Örvitinn

Þreyta, tóm viskíflaska og stóísk ró

Ég er dauðuppgefinn eftir eldamennsku dagsins. Það tekur virkilega á að standa í eldhúsinu í marga tíma. Ekki það að ég vorkenni mér, Gyða sá um allt annað, tók til og þreif, pakkaði gjöfum, baðaði stelpurnar, og klæddi þær. Ég slapp í raun afskaplega vel.

En í stað þess að fara í bælið sit ég í stofunni og klára rauðvínið, dálítið hífaður. Það er eitthvað svo notalegt að hafa ró í húsinu, allt stress búið og ekkert fór úrskeiðis. Matur heppnaðist afskaplega vel, allir voru ánægðir. Kvöldið var notalegt og stresslaust. Súkkulaðikakan sem Gyða bakaði var dúndur, algjör súkkulaðisprengja. Fæ mér meira á morgun með vanilluís. Þetta er svona súkkulaðikaka sem maður verður að borða í litlum skömmtum, æði.

Ég þarf að kaupa mér aðra svona viskí flösku, hún er næstum búin. Gestir hafa nær undantekningarlaust verið afskaplega hrifnir af þessu (Óli Gneisti er undantekning, en það er lítið að marka hann í þessum málum :-) ) Ég keypti þessa flösku fyrir rúmum tveimur árum held ég, í fríhöfninni á Heathrow. Annars er ég ekki viss. Pabbi vildi meina að þetta væri eitt besta viskí sem hann hefur drukkið. Viti menn, það fæst í Ríkinu. Bushmills flaskan mín er líka að tæmast, þetta er agalegt ástand. Eina viskíið sem ég á eftir er óttalegur ruddi.

dagbók
Athugasemdir

Skúli - 25/12/06 16:05 #

Þessi er líka góður með hangiketinu.

Mummi - 25/12/06 21:37 #

Fljótandi hangikjöt með normal hangiketi, gæti verið fróðlegt :)

Skúli - 26/12/06 23:58 #

Það komplímenterar hvort annað! :q

Binni - 29/12/06 18:03 #

Allt er þetta gott viskí. Írar kunna hins vegar ekki að gera viskí að mínu hógværa mati.

Eggert - 31/12/06 12:48 #

Mér finnst nú vanta Laphroaig í umræðuna.

Skúli - 31/12/06 16:40 #

Sigurður heitinn Sigurðsson sem var meðhjálpari íslenska safnaðarins í Gautaborg átti mikið safn maltvískýja og mátti þar m.a. finna japanskt, tælenskt og tævanskt malt - hvert með sínum sérkennum. Það japanska t.a.m. alveg flauelsmjúkt og rekur uppruna sinn til skota nokkurs sem flutti þangað austur á 18. öld ef ég man rétt.

Mest hélt hann þó upp á írskt viský og útskýrði fyrir mér muninn á framleiðslu þess og hins skoska. Írarnir láta víst reykinn ekki leika um byggið þegar það spírar yfir eldinum. Fyrir vikið verður það ekki eins kröftugt og hið skoska en sætara og mýkra einhver veginn.

Ég erfði eftir hann forláta númeraða flösku í timburkassa. Hana ætla ég að opna þegar þetta klárast! Vonandi verður það ekki komið fram yfir síðasta söludag þegar sá dagur rennur upp!

Gleðilegt ár.