Örvitinn

Snjósleðaferð

ég á jökliFór með vinnunni í snjósleðaferð á Langjökli í gær.

Við fórum úr bænum rétt eftir hádegi og ókum á fjallarútu austur. Stoppuðum hjá Gullfossi meðan bílstjórinn skelltum keðjum undir rútuna, þær áttu eftir að slá taktinn meðan þær voru á dekkjunum. Þegar við vorum komin á Kjalveg skiptum við um bíl, fórum þá í enn stærri fjallarútu með opnu farþegarými.

Um hálf fimm vorum við komin upp að jökli og skelltum okkur á snjósleða. Þetta er í annað skipti sem ég fer á snjósleða, fyrra skiptið var einmitt með Stefju (eins og Trackwell hét þá) sumarið 2000. Við brunuðum einhverja hringi á jöklinum. Það var skýjað þannig að útsýni var af skornum skammti en veðrið var ágætt. Hópurinn á ferðEins og vaninn er í svona ferðum þurfa allir að vera í röð og því var frekar takmarkað hvað hægt var að leika sér. Stundum kom maður sleðanum á ágætis ferð, ég held ég hafi mest farið í 80. Náði að velta sleðanum einu sinni á góðri ferð, fór þá á grjót og réð ekki neitt við neitt, lenti undir sleðanum en var heppinn og fékk í raun engan þunga á fótinn sem var undir. Þetta var þrælskemmtileg ferð og allir í hópnum himinlifandi eftir að hafa fengið að leika sér á jökli.

Eftir snjósleðaleikinn héldum við til baka, fengum okkur kjötsúpu hjá Gullfossi og brunuðum svo í bæinn með viðkomu á Selfossi þar sem við skildum Sigrúnu eftir. Stemmingin í hópnum var ansi góð, bjórinn flæddi og snafsaflöskur kláruðust fljótt. Ég lét drykkjuna alveg eiga sig í þetta skipti, mæli ekkert sérstaklega með því! Þegar ég kvaddi hópinn í höfuðstöðvunum voru þau að fara að spila póker og drekka bjór. Ég geri ráð fyrir að gleðin hafi staðið fram á nótt.

Ég tók nokkrar myndir.

Jón Magnús tók myndi af mér til að það væru einhverjar sannanir fyrir því að ég hefði verið með í ferðinni.

dagbók
Athugasemdir

Kalli - 16/02/08 19:22 #

Hann er ekki slæmur með myndavélina pilturinn.

Matti - 16/02/08 19:43 #

Þessi mynd er fín eftir smá vinnslu, en það verður nú að taka fram að þrjár af fimm sem hann tók voru úr fókus :-)