Örvitinn

Fábjánar

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort einhver takmörk séu á því hve miklir fábjánar fólk geti verið. Ég held að fábjánaskapur hljóti að hafa einhver efri mörk eða væri nær að tala um neðri mörk?

Þegar fjölskyldan kom heim klukkan þrjú í nótt eftir áramótaboð á Arnarnesi var bíll fyrir framan bílskúrinn okkar.

px102

Hvað er fólk að pæla sem leggur fyrir framan bílskúra annarra? "Hey, við erum svo sannarlega heppin, hér er laust stæði" - En blasir ekki við að inni í bílskúrnum gæti verið bíll? Blasir ekki við að bílskúrinn tilheyrir húsi? Nei, það blasir ekki við ef maður er fábjáni. Blasir ekki við að á gamlárskvöldi er nokkuð líklegt að fólk muni koma heim til sín seint og hafi jafnvel hugsað sér að leggja fyrir framan eða (gasp) inni í bílskúrnum sínum. Vert er að taka fram að okkar bílskúr er fullur af drasli og ekkert pláss fyrir bíl þar inni, en fábjáninn vissi ekkert um það.

Þetta gerist ansi reglulega hér í Bakkaseli. Áðan var þetta tiltölulega lítið vesen þar sem stelpurnar voru vakandi (en tæplega þó) og því þurfti ekki að bera þær. Við gátum lagt í bílastæði nokkurn spotta frá okkar húsi og bárum allt draslið inn. Ef bíllinn verður þarna ennþá á morgun læt ég draga hann í burtu.

Fyrir nokkrum árum lentum við í því að ég þurfti að rjúka í Apótek til að kaupa verkjalyf handa Kollu sem var með eyrnabólgu. Þegar ég fór út var bíll fyrir framan bílskúrinn okkar og bíllinn okkar inni í bílskúr. Ég þurfti að ganga hringinn og athuga hjá öllum nágrönnum hvort einhver gestur þeirra hefði lagt í stæðið. Að lokum fannst fábjáninn í það skipti. Oft hef ég lagt fyrir aftan bíla þegar ég kem heim og finn bíl fyrir framan bílskúrinn, alltaf hefur þeim tekist að smokra sér út án þess að þurfa að biðja mig um að færa bílinn enda legg ég aldrei það nálægt. Spurning hvort að það rétta í stöðunni væri ekki bara að lykla bílinn!

Talandi um fábjána, klukkan er korter yfir fjögur. Er ekki í lagi að taka sprengjupásu?

kvabb
Athugasemdir

Davíð - 01/01/07 05:15 #

Væri eitthvað óeðlilegt að láta draga bílinn burt á kostnað eiganda?

Matti - 01/01/07 05:31 #

Alls ekki og það geri ég ef bíllinn verður þarna ennþá á hádegi.

Eva - 01/01/07 11:09 #

Þú hringir í lögguna og gefur upp bílnúmer. Þeir hafa upp á eigandanum og segja honum að pilla sig. Mun fljótlegra en að láta draga hann burt, allavega ef viðkomandi er með skráðan gemsa og kveikt á honum og gefur þér auk þess tækifæri til að hinkra eftir honum og lesa honum pistilinn ef þig langar.

Maggi - 01/01/07 11:51 #

Þetta eru bara hreinustu Móðuharðindi. Alltaf gaman af smáborgaravæli.

Matti - 01/01/07 12:21 #

Hvaðan kemur þessi þörf til að senda inn athugasemdir? Ég myndi nenna Magga hefði hann gefið upp löglegt póstfang en hann gerði það ekki og fellur því ósköp einfaldlega í hóp fábjánanna.

Hver talar um Móðuharðindi? Þetta er ekki væl, þetta er kvabb. Lestu þessar færslur og þá sérðu að þessi tiltekna færsla er ekki neitt.

Oh hvað mér leiðast svona athugasemdir óskaplega.

Þess má geta að búið er að færa bílinn. Næst hef ég hugsað mér að fara að ráðum Evu og hringja strax í lögregluna.

Óli Gneisti - 01/01/07 17:22 #

Hvað með að skera bara á hjólbarðana næst? Lenti annars í því um daginn að einhver lagði bíl fyrir aftan bílinn minn (og í leiðinni fyrir aftan þrjá aðra). Sem betur fer er bíllinn minn lítill og það var hægt að troða honum framhjá en ég efast að hinir bílarnir hafi komist svona vel frá.

Matti - 01/01/07 17:24 #

Æi, ég vil ekki skemma eigur annarra. Næst pissa ég á bílinn :-)

Mummi - 01/01/07 23:10 #

Pissa á handfangið á bílnum þannig að hann grípi um það og pissa á miðstöðina þannig að það verði hlandlykt inni í bílnum hans? Þú ert næstum því illur Matti ;)