Örvitinn

Séra Ólafur Jóhann Jóhannsson fer með ósannindi

Kynningin var rétt, séra Ólafur Jóhann er sá sem fer með ósannindi og prédikunin er komin á trú.is. Hér er úrdrátturinn sem umsjónarmenn trú.is kjósa að nota úr prédikuninni.

Auðvitað eigum við óhikað að kenna börnum trú og trúariðkun - rétt eins og við kennum þeim almenna kurteisi, borðsiði og matarvenjur, umferðarreglur eða muninn á réttu og röngu. Í skólum þarf vitanlega að virða mörk trúfræðslu og trúboðs en kristinfræði í skólum er ekkert „hættulegri“ en íþróttir og listir, svo dæmi séu tekin um aðrar gildishlaðnar námsgreinar.

Mér finnst þetta vel valið því þetta sýnir þær ranghugmyndir sem við erum að fást við. Prestar telja að réttlætanlegt sé að kenna trúariðkun í skólum. Prestarnir vilja ekki kenna börnum um trúariðkun, heldur kenna börnum að iðka trú, t.d. með því að láta börnin fara með bænir. Líkjum þessu við kynfræðslu. Það er allt í lagi að kenna börnum um kynlíf en við látum börn ekki iðka kynlíf í skólum. Það á einfaldlega ekki heima þar, jafnvel þó verklegir tímar yrðu eflaust afar vinsælir. Við kennum börnum um stjórnmálastefnur í Samfélagsfræði en við fáum ekki sjálfstæðisflokkinn til að sjá um það námsefni og látum börnin ekki ákalla Davíð eða Geir.

Það er einnig broslegt að séra Ólafur Jóhann gerir engan greinarmun á kristni og íþróttum eða listum. Þetta er allt sambærilega "gildishlaðið" námsefni! Samt er það svo að sami prestur vill sennilega meina að kristni sé forsenda alls þess sem gott er. Hvort er það? Hvort er kristni alveg ofsalega merkileg og mikilvæg eða bara eitthvað annað?

Ólafur spyr í prédikun sinni um skaðsemi. Þetta snýst ekki einungis um skaðsemi, þetta snýst um sannleikann. Við eigum að kenna börnum það sem við vitum að er satt og rétt. Það gera prestar ekki, þeir ljúga að börnum. Þeir kenna þeim hindurvitni kristindóms eins og um sannleika sé að ræða en samt vita þeir betur eftir nám sitt í guðfræði. Gott dæmi um þetta eru jólaprédikanir þeirra, allir prestar eiga að vita að jólaguðspjallið er bull, samt dettur engum þeirra í hug að setja fyrirvara við það. Mér finnst ljótt og óheiðarlegt að segja börnum ósatt í þessum efnum.

Ekkert hefur verið "tekist á um kristinfræðikennslu í skólum" eins og Ólafur Jóhann segir í prédikun sinni. Hann veit betur þar sem hann hefur fylgst með umræðunni. Umræðan snýst um trúboð í skólum. Ég veit ekki um nokkurn sem lagt hefur til að hætt verði að kenna börnum um trúarbrögð og þá sérstaklega kristni en það má vissulega endurskoða kennsluefnið í Kristinfræði, trúarbragðafræði og siðfræði. Það ber þessi merki að vera samið af þjóðkirkjupresti eins og allir foreldrar geta séð ef þeir kíkja í kennslubækur barna sinna.

Það er einnig ákaflega gróf (en lúmsk) lygi að einhverjir trúleysingjar vilji banna bænir í kirkju ef börn eru viðstödd. Hið rétta er að margir trúleysingjar (og jafnvel einhverjir kristnir einstaklingar) vilja ekki að farið sé með börn í kirkju á skólatíma og þau látin fara með bænir þar. Foreldrar hafa fullan rétt á því að fara með börnin sín í kirkjuna utan skólatíma, ég hvorki vil né get komið í veg fyrir slíkt. Ég vil banna Ólafi að láta börnin mín fara með bænir.

Þetta veit Ólafur Jóhann vel en samt segir hann ósatt. Hvað köllum við svoleiðis fólk?

kristni
Athugasemdir

Jón Magnús - 01/07/08 17:05 #

Lygamerði?

Egill - 01/07/08 19:33 #

Séra?

Matti - 01/07/08 20:13 #

Ólafur Jóhann bendir á mistök mín, það var ekki hann heldur kollegi hans séra Ólafur Jóhannsson sem fór með ósannindi í þessari prédikun.

Ég skil ekki hvernig þessi ruglingur kom til, mér var bent á að Ólafur Jóhann væri þarna að prédika og gerðist sekur um staðfestingartilhneigingu.

Væri ég prestur eða annar starfsmaður ríkiskirkjunnar myndi ég bara breyta færslunni eins og ekkert hefði í skorist - eins og mistök mín hefðu aldrei átt sér stað. En sem betur fer er ég ekki í þeim flokki fólks. Ég hef því strikað yfir villur á viðeigandi stöðum.

Færslan stendur enn fyrir sínu.

Matti - 01/07/08 20:26 #

Ég vil samt ítreka að allt sem ég hef hér skrifað á við um Ólaf Jóhann líka. Hann er einn þeirra siðleysingja sem stunda trúboð í leikskólum.

Sjá t.d. þessa prédikun hans.

baddi - 01/07/08 22:59 #

Eins og þessum fíflum sérum er einum lagið þá bendir Ólafur Jóhann á þessa yfirsjón þína og gagnrýnir pistillinn þinn á formgalla, ekki innihaldi. Maður hefur séð þetta of oft frá þessu guðfræðiliði til að hægt sé að taka mark að svona vinnubrögðum

Matti - 01/07/08 23:05 #

Næst mun hann benda á athugasemd þína og notkun á orðinu fífl. Þeir nota allt til að svara ekki efnislega, enda hentar það þeim yfirleitt illa.

Ólafur Jóhann þarf aftur á móti ekkert að verja nafna sinn.

Matti - 01/07/08 23:09 #

Eitt annað.

Þegar Ólafur Jóhann bendir á ósannindi mín játa ég það fúslega og leiðrétti skrif mín.

Það gera prestar nær aldrei.

Baddi - 01/07/08 23:32 #

Mea culpa. Ég leiðrétti mig hér með og vil skipta út orðinu "fífl" fyrir orðið "séra".

Matti - 01/07/08 23:35 #

Verði þinn vilji.