Örvitinn

Barnakirkjukórinn

Á fyrsta skóladegi kom kórstjóri kirkjunnar í skólastofur barnanna og auglýsti barnakirkjukórinn. Inga María var dálítið spennt fyrir þessu.

Í kvöld sagði Inga María mér að krakkarnir hefðu farið í kórinn, allir nema hún og ein vinkona hennar. Ég veit ekki alveg hvað er að marka þá frásögn. Ætli kirkjukórinn sé ekki nýja leiðin til að draga krakkana í kirkjuna, það gekk ekkert að draga þau þangað í fyrra eftir að börnin fengu að velja milli þess að fara í kirkjuna eða gera eitthvað annað.

Af hverju í ósköpunum þarf söngstarf barna að vera tengt trúarbrögðum? Af hverju er ekki hægt að leyfa börnum að syngja án þess að draga þau í messur líka. Auðvitað dregur barnakór að sér fullt af aðstandendum og eru því fín leið til að fá eitthvað fólk til að mæta í messurnar.

Það þarf að taka eins og þrjá milljarða af Þjóðkirkjunni og veita því fé í verkefni sem ekki eru unnin á trúarlegum forsendum.

Ef þig langar að koma með athugasemd og segja eitthvað eins og "hvað er að því þau börn syngi í kirkjukór, þetta er bara söngur" skaltu sleppa því - ég nenni ekki slíkum samræðum.

Mikið óskaplega langar mig stundum að lúberja þetta hyski sem stundar barnatrúboð á vegum kirkjunnar en ég er sem betur fer ekki ofbeldishneigður maður. Verst að þetta pakk er sannfært um eigið ágæti - fullvisst um að það sé að vinna gott verk, gjörsamlega ófært um að sjá aðrar hliðar á málinu. Þeim finnst barnakristniboð göfugt og fallegt!

leikskólaprestur
Athugasemdir

Halldór E - 13/09/07 23:28 #

Það eru víða barnakórar í skólum, þar sem skólastjórnendur hafa metnað til. Svo sem í flestum skólum í Kópavogi. Eins hafa verið barnakórar í skólum í Reykjavík sem ekki hafa tengst kirkjulegu starfi þó oft fái slíkir kórar inni í kirkjum fyrir jólatónleika með tilheyrandi bænahaldi (eða ekki). Síðan er einnig öflugt stúlknakórastarf hjá http://www.domusvox.is/ sem er ekki tengt kirkjulegu starfi þó trúarleg tónlist sé hugsanlega sungin, enda um auðugan garð að gresja í trúarlegri kórtónlist.

Matti - 14/09/07 08:02 #

Einu sinni var einhver kór í Ölduselsskóla, a.m.k. var Áróra í kór í eitt ár.

Nú er ekkert slíkt í boði og ég á ekki von á að svo verði, sé ekki að skólinn sé að fara í samkeppni við milljarðabatteríið í næsta húsi.

Eva - 14/09/07 11:23 #

Ég sé að hér er verðugt verkefni fyrir Saving Iceland. Við höfum ekki nógu mörgu hæfu söngfólki á að skipa til að sé heppilegt að kyrja baráttusöngva opinberlega en ég gæti auðvitað farið inn í grunnskólana og náð saman barnakór aktivistahreyfingarinnar. Ég gæti kennt þeim söngva á borð við "á hrauni lét heimskur maður renna í lón" eða "ég vil líkjast Guevara og ég vil líkjast Birnu". Hver veit nema meðal litlu krílanna leynist einhver sem á sér þann draum að príla í byggingarkrana?