Örvitinn

Heill dagur í Eurodisney

Við vöknuðum ekkert alltof snemma, en nógu snemma til að ná morgunmat á hótelinu, dæmigerðan hótelverðarmorgunverð með beikoni, eggjahræru og morgunkorni. Röltum svo í garðinn til að eyða heilum degi þar.

stelpurnar í garðinumByrjuðum í þeim hluta garðsins sem er sérstaklega fyrir yngstu börnin, eyddum dágóðum tíma þar. Byrjuðum í ferð sem heitir it's a small world, sem féll vel í kramið hjá stelpunum, enda bjart og jákvætt. Því næst fóru stelpurnar í bollana og skemmtu sér vel. En svo kom babb í bátinn, því næstu tæki voru myrk og hræddu stelpurnar. Því miður var erfitt að losa þær við hræðsluna það sem eftir var, sérstaklega Ingu Maríu. Það er mér ráðgáta hvers vegna svo mikið af barnatækjunum (eins og Gosatækið og Pétur Pan) þurfa að vera svona dimm og til þess fallin að hræða lítil börn.

Fengum okkur pasta á skyndibitastað í hádeginu. Pöntuðum fjóra skammta og ég sá um afgangana, fékk rúmlega heilan skammt með þeirra aðferð.

Ég hjó eftir því að kynþáttaskipting er afar sterk í garðinum. Gestir eru að lang stærstum hluta frekar ljósir á hörund en starfsfólk upp til hópa hörundsdökkt. Ég sá afar fá þeldökka gesti, svo fáa að þeir stungu í stúf.

Skrúðganga í EurodisneyUm miðjan dag var skrúðganga um garðinn. Við föttuðum ekki að mæta snemma og vorum því fyrir aftan fullt af fólki og þurftum að halda á stelpunum svo þær sæju eitthvað. Ég hélt að bakið á mér myndi endanlega fara við það enda er Kolla ekkert smábarn lengur (og pabbi hennar ekkert sérlega hraustur um þessar mundir). Hún spilaði þó með og okkur tókst að horfa á gönguna og ég náði meira að segja að taka nokkrar myndir.

Þrátt fyrir að stelpurnar þorðu varla í nokkur tæki fundum við leiksvæði sem þær gátu skemmt sér á og svo fórum við líka í lestina í kringum garðinn. Ég og Áróra fórum svo í rússíbana. Áróra hefði alveg örugglega ekki þorað ef hún hefði vitað hverslags rússíbani þetta var en hún skemmti sér afskaplega vel. Það munaði töluverðu að rússibaninn var inni og í myrkri, því sá maður ekki vel alla snúningana – en fann fyrir þeim.

Eftir langan dag borðuðum við kvöldmat á Planet Hollywood. Það fannst okkur viðeigandi þar sem við vorum eiginlega í Bandaríkjunum. Ég pantaði „rare“ nautasteik en fékk á borðið til mín einhverja þá ofsteiktustu steik sem ég hef á ævi minni séð – hún var „very very well done“. Ég kvartaði og fékk nýja steik sem var í góðu lagi. Gyða pantaði sér svínarif sem mér þóttu miklu meira spennandi, er búinn að komast að því að ég er ekkert rosalega mikið fyrir nautasteik, finnst hún góð – en ef ég á að velja myndi ég velja svínarif. Á Planet Hollywood var ljósmyndari sem tók myndir af gestum, mér þóttu tilburðir hans ansi skemmtilegir. Hann var að sjálfsögðu með Nikon D200 og SB-800 flass, en linsuna þekkti ég ekki. Hann tók ágæta mynd af fjölskyldunni sem við keyptum. Allir opinberir ljósmyndarar í Eurodisney voru með Nikon vélar, bæði D200 og D2X.

Kolal að fá eiginhandaáritun hjá Mikka músÁ hótelinu hittum við Mikka mús sem var að dansa og gefa eiginhandaáritanir. Hápunktur þess að vera í Eurodisney fyrir stelpurnar var að hitta Disney fígúrunar. Kolla fór og fékk eiginhandaráritun Mikka í minnisbókina hennar Áróru.

Þegar við komum á hótelherbergið keypti ég aðgang að þráðlausa netinu í þrjá tíma. Ég, Gyða og Áróra gátum kíkt á netið og skoðað fréttir.

Við ræddum aðeins um vasaþjófa og Gyða kom með snilldar „lausn“ á því vandamáli. Jú, kannski væri málið að dreifa verðmætum í vasana. Ég bað hana um að íhuga hugtakið „vasaþjófur“ örlítið betur.

Þennan dag tók ég slatta af myndum

Fyrri dagur - næsti dagur

Frakkland 2007