Örvitinn

Flóðavaktin

Ég fór út í pollagallanum rétt áðan og tæmdi gluggagatið eftir að byrjað var að flæða inn. Endurhannaði fargið mitt aðeins og vona að það dugi eitthvað betur. Ég vaki eitthvað frameftir, gægist út um gluggann og fer út að ausa eftir þörfum, fylgist vandlega með úrkomuspánni.

Fórum í mat til foreldra minna í kvöld. Fengum afar góða fiskisúpu sem bróðir minn útbjó í forrétt, frábæra Wellington nautasteik í aðalrétt (pabba fannst honum hafa eldað aðra steikina of mikið, það gerði ekkert til, báðar voru góðar) og franska súkkulaðiðköku og ís í desert. Fórum lítið út að skjóta flugeldum, Þórður bróðir minn kveikti í einni tertu í garðinum. Horfðum á skaupið sem mér fannst bara ansi gott.

Stelpurnar voru orðnar ansi þreyttar undir það síðasta og ég hélt á Ingu Maríu sofandi upp í rúm. Við máttum ekki koma seinna heim, annars hefði allt verið á floti í dótaherberginu.

Ég er að spá í að ná mér í smá 70% suðusúkkulaði og kjamsa á því. Maður verður að byrja árið þokkalega :-) Er líka að prófa að skella myndböndum á klassíska ipodinn, byrja á samtali Jonathan Miller og Arthur Miller um trúleysi.

Gleðilegt nýtt ár. Megi það vera þokkalega sæmilegt hjá okkur flestum. Ég held það sé óþarfa bjartsýni að fara fram á meira.

dagbók
Athugasemdir

Matti - 01/01/08 04:22 #

Var að koma inn eftir að tæma gluggagatið í annað skipti. Tæmdi holuna og endurhannaði fargið enn og aftur. Held að það rigni minna núna en áðan. Mikið óskaplega er ég feginn að eiga góðan pollagalla.

Er búinn að kópera skrána á ipodinn, ætla að converta hinum viðtölunum sem ég á eftir að sjá (er búinn að horfa á Colin McGinn og Steven Weinberg).

Sótti Síríus 70% súkkulaðið.

Kalli - 01/01/08 04:37 #

Gott process. Gleðilegt ár!

Kristín - 01/01/08 10:06 #

Gleðilegt nýtt ár, vona að veðurham hafi lægt og gott að heyra að glæponarnir hafi náðst. Kær kveðja til ykkar allra.

Sirrý - 01/01/08 12:20 #

Gleðilegt ár. Vona að óhöpp síðustu daga ársins 2007 verði til þess að 2008 verði frábært hjá ykkur

kveðja Sirrý