Örvitinn

Maryam Namazie í hádeginu

Ég fór á fyrirlestur Maryam Namazie í Odda í hádeginu. Dró* Ingólf fjármálastjóra Trackwell með mér.

Ég var afskaplega ánægður með Maryam en gæti trúað því að hún hafi stuðað hógværa trúmenn og hugsanlega einhverja talsmenn fjölmenningar. Trúlausir aðdáendur trúarbragða (jebb, þeir eru nokkrir) hafa eflaust ekki verið ánægðir.

Málflutningur Maryam er einharður og rökstuddur. Það kom mér á óvart hvað hún var mikið á móti trúartáknum (sbr. krossi) við opinberar aðstæður, t.d. á móti því að kennarar og dómarar beri kross um háls - en mér þótti hún samkvæm sjálfri sér.

Það hlakkaði líka í mér og Ásgeir þegar hún talaði um þá taktík trúmanna að ásaka andstæðinga um rasisma og ofbeldi. Stundum hefur mér þótt fulltrúar Þjóðkirkjunnar ansi fljótir að draga upp ofbeldisásökunina þegar þeir eru gagnrýndir.

Svanur tók upp fyrirlestur sem Maryam hélt í gær í boði Kvenréttindafélags Íslands. Eflaust birtir hann líka upptöku af þessum fyrirlestri.

Ég rakst á og/eða sá ansi marga sem ég þekki þarna og mæting var mjög góð, stofa 101 í Odda var troðfull. Óli og kó fá hrós fyrir að standa fyrir komu Maryam til landsins.

* Ég þurfti ekkert að draga hann, honum langaði að koma með eftir að hafa horft á Maryam í Kastljósi í gærkvöldi.

íslam
Athugasemdir

Guðrún - 06/09/07 22:41 #

Á þessi koma Maryam að breyta því hvernig við komum fram við múslima hérlendis? maður verður svosem ekkert var við þau og hef ég ekki getað séð annað en að þau séu friðsemdarfólk. Ég verð nú að segja það að ég er ráðvillt í þessu máli. Eru múslimskar konur á Íslandi ekki í einhverjum allt öðrum veruleika heldur en þeim sem að Maryam lýsir?

Matti - 06/09/07 22:45 #

Á þessi koma Maryam að breyta því hvernig við komum fram við múslima hérlendis?

Tja, það fer eftir því hvað þú átt við. Að sjálfsögðu eigum við að koma fram við múslima á Íslandi eins og alla aðra sem hér búa. En við eigum líka að sjá til þess að konur í þeim hópi njóti fullra réttinda - ég held það sé aðallega það sem Maryam vildi segja.

Eru múslimskar konur á Íslandi ekki í einhverjum allt öðrum veruleika heldur en þeim sem að Maryam lýsir?

Ég vona það svo sannarlega. En við hljótum líka að hugsa um konur í öðrum heimshlutum.

Guðrún - 07/09/07 00:13 #

Þetta er rosalega viðkvæmt mál, ég sé ekki hvernig að við getum passað réttindi múslimskra kvenna hérlendis, nema með því að styrkja þær ef þær leita eftir því. Annars er maður komin útí afskiptasemi á persónulegum högum fólks. En það er fjarlægara og því auðveldara að styrkja þær á alþjóðavettvangi. Það var verulega sláandi þegar að Maryam líkti aðstæðum þeirra við helförina. En að öðru máli, ég ætla að prófa hummusuppskrift af síðunni þinni og veit bara ekki hvað Tahini er?

Matti - 07/09/07 00:16 #

Stundum er allt í lagi að skipta sér af persónulegum högum fólks, t.d. þegar við verðum vitni að heimilisofbeldi. Við segjum ekki bara "svona er menningin á þessum heimili", eða hvað?

Tahini er mauk sem er búið til úr sesam fræjum - þú færð þetta m.a. í Hagkaup, best að spyrja bara starfsfólk.

Guðrun - 07/09/07 00:29 #

Mikið rétt, þetta með heimilsiofbeldið. Ég er bara búin að vera svo mikið að pæla í fjölmenningu hérlendis, og varð smá áttavillt, takk fyrir Tahini uppl.

Haukur - 07/09/07 12:47 #

Tókstu nokkuð mynd? Það vantar nefnilega mynd af henni á Wikipediu.

Matti - 07/09/07 12:48 #

Þetta er ekki mjög góð mynd af henni og Hope Knútsson.

Ætla að kíkja á restina af myndunum sem ég tók í gær.

Haukur - 07/09/07 13:36 #

Mér finnst þessi mynd alls ekki slæm og sennilega betri en myndin þín af Dawkins.

Matti - 07/09/07 18:34 #

Mér finnst þessi betri, þó ég hafi hugsanlega gengið of langt í að blurra bakgrunn.

Haukur - 08/09/07 16:08 #

Mér finnst hárrétt að blörra bakgrunninn þarna og þetta er fín ljósmynd. Hins vegar finnst mér Maryam líta dálítið betur út á hinni myndinni, hérna er hálsinn á henni full-áberandi. Maður myndi auðvitað kroppa Hope út. Það væri heldur ekki galið að fá aðeins meiri upplausn.

Værirðu til í að gefa aðra hvora myndina út undir CC-BY-SA? Ég sé annars að myndin þín af Dan Barker hefur enn ekki ratað á Wikipediu þrátt fyrir frjálst leyfi, kannski ég bæti úr því.