Örvitinn

Gvuðinn hans Swinburne

Um daginn sagðist ég vera hættur að skoða annála og hef ég reynt að standa við það, en stundum kíki ég þangað inn og þá kemur fyrir að ég fæ þörf til að gera athugasemdir. Bara ef það væri svo auðvelt.

Ég setti eftirfarandi athugasemd við færslu hjá Árna á annálum en hún virðist ekki við hæfi, a.m.k. bíður hún enn samþykkis.

Matti @ 8/4/2008 10.43 Athugasemdin bíður samþykkis.

Það er náttúrulega fáránlegt að gera athugasemd við þetta þar sem ljóst má vera að þú gerist skoðanalaus um og leið og það hentar þér.

Þessi umfjöllun um fjórða kaflann er í beinu framhaldi af umfjölluninni sem þú vísaðir á síðast. Ef þér þykir þessi kafli svona fróðlegur getur þú kannski núna sagt okkur hvort eitthvað mark er hægt að taka á Swinburne (einum af fremstu trúarheimspekingum okkar tíma).

Highton er nefnilega í umfjöllun sinni um fjórða kaflann ennþá að ganga út frá því að guðshugmynd Swinburne sé bölvað bull. Finnst þér hún líka bölvað bull? Það væri “fróðlegt” að heyra þitt álit.

En þú hefur ekki tíma til þess.

Forsaga málsins er að í febrúar vísaði Árni Svanur á umfjöllun Highton um bók Dawkins, The God delusion. Það er náttúrulega ekkert að því að guðfræðingar gagnrýni þá bók og ekkert undarlegt að Árni vísi á slíka umfjöllun. Það vakti samt athygli mína og Hjalta hvernig Highton gagnrýnir Dawkins. Highton heldur því fram að Dawkins ráðist á úrelta guðshugmynd sem engir alvöru fræðimenn taki alvarlega. Dawkins nefnir til sögunnar guðfræðingin Richard Swinburne og styðst við hans skilgreiningar á Gvuði.

Hjalti vísaði í eftirfarandi orð Highton í athugasemd:

…they [guðfræðingar] don’t recognise the God he [Swinburne] talks about. #

Highton segir reyndar töluvert meira um Swinburne í þessum texta:

Whilst Swinburne’s books are undeniably popular, and while there is one variety of philosophical theology in which he is a mover and a shaker, I’m afraid that to think he speaks for theologians in general is simply laughable. It is probably fair to say that most of the theologians I know in the UK have no time for him at all - precisely because they don’t recognise the God he talks about. And when it comes to Swinburne’s theodicy (of which Dawkins makes much on pp.88-89), nearly every theologian I know would agree: Swinburne’s views are grotesque.

Þessi tilvitnun í Highton er áhugaverð í ljósi þess að gvuðinn sem Swinburne talar um virðist vera sami gvuð og afar margir kristnir landar okkar telja sig trúa á. Ennþá skemmtilegra er að áður hefur Árni sagt um Swinburne að hann sé “einn af fremstu bresku trúarheimspekingunum um þessar mundir”.

Þegar við bentum á þessa þversögn Árna og reyndum fá álit hans á þessari tilteknu gagnrýni Highton gerðist Árni afar upptekinn og skoðanalaus sem er ákaflega skemmtilegt.

Af hverju getur hann ekki bara sagt hvað honum finnst um gvuðinn hans Swinburne - er það ekki gvuðinn hans Árna og Gvuð Ríkiskirkjunnar? Hvort er Richard Swinburne “einn af fremstu bresku trúarheimspekingunum um þessar mundir” eða svo marklaus að flestir breskir guðfræðingar taka ekkert mark á honum?

Mikið hlýtur að vera gott að vera skoðanalaus, þá hefur maður aldrei rangt fyrir sér. Gallinn er bara að þá segir maður heldur aldrei neitt áhugavert.

kristni
Athugasemdir

Óli Gneisti - 09/04/08 14:15 #

Það er annars áhugaverður hroki þarna hjá Highton. Hann talar um að þetta séu vinsælar bækur en guðfræðingar taka ekki mark á þeim. Þær eru semsagt nógu góðar fyrir ómenntaðan pöpulinn en ekki hina upphöfnu guðfræðinga. Mann grunar að þetta sé nú oftast þannig, hugmyndirnar sem guðfræðingarnir eru að leika sér að eru ótengdar hugmyndum almennings. Þeir skilgreina guð fyrir hvern annan, út frá hver öðrum og án þess að taka tillit til þess hvað fólk raunverulega trúir. Það er þó það eina sem er hægt að rannsaka raunverulega í þessu sambandi.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 09/04/08 16:22 #

Samkvæmt Wikipediu þá var Swinburne "Nolloth Professor of the Philosophy of the Christian Religion at the University of Oxford" í heil átján ár. Ótrúlegt að Oxford hafi leyft svona vitleysingi, sem er að tala um einhvern guð sem guðfræðingar kannast bara alls ekki við, að vinna hjá sér einmitt sem sérfræðingur í kristinni trú!

Mér finnst líka merkilegt að skoða einmitt hvaða guð Swinburne talar um, en þetta er stutt skilgreining frá honum:

…a person without a body (i.e. a spirit) who necessarily is eternal, perfectly free, omnipotent, omniscient, perfectly good, and the creator of all things.

Er þetta ekki ágæt skilgreining á guði kristinna manna?

Erna Magnúsdóttir - 09/04/08 16:35 #

Æ, það er marklaust að halda því fram að stofnanir eins og Oxford séu bara með eitthvað eðalfólk um borð. Fólk eldist og dettur út úr umræðunni en heldur samt stöðunni. En ég hef hins vegar ekki skoðun á þessari guðsumræðu. Fyrir mér er hann ekki til og marklaust að pæla í hver hann er...

Hjalti Rúnar Ómarsson - 09/04/08 16:52 #

Erna, ég var að benda á að það væri ólíklegt að Oxford væri með einhvern mann í starfi sem hefði ekki hugmynd um hvað hann væri eiginlega að tala.

Það væri t.d. undarlegt ef það væri sagt að jarðfræðiprófessor við Oxford hefði einhverja skilgreiningu á flekakenningunni sem flestir jarðfræðingar kannast við.

Síðan efast ég um að hugmyndir kristinna manna um guð hafi gjörbreyst á síðustu tuttugu árum. ;)

Matti - 09/04/08 22:21 #

Oxford smoxford. Árni Svanur segir að hann sé “einn af fremstu bresku trúarheimspekingunum um þessar mundir” og það dugar mér. Ekki fer ég að rengja Árna Svan og skoðanaleysisbræður hans.

Matti - 14/04/08 11:03 #

Mér finnst frekar kómískt að mennirnir sem alltaf eru að tala um þörfina fyrir umræðu samræður láta eins og þessi skrif séu ekki til. Ég veit vel að nokkrir gvuðfræðingar og annálistar hafa lesið þennan pistil.