Örvitinn

QLink hálsmen og Viðskiptablaðið

Ég skrifaði grein dagsins á Vantrú. Fjalla þar um QLink hálsmen sem er nýjasta bullið á markaðnum. Skrifaði greinina á alltof stuttum tíma í nótt.

Í Viðskiptablaðinu í dag er grein um trúleysi á Íslandi. Þar er meðal annars rætt við mig. Ég á eftir að lesa greinina en er búinn að heyra það sem eftir mér er haft. Stend við það allt þó ýmislegt hafi komið fram í viðtalinu sem ekki ratar í blaðið.

09:51
Jæja, nú er ég búinn að lesa greinina og ég verð að segja að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum. Uppstilling blaðsins er frekar klén að mínu mati, eiginlega villandi. Hann stillir Dawkins upp sem einhverjum "leiðtoga" trúleysingja og tekur svo viðtöl við tvo vísindamenn til að gera lítið úr ýktri mynd af áherslu okkar á vísindi. Einnig dregur hann fram eina tilvitnun mína, um vísindi og trú, til að stilla því upp á móti orðum þessara vísindamanna og ég kem ekkert sérlega vel út í því samhengi.

Málið er að við áttum klukkutíma samtal og hann notar úr því búta, sem er eðlilegt. Ég geri enga athugasemd við þær tilvitnanir sem hann notar, allt er rétt eftir mér haft. Margt af því sem ég sagði en ekki rataði í viðtalið hefði að mínu mati gefið réttari mynd af okkar málstað. Þetta er náttúrulega mér að kenna, ég var ekki nægilega vel undirbúinn. Læri af þessu.

Ég skil ekki alveg af hverju blaðamanni þótti ástæða til að gera úr okkur meira öfgafólk en við þó erum, af nógu er að taka. Ég ræddi einmitt töluvert við hann um öfgar og hófsemi en ekkert af því ratar í greinina. Hann fjallar ekkert efnislega um gagnrýni okkar á ofríki Þjóðkirkjunnar, leikskólatrúboð, Vinaleið og peningabruðl. Í raun finnst mér magnað að í grein í Viðskiptablaðinu sé ekkert komið inn á peningahliðina.

Uppstillingin er í raun sú að trúleysingjar séu barnalegir varðandi traust sitt á vísindi og einu vísindi sem við aðhyllumst séu umdeildar kenningar Dawkins! Ég held ég hafi aldrei minnst á Dawkins í þessu samtali okkar - og þó, ég vitnaði í inngang hans að God Delusion kiljunni, en þar talar Dawkins um fólkið sem "er trúleysingjar en..." Þessi tenging við Dawkins er afar villandi og reyndar frekar dæmigerð fyrir þau skot sem við fáum gjarnan á okkur frá guðfræðingum.

Jæja, kannski er vond umfjöllun betri en engin.

efahyggja vísanir
Athugasemdir

Jón Magnús - 13/07/07 12:03 #

Ég get tekið undir mér þér að þessi uppstilling þ.e. trúaðir vísindamenn vs. trúleysingar finnst mér ekki sniðug. Auðvitað er það vitað að til eru trúaðir vísindamenn en þeir eru hlutfallslega miklu færri innan vísindasamfélagsins en meðal venjulegs fólks.

Annars finnst mér þetta mjög gott hjá Viðskiptablaðinu að koma með þessa umfjöllun. Það hefur ekki verið mikið um greinar um jákvæðar/neikvæðar hliðar trúleysis í blöðunum og því fagna ég þessari umfjöllun þótt hún sé ekkert sérstaklega jákvæð í garð trúleysis.

Þetta er því miður ennþá jaðarskoðun og því er öll umfjöllun góð umfjöllun þótt að maður geti stundum verið ósáttur við hvernig blaðamenn matreiða hlutina.

Trúleysingar ættu kannski eingöngu að tala við blaðamenn eins og þann sem gerði greinina um hómópatíu í mbl um daginn. Það var eitt lof út í gegn :)

Árni Þór - 13/07/07 12:29 #

Varðandi hina trúuðu vísindamenn þá þarf að taka skýrar fram hvaða trúarbrögð þeir eru að verja.

Ég skal veðja hárinu á mér upp á það að allir þeir vísindamenn sem rætt var við í greininni trúi t.d. ekki á meyfæðinguna, upprisuna eða endurkomu Jesú Krists á síðustu dögum.

Tek undir að það er fínt að fá umfjöllun.

Óli Gneisti - 13/07/07 18:04 #

Þegar maður les þetta þá fær maður sterkt á tilfinninguna að blaðamaðurinn hafi verið búinn að ákveða hvað hann ætlaði að skrifa áður en hann talaði við nokkurn mann.

Matti - 13/07/07 20:01 #

Já, mér finnst það líka þegar ég les greinina í samhengi við samtal okkar. Eins og hann hafi bara verið að fiska eftir tilvitnunum sem hentuðu í þessa grein, því þetta er alls ekki það helsta sem okkur fór á milli.

Birgir Baldursson - 13/07/07 21:25 #

Mér finnst klént hjá honum að afgreiða okkur sem klúbb um að safna ekki frímerkjum. Í viðtalinu talaði ég í löngu máli um skaðsemi trúarhugmynda og annarra hindurvitna sem mótívasjón fyrir starfi okkar. Í staðinn sér hann ástæðu til að taka mikið af því rými sem ég fæ í umfjölluninni til að tíunda orð mín um óþol gegn kirkjusiðum sem drifkraft í starfi mínu. Um það talaði ég þó aðeins í framhjáhlaupi, það var engan veginn þungamiðjan svari mínu um það hvað hvetti mig áfram í þessari baráttu.

Eins og þið segið, þá er eins og blaðamaðurinn hafi gert sér far um að pikka út allt það sem dregið getur upp mynd af barnalegum öfgamönnum. Það er fyrst og fremst skaðsemi trúarstarfsins sem rekur mig áfram þótt rétt sé líka að þetta vafstur fari í taugarnar á mér óvitrænt á tilfinningalegum basís.

Matti - 13/07/07 22:16 #

Ég lagði mig fram um að útskýra fyrir honum að tilgangur Vantrúar fyrst og fremst að vera mótvægi við boðun hindurvitna.

Það skilaði sér ekki í greinina. En eina setning mín um vísindi og trú, sem var svar við einhverjum pælingum hans og satt að segja frekar vanhugsað, verður eiginlega þungamiðjan í greininni.

Það er alveg ljóst að við áttum að vera "vísindatrúar" áður en hann hitti okkur.

Ég hélt í sakleysi mínu að tilgangur viðtalsins væri að fá innsýn í starf Vantrúar, en nú sýnist mér markmiðið einfaldlega hafa verið að fá tilvitnanir sem hentuðu þeim efnistökum sem þegar höfðu verið ákveðin.

Birgir Baldursson - 13/07/07 22:27 #

Spurning um að við vörum okkur á svona vinnubrögðum þeirra sem vilja taka við okkur viðtöl í framtíðinni, spyrja hver tilgangur viðtalsins sé og fá að lesa útskrift að allri greininni áður en hún birtist, ekki bara að heyra þann hluta þar sem maður sjálfur talar.

Matti - 13/07/07 22:52 #

Við lærum af þessu.

fá að lesa útskrift að allri greininni áður en hún birtist, ekki bara að heyra þann hluta þar sem maður sjálfur talar

Já, mér fannst skrítið af hverju hann vildi frekar lesa upp fyrir mig í síma það sem hann hafði eftir mér frekar en að senda mér drög að greininni í tölvupósti.

Núna veit ég af hverju :-)

Eiríkur Örn - 14/07/07 09:49 #

Án þess ég taki þátt í að þrátta um efni greinarinnar - þá vil ég taka upp hanskann fyrir vin minn Viðar, hvað varðar þetta síðasttalda.

Það eru viðurkennd vinnubrögð í blaðamennsku að lesa upp tilvitnanir fyrir fólk í gegnum síma, eða senda þær með tölvupósti, frekar en að gefa aðgang að allri greininni/öllu viðtalinu. Ástæðan fyrir þessu er einföld, og hlýtur að reynast auðskiljanleg: Það er blaðamannsins að ákveða efnistök og meðhöndlun, en ekki viðfangsins - viðfangið hefur einungis með það að segja hvað það sjálft lætur hafa eftir sér - Blaðamaður er ekki ritari fyrir viðfangið, heldur er viðfangið umfjöllunarefni blaðamanns.

Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar maður fer í viðtöl, og gera ráð fyrir því að fram komi sjónarhorn blaðamanns á manns eigin sjónarhorn - en það væri leiðinda afturfaraskref ef menn ættu á ný að fá að skipta sér af óútkomnum greinum blaðamanna, sem er nokkuð sem tíðkaðist á sama hátt og menn fengu að sjá spurningar fyrirfram, velja og hafna - og sú öll sömul langþéraða ella sem enginn í raun og veru þolir.

Þið verðið í raun og veru bara að þola að finnast þið misskildir - rétt eins og íslenskir guðsmenn verða líklega bara að þola að finnast þið misskilja sig.

Þá er ekki vitlaust heldur að gera sér grein fyrir því að dagblöð eru að flestu leyti skammtímamiðlar - og Viðskiptablaðið er sjálfsagt löngu komið í ruslið, enda laugardagsmorgunn og von á Lesbók, og í næstu viku munu allir hafa gleymt þessu.

Þar að auki komuð þið ekki svo illa út úr þessu, það ég get séð - í það minnsta ekki neitt verr, frá mínum sjónarhóli, en þið hafið gert í eigin greinum á Vantrúarvefnum.

Með kveðju,

Eiríkur

Matti - 14/07/07 11:14 #

Það er blaðamannsins að ákveða efnistök og meðhöndlun, en ekki viðfangsins

Það er enginn að deila á það Eiríkur. Aftur á móti væri heiðarlegra ef blaðamaður kæmi hreint fram og léti viðfangsefnið vita hver efnistök hans myndu vera. Var einhver ástæða til að koma aftan að okkur?

Ef vinur þinn hefði haft samband við okkur og sagt að hann ætlaði að skrifa grein um barnalegt viðhorf okkar til vísinda (sem augljóslega er hans viðhorf, ef miðað er við greinina) og stilla á móti okkur vísindamönnum sem andmæltu okkur (án raka) hefðum við að sjálfsögðu sent vísindamann í viðtalið og einungis tæklað þetta atriði. Ég játa það strax að ég er ekki vísindamaður.

Í staðin mætti ég í langt viðtal og útskýrði tilgang Vantrúar, næstum ekkert af því rataði í viðtalið.

Ég veit að þú og vinir þínir hafa fordóma gagnvart Vantrú og get lítið við því gert, annað en að reyna að leiðrétta ykkur. Reyndar vill svo skemmtilega til að þið hafið líka fordóma gegn því þegar við reynum að leiðrétta okkur.

Þið verðið í raun og veru bara að þola að finnast þið misskildir - rétt eins og íslenskir guðsmenn verða líklega bara að þola að finnast þið misskilja sig.

Þegar guðsmönnum finnst það geta þeir gert athugasemdir við greinar okkar.

Matti - 14/07/07 11:26 #

Ég vil annars vitna í texta sem gætu verið ýkt viðbrögð okkar:

Stundum - eins og til dæmis í gær, rétt áður en ég skrifaði vonleysisóðinn hér á undan - les maður texta sem gerir það að verkum að manni líður eins og manni hafi verið hópnauðgað í sálina. #

Meðferðin var ekki svona ofsalega slæm, en hún var samt slæm og að mínu mati óheiðarleg. Þessi grein fjallaði ekki um trúleysingja á Íslandi - hún fjallaði um skoðanir blaðamanns á trúleysingjum á Íslandi.

Eiríkur Örn - 14/07/07 11:38 #

Tja. Ég get svo sem fátt sagt, annað en að mér finnst það ýkjur að greinin sé svona hlutdræg. Þó við Viðar séum góðir vinir og meira og minna í daglegu sambandi, get ég ekki sagt að ég hafi einu sinni hugmynd um hvort hann hefur einhverjar sérstakar mótaðar skoðanir á Vantrú eða trúleysingjum almennt. Hann er í öllu falli enginn guðsmaður.

Hins vegar er það líklega einnig venja blaðamanna að láta viðföngum líða eins og þau hafi ekkert að óttast - þannig fást jafnan grímulausustu viðbrögðin. Ef við gefum okkur að forsendur þínar séu réttar - þ.e. að blaðamaður hafi ætlað að "afhjúpa bjánalegan (skaðlegan, jafnvel?) málflutning ykkar" - þá verður hann einfaldlega að koma aftan að ykkur. Reyndar er reglan sú, í alvarlegri rannsóknarblaðamennsku hið minnsta, að byrja á vinalegu nótunum, fá fyrst grímulausu viðbrögðin, og gerast síðan aðgangsharður, jafnvel verulega ósanngjarn, til að fá þau svör. En slík blaðamennska er ekki stunduð á Íslandi - auk þess sem þessi grein var kannski bara það sem kallast "human interest" - auk þess sem ég get ekki séð að hún sé nein sérstök árás á ykkur, þó að aðrir aðilar séu dregnir fram til að sýna rök ykkar í mótstæðu ljósi.

Óli Gneisti - 14/07/07 11:45 #

Það er náttúrulega ekkert nýtt í greininni. Okkar fólk hefði auðveldlega getað svarað öllu ef það hefði fengið beinar spurningar um efnið. Undarlegast er reyndar að setja Dawkins þarna inn sem einhvern höfuðpáfa okkar þó að í allt þá hafi bara verið einu sinni minnst á hann í viðtölunum. Af hverju spurði Viðar ekki "Hvert er viðhorf ykkar til Richard Dawkins?"? Hann hefði væntanlega fengið önnur svör við því en hann vildi fá.

Höfuðglæpurinn er náttúrulega að greinin er ófrumleg og óáhugaverð.

Ásgeir - 14/07/07 14:37 #

Ég hef að minnsta kosti aldrei farið í blaðaviðtal þar sem ekki er annað hvort haft rangt eftir mér eða það sem ég sagði sett í rangt samhengi. Mér finnst það óþolandi og líka allt í lagi að finnast það.

Matti - 17/07/07 12:36 #

Eiríkur Örn skrifar í dag:

Þeir kumpánar kvörtuðu á dögunum undan því að Viðar minn Þorsteinsson ástarpungur hefði sýnt þá í slæmu ljósi í grein í Viðskiptablaðinu, meðal annars með því að setja orð þeirra hlið við hlið annarra skoðana - s.s. trúaðra vísindamanna og þjóðkirkjupresta.

Finnst einhverjum þetta sanngjörn lýsing á orðum okkar?