Örvitinn

Kristján G. Arngrímsson: "Richard Dawkins er yfirlætislegur vindbelgur"

Kristján G. Arngrímsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, er ekkert sérstaklega hrifinn af Richard Dawkins*. Hans álit á Dawkins er þetta:

En ég fer ekki ofan af því að Richard Dawkins er yfirlætislegur vindbelgur. #

Þetta kemur mér á óvart, því þegar ég hitti Dawkins (jájá, þetta er smá mont) virtist hann ljúfur, hógvær og mannblendinn (en samt feiminn) náungi. Þeir sem umgengust hann meira en ég höfðu ekkert nema gott um hann að segja. Engan heyrði ég kalla Dawkins vindbelg.

Hvað ætli Kristján G. Arngrímsson hafi fyrir sér í þessu máli? Ekki rembdist Morgunblaðið við að ræða við Dawkins þegar hann kom hingað, sjálfstætt starfandi blaðamaður tók stutt viðtal við hann sem birtist í Mogganum - í stað þess að opna væri tileinkuð þessum heimsfræga fræðimanni. Satt að segja þurfti að hafa töluvert fyrir því að koma Dawkins og öðrum ráðstefnugestum í viðtöl hjá íslenskum fjölmiðlum!

Auðvitað hefur Kristján fullan rétt á þessari skoðun en mikið óskaplega hefði ég gaman af því að sjá hann rökstyðja hana. Það kæmi mér ekkert ofsalega á óvart ef hún byggir á útúrsnúningum á málflutningi Dawkins og vanþekkingu á skrifum hans. Nóg sást af slíkum viðbrögðum eftir komu Dawkins síðasta sumar, sérstaklega frá Þjóðkirkjuprestum. En ég gæti haft rangt fyrir mér, eflaust er Kristján búinn að stúdera málið.

Þess má geta að Richard Dawkins varð 66 ára í gær.

*Kannski er Kristján bara fúll yfir því að hans nafn er ekki á wikipedia síðunni um Dawkins :-P

fjölmiðlar vísanir
Athugasemdir

Óli Gneisti - 26/03/07 23:14 #

Greinilegt að hann hefur ekki hitt manninn ;) Ég hafði einmitt mest gaman af því hvað hann var hógvær og indæll við alla. Til fyrirmyndar í alla staði þrátt fyrir að vera álitinn einn gáfaðasti maður heims.

Gunnar - 07/04/07 21:44 #

Hér má sjá yfirlætislega vindbelginginn í Dawkins. Breskur fjölmiðlamaður skrifaði málefnalega grein í Telegraph þar sem hann gagnrýndi Dawkins (og hans líka). Greinin er birt á heimasíðu Dawkins. Eins og einatt eru skrifaðar misgáfulegar og miskurteisar athugasemdir við greinina. Dawkins tekur kurteislega fram við fjölmiðlamanninn að athugasemdir séu ekki ritskoðaðar en milli móðgananna megi finna góða punkta.

Þeir sem stimpla Dawkins sem yfirlætislegan vindbelg geta náttúrulega tekið þetta sem dæmi um yfirlæti hjá honum — þ.e.a.s. í garð yfirlætislegra vindbelgja. :-)

Óli Gneisti - 08/04/07 17:02 #

Kommon, þetta er nú alls ekki málefnaleg grein. Endapunkturinn til dæmis er fáránleg tilraun til að gera Dawkins og öðrum upp skoðanir sem þeir hafa í raun ekki. Ef maður hefur lesið eitthvað eftir Dawkins þá sér maður fljótt hve fáránlegur málflutningur þetta er hjá manninum.

Það er löngu ljóst að trúmenn hafa tekið upp þá aðferð að fást við Dawkins að stilla honum upp sem hrokafullum fýlupúka. Þetta er taktík sem virkar vel á þá sem eru of latir til að kynna sér málin sjálfir.

Gunnar - 08/04/07 20:53 #

Ég hefði átt að segja "málefnalega en gagnrýniverða". Ég er alls ekki sammála þessum fjölmiðlamanni en mér fannst hann leitast við að vera sanngjarn. Það er ekki þar með sagt að gagnrýni hans hafi endilega verið sanngjörn. En hann var ekki með skítkast og var að mínu mati "í góðri trú" með sína gagnrýniverðu gagnrýni. :-)

Mér finnst vel mögulegt að samræður þar sem einn hefur miklu réttara fyrir sér en hinn, séu málefnalegar af beggja hálfu. Fyrirgef honum Óli Gneisti því hann veit ekki betur. :-)

En við getum alveg verið svolítið ósammála um hvað telst vera málefnalegt og hvað ekki. Ég skrifaði þessa athugasemd til að benda á hversu kurteis og sanngjarn Dawkins leitast við að vera. Þetta lýsingarorð slæddist bara með hjá mér og er aukaatriði.