Örvitinn

Vantrú og VG

Gísli Freyr Valdórsson er Moggabloggari, afskaplega hægrisinnaður sýnist mér út frá efnistökum og vísunum. Um daginn fjallaði Gísli um umræðuna sem upp hefur komið um trúfélög og meðferðarstarfsemi í kjölfar Byrgismálsins. Það virðist fara framhjá Gísla að gagnrýnin hefur fyrst og fremst snúist um það að Ríkið greiðir trúfélögum fyrir slíka starfssemi og stór hluti meðferðar þeirra er trúboð, líka hjá Samhjálp.

En það sem vakti athygli mína við pistil Gísla var þessi klausa:

Það sama gildir með Steingrím Joð. Hann kærir sig líklega ekki um atkvæði þeirra sem eru hluti af þessu hræðulegu trúfélögum sem hann hefur greinilega ekki mikið álit á. (Það er reyndar athyglisvert hversu mikil tengsl eru á meðal Vantrúar-manna og VG en það er nú annað mál - og þó?)

Framsóknarmaðurinn Sveinn Hjörtur greip þetta á lofti og setti inn feitletraða athugasemd

Mæli með að þú flettir ofan af þessum tengslum! Skora á þig að gera það. Þetta er afar athyglisvert.

Ég hef ekkert verið að auglýsa það sérstaklega, en ég er formaður Vantrúar og eins og flestir sem lesa þessa síðu vita, ansi vel tengdur félaginu, einn af fyrstu meðlimum (nr. 4 held ég) og hef rekið vefþjón félagsins og séð um tæknimál.

Vissulega eru nokkrir Vantrúarsinnar félagar í VG, en miðað við nýjustu skoðanakannanir sýnist mér hlutfallið undir kjörfylgi! Ekki að það skipti nokkru máli, í Vantrú er fólk með afar ólíkar skoðanir á stjórnmálum, lengst til vinstri (jafnvel langt vinstra megin við VG !), í kringum miðjuna og svo lengst til hægri. Flokksbundnir Vinstri grænir, Frjálslyndir, Samfylkingu, Sjálfstæðismenn og meira að segja Framsóknarmaður (já, ég veit - magnað). Í raun er afar eðlilegt að hlutfall VG meðlima innan félags eins og Vantrúar sé nokkuð hátt því hlutfall trúleysingja innan VG er vafalítið töluvert hærra en hjá hinum flokkunum. Þannig virðast Sjálfstæðisflokkur og Framsókn stundum vera útibú Þjóðkirkjunnar eða Hvítasunnusafnaða miðað við framgöngu forsvarsmanna þeirra flokka. Sjálfur hef ég hingað til verið talinn frjálslyndur hægrimaður þó ég sé afskaplega hógvær í þeim málum, óflokksbundinn og vafalítið argasti miðjumaður ef eitthvað.

Annað merkilegt við orð Gísla er að Steingrímur Joð hefur hingað til ekki verið framarlega í fylkingu þeirra sem vilja skera á tengsl Þjóðkirkjunnar og ríkisins og ég held (þó ég þekki innri mál VG eiginlega ekkert) að þar sé hann með hógværari mönnum þegar kemur að trú(leysis)málum.

Ég setti inn athugasemd hjá Gísla Frey og bað hann um að upplýsa mig um þessi miklu tengsl en hann hefur ekki svarað þrátt fyrir ítrekun. Ég á ekkert sérstaklega von á því að hann "fletti ofan af þessum tengslum".

Nær væri að fletta ofan af Moggablogginu (æi, þetta var ekki alveg að virka :-) )

efahyggja pólitík
Athugasemdir

Eyja - 25/01/07 12:10 #

Mikið leiðist mér þetta Moggablogg. Í alvöru, það liggur einhver slikja yfir því sem fer alveg ferlega í pirrurnar á mér. En já, sem sagt, ætli Þórarinn Tyrfingsson sé ekki bæði í Vantrú og VG?

Hjalti Rúnar Ómarsson - 25/01/07 12:17 #

Í könnuninni Trúarlíf Íslendinga er hægt að sjá fylgnina á milli trúar- og stjórnmálaskoðana.

Óli Gneisti - 25/01/07 18:03 #

"Til varnar frelsinu". Þvílíkur brandari.

Ásgeir - 27/01/07 19:35 #

Ætlar hann ekkert að bakka þetta upp, maðurinn?

Matti - 28/01/07 01:43 #

Neibb !

Matti - 28/01/07 22:23 #

Nú síðast eyddi Gísli athugasemd frá mér við aðra færslu þar sem ég rukkaði hann um svar.

Mér sýnist hann of mikil rola til að draga dylgjur sínar til baka. Frelsið sem hann er að verja er væntanlega frelsið til að segja ósatt!

Hjalti Rúnar - 28/01/07 22:26 #

Á blogginu sínu gefur hann upp tölvupóstfangið sitt: gislifreyr(a)simnet.is

Spurning um að senda honum tölvupóst og rukka hann um svör.

Matti - 28/01/07 23:15 #

Æi, þegar maðurinn er farinn að eyða athugasemdum mínum þar sem ég rukka hann um svör finnst mér ólíklegt að hann hafi manndóm í sér til að svara tölvupósti.