Örvitinn

Eggjakaka dagsins (með tortellini)

eggjakakaÉg eldaði eggjaköku í hádeginu. Eins og vanalega elda ég eggjaköku úr því sem til er í ísskápnum.

Nú átti ég tortellini afganga (með ostafyllingu), smá kalkúna frá því í gærkvöldi, beikon, rauðan chili, ferska basiliku, parmesan ost, appelsínugula papriku, lauk, hvítlauk og að sjálfsögðu egg.

Braut egg í skál (held þau hafi verið sjö allt í allt), hrærði saman við smá mjólk. Reif parmesan ost saman við eggin og saxaði basiliku sem fór líka í skálina og bætti svo svörtum pipar út í ásamt smá maldon salti. Steikti hvítlauk, lauk, chili og papriku í smá olíu. Bætti svo beikon og kalkúna út á. Þegar þetta allt tilbúið hellti ég eggjablöndunni út í, hrærði í smá stund, reif svo parmesan ost yfir og skellti pönnunni í blástursofn á 160° í svona 10-15 mínútur eða þar til osturinn var orðinn ljósbrúnn. Lét pönnuna standa með loki í svona 10 mínútur áður en eggjakakan var borin á borð.

Borðað með tómat- eða mangósósu.

matur
Athugasemdir

Guðsteinn Haukur - 17/09/07 16:02 #

Þessi lítur afar vel út Matti og ætla ég að prófa hana! Ekki spurning!

En hér er ein afar einföld sem ég lærði hjá alvöru frönskum kokki (ég er af frönskum ættum, hann er frændi minn sem vinnur), hún er doldið öðruvísi - en þú sérð ekki eftir að hafa prófað hana, hún 100% frönsk og hef ég engu breytt frá hans uppskrift.

Þessi uppskrift er fyrir tvo.

Hráefni:

2 egg, 1/4 teskeið Maldon salt (smekks atriði) 1/2 teskeið sýrður rjómi (sama hvaða tegund) Mikið af nýmöluðum pipar. (smekks atriði) Parmesan ostur er svo rifinn yfir.

Aðferð: Galdurinn við þessa, er að handþeyta eggin svo að þau verða froðukennd og betra er að þeyta eins lengi og hægt er. (Ágætis eldhúsleikfimi) Eftir þessa þeytingu er þetta sett á pönnu með mjög vægum hita, lok er sett yfir og þessu er leyft að malla þangað til þú getur lyft brúnunum upp án erfiðis. Gott er að steikja sveppi eða lauk og setja á þessa, hún er virðist afar einföld - en stundum er einfaldleikinn sterkastur! Taktu eftir að það er enginn mjólk í þessari, og þess vegna er þess virði að prófa hana.

Guðsteinn Haukur - 17/09/07 16:08 #

Öhömm .. ég kláraði ekki eina setningu þarna, ég sagði:

(ég er af frönskum ættum, hann er frændi minn sem vinnur á frönskum veitingastað)

Sorrý :-/

Matti - 21/09/07 16:00 #

Ég prófa þessa við tækifæri.