Örvitinn

Laufabrauð, ósannindi og Silfrið

Deginum eyddum ég og stelpurnar að stærstum hluta hjá foreldrum mínum að gera laufabrauð, þ.e. stelpurnar skáru laufabrauð. Gyða var heim að læra.

Undanfarna daga hefur verið mikil umræða um trúboð í skólum hér á landi. Því miður hefur sú umræða einkennst af rangfærslum þeirra sem vilja að leik- og grunnskólar séu trúboðsstofnanir. Sigurður Hólm hefur tekið saman lista yfir helstu rangfærslur sem fram hafa komið um Siðmennt.

Ég verð í Silfrinu á morgun. Ég hef grun um að ég verði á útivelli :-)

Athugasemdir

Óli Gneisti - 02/12/07 00:49 #

Laufabrauð? Viljum við ekki láta banna það eins og aðrar aldagamlar kristnar hefðir?

-

Eftir síðustu daga þá hef ég ekki mikla trú á fólki og því tek ég fram að þetta var brandari.

Erna - 02/12/07 02:32 #

Úúú... ég hlakka til að sjá Silfrið.. Plís, taktu Egil í bakaríið... Hann á það svo skilið. Sigrar á útivelli eru enn sætari en þeir á heimavelli, er það ekki?

Regin - 02/12/07 14:15 #

Þú komst stórvel út. Ég gratulera.

Erna - 02/12/07 14:37 #

Ég gratulera að sama skapi! Þú stóðst þig frábærlega! Þú fékkst tækifæri til þess að bægja burtu ímynd herskárra, umburðarlausra vantrúarmanna og þú nýttir hvert sóknarfæri. Snilld!

Borgar - 02/12/07 15:15 #

Tek undir þetta, þú varst fantagóður.

Ég hló upphátt að því að Jón sagðist þarna "virða rétt þinn" sem trúleysingja, þrátt fyrir að vera talsmaður þeirra sem gera það akkúrat ekki! :-D

Eva - 02/12/07 15:35 #

Þú komst virkilega vel út úr þessum þætti. Takk fyrir að tala af yfirvegun og skynsemi fyrir minn munn og fjölmargra annarra trúlausra foreldra.

Óskar - 02/12/07 16:01 #

Afskaplega vel heppnað, yfirvegað og rökfast. Bjóst satt að segja ekki við að þú fengir að tala óáreyttur að mestu hjá Agli, svona í ljósi fyrri samskipta hans og Vantrúar. Stóðst þig frábærlega. Takk fyrir okkur.

Matti - 02/12/07 16:58 #

Ég þakka hrósið, ég kann að meta það.

Jón Stefánsson - 02/12/07 21:37 #

Stóðst þig ákaflega vel Matti, og Egill, ef þú lest þetta, takk fyrir að leyfa Matta að komast að. Mjög góður þáttur.

Gunnar J Briem - 02/12/07 22:06 #

Stórgóð frammistaða. Þetta er það sem þarf - tækifæri til að skýra sjónarmiðin af yfirvegun og sér í lagi að leiðrétta rangfærslurnar svo eftir sé tekið.

Guðni Már - 02/12/07 23:31 #

Heill og sæll Matthías

Fyrir það fyrsta þá verð ég líkt og Jón Stefánsson að hrósa Agli fyrir að fá þig í sjónvarpið, sumt af því sem þú hafðir sagt og gefið í skyn um hann er þess eðlis að ekki hefðu allir haft geð í bjóða þér í þáttinn til sín. Uppnefnið “Krulli kverúlant” var augljóslega sett fram í barnalegum hroka eða bestafalli í gremju. Mér finnst Egill Helgason vera maður meiri fyrir að hafa boðið þér í þáttinn og er þetta glöggt dæmi um það hvers vegna hann var kosinn sjónvarpsmaður ársins.

En þú átt líka hrós skilið fyrir góða frammistöðu í þættinum og var samtal ykkar Jóns Magnússonar fínt innlegg inn í þarfa umræðu. Þú komst mjög vel fyrir í sjónvarpinu og virkaðir á mig eins og fólkið hér að ofan lýsir þér, sem skynsamur og hófstilltur trúleysingi, en ekki sá herskái og á köflum afar hrokafulli trúleysingi sem ég hafði upplifað þig áður í gegnum skrif á vefnum.

Nokkur ummæli úr þínum munni fundust mér athyglisverð, vegna þess að ég hefði aldrei veðjað á þig halda þeim fram fyrir þáttinn:

“Ekkert að kristnum gildum” alveg sammála þér

“ég hvet foreldra til að fara með börnin sín í sunnudagaskóla” nota þetta einmitt í öllum skírnum og oftar.

“Vissulega eru jólin kristin hátíð ég ætla ekkert að gera lítið úr því...” þessi ummæli fundust mér sérstaklega áhugaverð enda U-beygja frá einu orðaskiptunum sem við tveir höfum átt um trúmál, þegar ég mótmælti http://www.simnet.is/bendt/gudni/20031201gamaltg.html#107048683620017103 færslu þinni ,,Hvað koma jólin Jesú við?” http://www.orvitinn.com/2003/12/02/15.22/ og þú svaraðir: http://www.orvitinn.com/2003/12/04/00.38/ . Ég spyr mig líka fyrst þú vilt ekki gera lítið úr því að jólin séu kristin hátíð, hvort þú sért sammála Siðmennt í að litlu jól í skóla með helgileik og jólasálmum séu ótæk? Er það ekki að gera lítið úr því að þetta sé kristin hátíð? Er það einmitt ekki að ómerkja hið kristna inntak? Ekki ósvipað og að ég myndi segja að ég vilji ekki gera lítið úr því að Eurovision sé söngkeppni en mér finnist samt ótækt að Eurovision sé haldin með sönglögum?

“það er ENGINN að mótmæla því að trúarbragðafræðsla sé í skólum með áherslu á kristni” þetta vissi ég ekki en er gott að fá staðfest, síðast þegar ég vissi er enn þónokkur fjöldi sem vill henda kristinfræði alveg útúr skólum, var reyndar kunnugt um að þú og ályktanir siðmenntar séuð ekki á meðal þeirra, en taldi fullvíst að þó nokkrir einstaklingar í báðum hópum séu þeirrar skoðunar að enginn kristinfræði séu draumastaðann.

“20-25% Íslendinga eru trúlausir” Þetta fannst mér fróðleg fullyrðing, það liggur ljóst fyrir að einhver hluti þeirra, yfir 90% Íslendinga sem eru skráðir í kristin trúfélög, blandar trúnni mjög og velur það sem þeim finnst fallegt, að Kristur sé frelsari mannkyns er því miður ekki skoðun nema rúmlega helmings þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni og hvetur okkur þjóðkirkjupresta til að halda þeim góða vonarboðskap enn betur á lofti. Hinu er ekki að leyna að mikill meirihluti íslendinga og ég vil fullyrða í ljósi reynslu minnar og annarra að yfir 90% vill gjarnan að sunnudagaskólaboðskapnum sé haldið að börnum þeirra. Þú minntist til að mynda ekkert á könnunina sem var gerð meðal foreldra í leikskólanum hjá þínum dætrum þar sem allir foreldrar, nema tveggja barna, kusu að þeirra barn fengi þjónustu og kristinfræðikennslu/trúboð prestins. Hvað voru margir foreldrar í skólanum? Ljóst er að vel yfir 90% vildu gjarnan fá prestinn. Skoðanakönnun, þegar mikil reynsla var komin á heimsóknir prestsins sýndu líka að yfir 90% foreldra voru mjög ánægð, eða ánægð með prestinn. Allir sem talað var við í fréttunum voru líka þessarar skoðunar. Miðað við þínar tölur um 20-25% trúleysingja og að því gefnu að Breiðholt gefi nokkuð jafnt úrtak af íslenskri þjóð, má fullyrða með nokkurri vissu að góður helmingur trúleysingja sé mjög ánægður með leikskólaheimsóknir prestsins! Getur verið að þegar Bolli talar um að fámennur hópur trúleysingja sé að stoppa heimsóknirnar sé hann að vísa í kannanir á leikskólum Breiðholts þar sem 90% foreldra eru ánægðir og svo hins vegar hávær mótmæli þín? Er hann að fara með rangt mál, þegar hann talar um fámennan hóp, með tilvísun til könnunarinnar?

Annað sem mér fannst áhugavert við viðtalið var þegar Egill sagði: Þið í Vantrú boðið trúlausan heim: og þú svaraðir: Nei alls ekki! Missteigstu þig ekki sem formaður Vantrúar?, eruð þið hættir að eiga útópíu drauminn um ekkert meira en mannsandann, heim án allra trúariðkunar? Er það ekki ykkar stærsta köllun að berjast fyrir því í Vantrú að öll “hindurvitni” hverfi? Eruð þið hættir að boða fagnaðarerindið um trúlausan heim?

Þú lýstir því líka á hjartnæman hátt í þættinum hvernig þér og þínum börnum var mismunað. Ég tek undir að það er leiðinlegt að draga einn alveg út úr hóp, en það eru til fleiri lausnir. Ég skal nefna dæmi: Þar sem ég var að vinna í einni sókn þjóðkirkjunnar tókum við nokkur sumur á móti stórum barnahópum úr íþróttafélaginu í hverfinu. Ég tók ekki í mál að það yrði gert nema að börnin hefðu leyfi um að koma í kirkjunna, 3 frekar en 4 börn af rúmlega 340 máttu ekki koma, íþróttafélagið leysti það einfaldlega með að skipta í tvo hópa, annar kom í kirkjuna meðan hinn fór í leiki og brandarastund, börnin sem ekki máttu koma í kirkjuna fengu því tvöfalda brandara og leikstund og hin 340 fengu brandarastund og trúboð alveg eins og foreldrar þeirra vildu. Væri ekki alveg hægt að leysa þetta svona? Er eitthvað vandræðalegt við það?

Þú talaðir um að í skólakerfinu viljir þú að allir séu alltaf saman að læra. Á minni skólagöngu var ég oft látin velja um hitt og þetta og var ekki alltaf með öllum í einu að læra, við máttum velja smíðar eða sauma og ýmislegt annað í samfélagsgreinum. Oft valdi ég það sem foreldrar mínir lögðu til og stundum völdu þau fyrir mig, það olli mér aldrei sérstöku hugarangri.

Annað sem ég vil forvitnast um, ég hef ekki enn lent í svipaðri reynslu og þú með mitt barna, en ég skal trúa því að hún sé sár, ég vil alls ekki gera lítið úr því. En hefur þessi sára reynsla aldrei hvatt þig til að berjast fyrir afnámi svínakjöts úr grunnskólum landsins. Börnum múslima er mismunað á trúarlegum forsendum, oft í mánuði þegar kokkar skólanna elda svínakjöt, þeim er bara boðið eitthvað annað, þau eru gerð öðruvísi. Börnum þeirra kristnu einstaklinga sem telja jólasveininn handbendi hins illa, er mismunað um hver jól þegar meirihluti foreldra ákveður að hafa jólasvein á jólaböllum í leikskólum og skólum, gegn vilja þessara einstaklinga.

Getur kannski verið að stundum verði foreldrar líka að taka ábyrgð á lífskoðunum sínum fyrir börn sín og að í því geti falist tækifæri um að ræða hvers vegna þau séu öðruvísi og hvernig ólíkar lífsskoðanir eru? Ég el drenginn minn upp við ýmsar kristnar venjur sem munu einmitt kalla á það í framtíðinni að ég setjist niður með honum og útskýri að svona sé þetta ekki hjá öllum, heldur séu þetta þær lífsskoðanir sem ég vil miðla honum, en að hann muni jafnvel eiga þess von að vera alleinn á báti, útaf þessum lífsskoðunum, þangað til að hann hefur sjálfur vit á að velja eða hafna því sem ég og móðir hans höfum kennt honum.

Þetta er örugglega orðið langlengsta komment sem ég hef nokkru sinni skrifað ;-)

með vinsemd Guðni Már Harðarson

Matti - 03/12/07 08:38 #

Ég ætla að sjá til hvort ég nenni að svara þessari athugasemd. Í fyrsta lagi inniheldur hún útúrsnúninga og rangfærslur. Í öðru lagi er hún frá presti, en yfirmaður hans hefur undanfarið logið ítrekað í fjölmiðlum undanfarið og viðurhaft gífuryrði um trúleysingja. Spurning hvort ég bíði eftir afsökunarbeiðni hans áður en ég ræði við undirsáta hans.

Varðandi Egil Helgason, þá eru neikvæð skrif mín um hann hér á þessari síðu (Krulli kverúlant er nú andskoti saklaust) ekki skrifuð í tómarúmi. Egill hefur skrifað afar ómaklega um okkur vantrúarsinna og kallaði okkur meðal annar Talíbana eftir bingó sem við héldum síðustu páska.

Auðvitað svara ég athugasemd (ritgerð) Guðna síðar.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 04/12/07 18:13 #

“Ekkert að kristnum gildum” alveg sammála þér

Nú get ég ekki lesið hugsanir Matta, en ég held að þarna sé hann klárlega að vísa til þess að fólk tengir “kristin gildi” almennt við hluti eins og kærleika og eitthvað gott, þó svo að það hafi ekki endilega neitt með kristni að gera, t.d. umburðarlyndi. Svo gleymirðu því að Egill spurði “Hvað er að þessum kristnu gildum?”

“ég hvet foreldra til að fara með börnin sín í sunnudagaskóla” nota þetta einmitt í öllum skírnum og oftar.

Eins og kemur fram í Silfri Egils, þá er hann að hvetja fólk sem vill endilega fá þessa fræðslu, að fara í sunnudagaskólann. Hvar hefur Matti áður talað gegn því að kristið fólk fái að láta presta stunda kristniboð gegn börnum þeirra í kirkjunni?

“Vissulega eru jólin kristin hátíð ég ætla ekkert að gera lítið úr því…”

Auðvitað heldur kristið fólk upp á kristna hátíð. En eins og Matti sagði um leið og hann sagði þessi orð sem þú vitnar í, þá eru jólin líka “hund-heiðin”. Í bloggfærslunni sem þú vísar á vísar Matti á grein sem mér sýnist fjalla um það að jólin séu upphaflega heiðin hátíð og í athugasemd segir hann að jólin hafi auðvitað eitthvað með Jesú og kristni að gera.

“það er ENGINN að mótmæla því að trúarbragðafræðsla sé í skólum með áherslu á kristni”

Mér finnst undarlegt að þú vissir þetta ekki. Ég þekki ekki neinn sem er á þeirri skoðun að börn verði ekki frædd um trúarbrögð í skólum. Hvers vegna telurðu þig vita að þó nokkur fjöldi vilji ekki fræða börn um trúarbrögð?

Hinu er ekki að leyna að mikill meirihluti íslendinga og ég vil fullyrða í ljósi reynslu minnar og annarra að yfir 90% vill gjarnan að sunnudagaskólaboðskapnum sé haldið að börnum þeirra.

Nú er auðvitað spurning hvað “sunnudagaskólaboðskapurinn” er. Ég efast um að 90% þjóðarinnar vilji að kristniboð sé stundað í opinberum skólum.

Getur verið að þegar Bolli talar um að fámennur hópur trúleysingja sé að stoppa heimsóknirnar sé hann að vísa í kannanir á leikskólum Breiðholts þar sem 90% foreldra eru ánægðir og svo hins vegar hávær mótmæli þín? Er hann að fara með rangt mál, þegar hann talar um fámennan hóp, með tilvísun til könnunarinnar?

Þegar Matti vísaði á þessar tölur var hann ekki að ræða um fullyrðingar Bolla, heldur þau “rök” Jóns Magnússonar að Íslendingar væru að meirihluta kristin þjóð. Að minnsta kosti man ég ekki eftir því að hann hafi minnst á þessi ummæli Bolla.

Annað sem mér fannst áhugavert við viðtalið var þegar Egill sagði: Þið í Vantrú boðið trúlausan heim: og þú svaraðir: Nei alls ekki! Missteigstu þig ekki sem formaður Vantrúar?, eruð þið hættir að eiga útópíu drauminn um ekkert meira en mannsandann, heim án allra trúariðkunar? Er það ekki ykkar stærsta köllun í Vantrú að berjast fyrir því í að öll “hindurvitni” hverfi? Eruð þið hættir að boða fagnaðarerindið um trúlausan heim?

Nú veit ég ekki hvað þetta þýddi. En í næstu setningu sagði hann að hann teldi heiminn vera betri án trúarbragða.

Matti - 04/12/07 18:24 #

Takk fyrir þetta Hjalti. Stendur eitthvað eftir, ertu ekki búinn að svara öllu sem máli skiptir?

Guðni Már - 04/12/07 23:23 #

Verð ég ekki að spegla Matta og segja:

Ég ætla að sjá til hvort ég nenni að svara þessari athugasemd. Í fyrsta lagi inniheldur hún útúrsnúninga og rangfærslur. Í öðru lagi er hún frá vantrúarmeðlim, en yfirmaður hans hefur undanfarið gefið ítrekað í skyn að við prestar ljúgum meðvitað að börnum þegar við kennum þeim um kristni og viðurhaft gífuryrði um trúmenn. Spurning hvort ég bíði eftir afsökunarbeiðni hans áður en ég ræði við undirsáta hans ;-)

En svona að öllu gamni slepptu þá er þetta ágætt og málefnalegt svar hjá þér Hjalti Rúnar og lýsir ágætlega ummælum Matta frá sjónarhorni vantrúarsinnans, enda skrifar Matti samþykjir Matti þau sjálfur. Mínar vangaveltur voru frá sjónarhóli trúmannsins sem týndi til það sem ég hefði aldrei trúað Matta til að segja fyrir fram.

Ég hvet fólk til að lesa mínar athugasemdir sem og þín svör Hjalti, það hlýtur að gefa ágæta mynd af þeim ólíku sjónarhornum sem takast á nú um mundir. Þú spyrð mig nokkurra spurninga sem ég skal glaður svara á morgun, tíminn leyfir það ekki nú enda veikindi á heimilinu, og jafnframt skal ég hnykkja á punktum sem gaman væri að fá sjónarhorn Matta á.

Í Guðs friði ;-)

P.s. Getur einhver kennt mér hvernig ég vitni í undangengna umræðu, þannig að það sem ég vitna í sem þið skrifuðuð, verði í minna letri en það sem ég skrifa.

Matti - 04/12/07 23:28 #

Þú setur stærra en merki ">" fyrir framan textann sem þú villt færa inn.

Ég get bara ekki séð að ég hafi sagt neitt sem hefði átt að koma þér á óvart í Silfri Egils. Margir vilja einfaldlega trúa að ég (og við í Vantrú) séum öfgafyllri en við sannarlega erum.

Að sjálfsögðu hef ég oft verið harðorður og jafnvel dónalegur hér á minni síðu. En það er fáránlegt að halda því fram að það einkenni stóran hluta af málflutningni mínum eins og Stefán kunningi þinn gerir. Það ætti því ekkert að koma ykkur á óvart að ég er ekkert skrímsli og að málflutningur okkar er, þegar allt kemur til alls, sanngjarn.

Gagnrýni okkar á trúarbrögð og önnur hindurvitni getur svo vissulega varið harður og ekkert skrítið að ykkur sárni það stundum. En þið verðið því miður að sætta ykkur við það. Það gagnrýna kristna trú og önnur hindurvitni ;-)

Hjalti Rúnar Ómarsson - 05/12/07 00:37 #

...en yfirmaður hans hefur undanfarið gefið ítrekað í skyn að við prestar ljúgum meðvitað að börnum þegar við kennum þeim um kristni og viðurhaft gífuryrði um trúmenn.

Nú er þessi speglun þín afar gölluð, því Matti er ekki yfirmaður minn. En þú hefðir frekar átt að vísa í greinina Prestar ljúga að börnum. Það er bara staðreynd að prestar ljúga að börnum.