Örvitinn

Harðsperrur, Bueller og mannleg samskipti

Óskaplega fæ ég alltaf hrikalegar harðsperrur eftir að ég tek fætur í ræktinni. Var að lyfta á mánudag og tók þá hnébeygjur, afturstig og fleira skemmtilegt. Er ákaflega stirður og stífur þessa stundina. Fór í bolta í hádeginu, gat svosem alveg spriklað dálítið.

Ég verð orðinn góður af harðsperrum á morgun eða hinn. Ætti að geta rölt um Berlín um helgina.

Var með kveikt á Bylgjunni þegar ég fór í boltann. Þar var Ívar Guðmunds að tala um bíómyndir og minntist á myndina Ferris Bueller's day. Ég veit að það er asnalegt að setja út á þetta, en myndin heitir Ferris Bueller's day off. Út á það gekk myndin.

Hildur er með einfalda reglu um mannleg samskipti.

Maður á að vera góður við börn og dýr. Og maður á líka að vera góður við fólk sem er gott við börn og dýr.

Þetta hljómar vel. Tit for tat reglan er enn einfaldari (en krefst lengri skýringar)!

dagbók vísanir
Athugasemdir

Kalli - 16/04/08 15:26 #

Ég held að reglan hans Wil Wheaton (Wesley Crusher í Star Trek: The Next Generation) sé best: „Don't be a dick.“

Hildur - 16/04/08 15:26 #

Ég er ekki sammála því að þessi Tit for tat regla sé betri. Sé ekki að hún segi neitt um að maður eigi að vera góður við þá sem séu góðir við börn og dýr en að það sé óþarfi að vera góður við hina.

Matti - 16/04/08 15:33 #

Nei en hún er einfaldari. Ég get tekið undir að þín er betri.

Tit for tat fjallar bara um samskipti tveggja einstaklinga.

Skv. reglunni sem er notuð í leikjafræði á maður að byrja á því að "vera góður" og svo á maður alltaf að svara í sömu mynt.