Örvitinn

Merkingarlaust rugl

Þegar gárungarnir halda því fram að lítill eða enginn munur sé á öfgatrúmönnum og öfgatrúleysingjum tel ég viðeigandi að kalla það merkingarlaust rugl. Hvað annað er hægt að segja?

Hvaða hughrif framkallar orðið öfgatrúmaður? Einhver sem er á móti fóstureyðingum, hafnar Þróunarkenningunni, á móti samkynhneigð (elskar syndarann en hatar syndina), telur ekkert siðferði til nema kristið siðferði.


Hógværir trúmenn?
Hverjir eru öfgatrúleysingjar? Hvað er átt við með því orði? Stundum er jafnvel talað um herskáa trúleysingja. Hvað eru herskáir trúleysingjar og hvað eru herskáir trúmenn? Sumir hafa gengið svo langt að tala um vantrúartalibana. Alvöru talibanar kúga og myrða fólk, vantrúartalibanar spila bingó á föstudaginn langa. Öfgatrúleysingjar eru vísindatrúar, hvað svo sem í ósköpunum það merkir. Öfgatrúleysingjar eru umburðarlyndisfasistar.

Staðreyndin er að til að trúmaður sé stimplaður öfgafullur eða herskár þarf hann að ala á fordómum, hvetja til ofbeldis eða jafnvel fremja það. Atvinnutrúmenn sem boða kristni í leik- og grunnskólum og boða ítrekað að trú sé forsenda siðferðis eru víst hófsamir.

Til að trúleysingi sé sagður herskár er nóg fyrir hann að gagnrýna hindurvitni upphátt. Hógvær trúleysingi heldur kjafti.

Þetta er merkingarlaust rugl hvort sem Þórinn heitir Friðrik eða Sigurður. Þeir eru alltaf að tala um einhverja aðra, en lesendur þeirra tengja skrif þeirra ekki við einhverja aðra - þeir tengja skrifin við þá trúleysingja sem gagnrýna hindurvitni opinberlega. Það vita Þórarnir - eða ættu að vita.

efahyggja
Athugasemdir

Eva - 23/06/08 01:21 #

Málið er að allir sem hafa sterka sannfæringu (einkum ef hún kemur óþægilega við stóra hópa fólks) og halda henni á lofti eru stimplaðir öfgamenn, sama hversu góð rök þeirra eru. Það eru t.d. ennþá margir sem flokka það sem fasisma að vera fylgjandi reykingabanni á veitingastöðum.

Á sama hátt eru allir sem sýna einhverja tilburði til aktivisma stimplaðir hryðjuverkamenn. Björk Guðmundsdóttir talar t.d. um aktivista sem náttúruverndarskæruliða. Ég var einu sinni ásökuð um 'hryðjuverk gegn kvenfrelsi' fyrir að viðra opinberlega þá skoðun mína að kaup á kynlífsþjónusu jafngilti ekki í öllum tilvikum nauðgun. Ég þekki dæmi þess að grænmetisætur séu nánast lagðar í einelti vegna mataræðis síns, þótt viðkomandi hafi á engan hátt skipt sér af mataræði annarra.

Fólk sem er óvant því að hugsa sjálfstætt verður óttaslegið þegar stoðunum er kippt undan notalegri heimsmynd þess. Ef þú bendir á staðreyndir sem ögra sjálfgefnum hugmyndum múgmennisins og kemur inn hjá því efasemdum um að skoðanir þess séu óvéfengjanlegar, þá upplifir múgmennið það sem árás eða amk ógn. Fólk sem hugsar ekki er að jafnaði kjarklaust. Þessvegna verður sá sem hefur óþægilegar skoðanir alltaf álitinn herskár.

hildigunnur - 28/06/08 09:24 #

Eva, uss, við tölum líka um umhverfiskommúnista og -skæruliða - það er bara ekki skammaryrði í okkar augum ;)