Örvitinn

Frá Íslandi til Frakklands

Þar sem við áttum flug um eftirmiðdaginn gátum við notað morguninn til að ganga frá lausum endum. Sóttum Áróru og kíktum svo í Hugver þar sem ég keypti rafhlöðu í ferðavélina og lítinn flakkara (ferðatölvudisk (120GB) og hýsingu). Mamma kíkti við hjá okkur og fékk lykla og aðstoðaði okkur við að koma af stað. Við vorum tilbúin klukkan eitt, en fundum reyndar ekki hleðslutækið fyrir psp-ið hennar Áróru , komum því við heima hjá pabba hennar, en þar fannst það ekki heldur.

Á leiðinni til Keflavíkur spurði ég svo Gyðu hvort hún væri ekki örugglega með ökuskírteinisstaðfestinguna mína – svo var ekki, hún var í bílnum hennar. Við hringdum í mömmu sem reddaði því máli, sótti blaðið og brunaði á eftir okkur til Keflavíkur – við ætluðum að mæta snemma í bókunina svo við fengjum örugglega sæti saman fjölskyldan. Við náðum að mæta snemma og fengum sæti saman á fínum stað í vélinni. Stelpurnar fóru í gegnum öryggistékk en ég beið eftir mömmu sem kom fljótlega, ók eflaust eins og brjálæðingur.

Kolla í stuði á LeifsstöðVið komum okkur fyrir í fríhöfninni, fengum okkur snarl og slökuðum á, tja - reyndum að slaka á, stelpurnar voru spenntar. Ég kíkti í Elkó og keypti Garmin tæki, keyptum einnig snyrtivörur og lesefni.

Fluginu seinkaði um hálftíma og okkur tókst að vera með síðustu farþegum inn. Flugvélin var hálftóm og því ljóst að við hefðum ekkert þurft að flýta okkur í tékkið. Ég las í Assault on reason í vélinni, við keyptum okkur ágætt brauð og ferðin gekk fljótt.

Þegar út var komið vorum við enga stund í gegnum flugstöðina, töskurnar komu að vísu á röngu færibandi en það uppgötvaðist fljótt. Þegar við vorum að labba út með töskurnar hringdi bílstjórinn í mig, hann beið þá eftir okkur hinum megin við tollhliðið.

Ferðin á hótelið gekk hratt og vel, ég prófaði Garmin tækið í fyrsta skipti og ræddi mikið við bílstjórann sem var afar hjálplegur og fræddi okkur um París. Ég fékk nafnspjald hjá honum og er að spá í að fá hann til að skutla okkur á flugvöllinn í lok ferðar. Borgaði honum €100, en uppsett verð var €85.

New York hótelið er glæsilegt. Þar vorum við með tvö stór samliggjandi herbergi á áttundu hæð með útsýni yfir vatnið, alveg frábær aðstaða. Vorum seint á ferðinni og búin að missa af veitingastöðum en samt ennþá svöng, pöntuðum því pizzur á room service, eina stóra fjögurra osta pizzu og tvær mikka mús pizzur, með þessu sprite.

Ég setti Garmin tækið í hleðslu með því að kveikja á ferðavél og tengja tækið með usb tengi, rafmagnssnúra fylgdi ekki með. Komst að því að það var þráðlaust net á hótelinu sem borga þarf fyrir (frá Orange). É g ákvað að sleppa því þetta kvöld. Fórum að sofa kortér yfir eitt að staðartíma. Settum „do not disturb“ á dyrnar.

Myndir dagsins voru frekar fáar.

Næsti dagur

Frakkland 2007