Örvitinn

Sparakstur

Við fórum norður á Sauðárkrók um helgina þar sem stelpurnar tóku þátt í fótboltamóti.

Vegna efnahagsástands og eldsneytisverðs ákvað ég að aka sparlega. Ók á 90-95 alla leið, með cruise-control. Hægði þó á mér þegar ég ók upp á heiðina. Í innanbæjarakstri á Sauðárkróki rifjaði ég upp aksturstakta afa á Sigló í gamla daga og fór aldrei upp fyrir 40.

Niðurstaðan var sú að við ókum 600 kílómetra og eyddum að meðaltali 8,6 lítrum á hundraði sem er nýtt lágmark. Það lægsta sem ég hef áður séð er 10,3 og þá var líka um utanbæjarakstur að ræða. Eflaust hef ég þá haldið mig rétt fyrir ofan hundraðið. Ég ek á Kia Sorento dísel jeppa. Vorum fjögur í bílnum með skott fullt af farangri.

Við vorum ekki í neinu stressi, fórum tímanlega úr bænum á föstudag og tókum heimferðina í tveimur köflum. Komum við í bústað í gær og gistum eina nótt - horfðum þar á úrslitaleik EM. Það hefði ekki verið um sparakstur að ræða ef ég hefði þurft að komast í bæinn til að ná úrslitaleiknum.

dagbók
Athugasemdir

Tryggvi R. Jonsson - 30/06/08 12:39 #

Bara mjög vel sloppið! Hef alvarlega verið að íhuga að sækja námskeið í Vistakstri, bæði til fróðleiks og sparnaðar.

Kv Tryggvi (illa Vinstri Grænn...)

hildigunnur - 30/06/08 20:53 #

Mér finnst alltaf svo fyndið þegar fólk segir að það sé ekki hægt að nota skriðstilli á Íslandi. Við notum hann alveg helling, um leið og við förum út úr bænum.

Matti - 01/07/08 01:00 #

"Skriðstillir". Þetta er flott orð, ég man ekki eftir því að hafa séð það áður.

Jamm, það er ekkert mál að nota skriðstillinn á þjóðveginum ef umferð er ekki mjög þung. Verst að frekar margir ökumenn eiga erfitt með að halda jöfnum hraða.

Tryggvi R. Jonsson - 01/07/08 10:43 #

Ég nota skriðstilli nær undantekningalaust utanbæjar, þá sjaldan ég gleymi því fæ ég hraðasekt! Galdurinn er auðvitað að stilla á örlítið minni hraða en umferðarhraða svo maður hafi "buffer" til að hlaupa upp á þegar maður dregur bíla uppi t.d. í brekkum. Ég hef meira að segja verið að prófa þetta á lengri beinum köflum innanbæjar og svei mér þá ef eyðslan fór ekki aðeins niður ;-) Ef maður stillir á löglegan hámarkshraða þurfa aðrir að sjá um að fara fram úr.