfi sem þau hafa áhuga á"

Ætli það sé bara í Seljahverfi sem að eina starfið sem boðið er upp á innan þess tíma sem börnin eru í frístundaheimilinu sé kirkjan. Ef börnin gætu valið um allt þetta sem þú ræðir um hér að ofan þá gæti ég í sjálfum séð samþykkt að foreldrar sem vildu senda barnið sitt í tíma hjá kirkjunni gerðu það. En raunveruleikin er ekki sá allavegana í Seljahverfi. Kirkjustarf er inn á stundatöflunni og við þurfum sérstaklega að biðja um að barnið fari ekki og hún situr þá eftir og má svo sem leika sér með dótið eða lita en ekkert prógram á móti. Þarna er ekki boðið upp á dans, fótbolta osfrv. slíkt starf er alveg fyrir utan starf ÍTR og við sækjum þá tíma sjálf eftir 5.

Halldór E. - 23/10/06 00:23 #

Dansinn, íþróttaskólinn, píanótímar og fleira, í því hverfi þar sem ég starfaði og dóttir mín var í skóla, var ekki á vegum ÍTR, frekar en kirkjan, heldur í boði á starfstíma frístundaheimilisins.

Ég verð að viðurkenna að ég hélt að þetta módel væri það sem unnið væri eftir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Það er/var alla vega opinber stefna frístundaheimilanna og ég hélt í einfeldni minni að svona væri þetta alls staðar. Ég veit alla vega að kirkjan (víðast hvar) telur sig vera að vinna eftir þessu módeli.

Gyða - 23/10/06 08:23 #

Ég skildi alveg að þetta væri ekki á vegum TBR en það sem ég er að reyna að koma frá mér er að það er ekki boðið upp á þetta starf á þeim tímum sem börnin eru í umsjá TBR nema bara Kirkjuna og hana þarf maður að afpanta ef maður vill hana ekki.

Matti - 23/10/06 10:30 #

Sjáið hvernig kollegi Halldórs talar um málið.

Gott gildismat

Það er ótrúlegt hvað sumir prestar leggjast lágt í málflutningi sínum.

Halldór E. - 23/10/06 14:42 #

Ég skil þig Gyða og mig undrar að samspilið sé ekki betra í Seljahverfi og líklegast víðar (ég er ekki up-to-date enda erlendis). Ég er líka ósammála því að það þurfi að afpanta kirkjustarfið en ekki panta. Kirkjan á að mínu mati að kalla eftir skuldbindingu en ekki ganga fram í einhvers konar "sjálfhverfu" um eigið ágæti.

Hins vegar er ljóst að umræðan um "Vinaleiðina" er á endalausum villigötum skotgrafarhernaðar og mér sýnist margir kirkjunnar menn, beita því sem Matti kallaði "biskupsrök Halldórs" í umræðum um daginn. Ég hins vegar varaði ykkur Vantrúarmenn við því að nota trúboðshugtakið, enda myndu kirkjunnar menn hanga á því í svörum sínum.

Ef þið bara hlustuðuð á mig...

Birgir Baldursson - 23/10/06 20:00 #

Er trúboðshugtakið óheppilegt vegna þess eins að kirkjufólk lítur hugtakið trúboð einungis sem trúarítroðslu í þá sem ekki eru kristnir fyrir? Það gleymist að taka það með í reikninginn að börn eru ekki kristin, þau hafa engar forsendur til að taka afstöðu til slíkrar heimsmyndar.

Þau eru trúgjörn, það er allt og sumt. En í stað hugtaksins trúboð mætti auðvitað nota innræting.

Halldór E. - 24/10/06 14:50 #

Nei, trúboðshugtakið er óheppilegt vegna þess að í samræðum við fólk sem er ósammála þér, er ekki vænlegt til skilnings að nota gildishlaðinn orð. Það á við um orð eins og trúboð, trúarítroðslu og innræting.

Matti - 24/10/06 14:55 #

Stundum er dálítið erfitt að átta sig á því hvað nákvæmlega er gildishlaðið og hvað ekki :-) Innræting og trúboð hélt ég í fullri alvöru að væru tiltölulega saklaus og gagnleg orð!

Hjalti Rúnar Ómarsson - 24/10/06 19:19 #

Það er nú fínt að þér finnist þetta vera gildishlaðið orð (líklega neikvætt þá). Vonandi hefur fleira fólk svipaða afstöðu til trúboðs.

Annars er verið að boða trú (kristni) í Vinaleið, þannig að ég sé ekkert af því að nota þetta orð.

Halldór E. - 24/10/06 23:56 #

Ég tel já, að orðið/hugtakið trúboð hafi neikvæða gildishleðslu. Hins vegar er ekki þar með sagt að kristniboð eða útbreiðsla trúar sé neikvæð.

Birgir Baldursson - 25/10/06 19:48 #

En útbreiðslu trúar má samt ekki kalla trúboð, af því að það er neikvætt orð? Hvað nota Þjóðkirkjumenn þá í staðinn? Vinaleið? Sálgæsla? Kærleiksþjónusta?