Örvitinn

Fjarstýring endurheimt

Jæja, fimm mánuðum eftir innbrot höfum við loks endurheimt (eða réttara sagt endurnýjað) fjarstýringuna að rúminu okkar. Ásta og Máni tóku semsagt þráðlausu fjarstýringarnar að rúminu okkar og skiluðu einungis annarri. Þetta hefur gert það að verkum að þessa fimm mánuði höfum við notað eina fjarstýringu fyrir bæði rúmin og höfum þurft að beita ýmsum aðferðum til að hafa annað rúmið uppi en hitt niðri, t.d. þegar ég vil lesa en Gyða sofa. Yfirleitt felst lausnin í því að miða á ská í loftið hinum megin svo geislinn speglist eftir réttu broti og endi bara á öðrum móttakaranum.

Loks er þetta tímabil á enda, fjarstýring komin í hús og við hjónin getum því hækkað og lækkað rúmin okkar óháð hvort öðru.

Mér finnst ákveðnum kafla í lífi mínu loki. Fyrstu fimm mánuðir ársins 2008 verða ætíð mánuðir glötuðu fjarstýringarinnar á mínu heimili.

dagbók