Örvitinn

Björk, Bubbi og skoðanafrelsið ógurlega

Afsakið, ég ætla að rífa kjaft.

Umræðan um Björk og Bubba er dálítið merkileg.

Það er ljóst að ummæli Bubba voru skelfilega heimskuleg, um það þarf ekkert að deila. Það er fátt tilgangslausara en þvaður um að fólk eigi freka að gera eitthvað annað. Alltaf er hægt að tuða og segja að frekar en þetta ætti fólk að vera að gera hitt.

Einhverjir gagnrýndu Bubba og svo fór fólk meira að segja að benda á að Bubbi væri dálítill hræsnari - talandi um fátækt moldríkur maðurinn.

Þá kemur næsti fábjánakór með ennþá heimskulegra jarm. "Má Bubbi ekki hafa skoðanir, er Björk heilög?"

Gagnrýni á heimskulegar skoðanir Bubba verður að ritskoðun í kolli þessa fólks. Það er ákaflega almenn ranghugmynd að ef einhverjar skoðanir eru gagnrýndar, jafnvel harðlega, sé þar með verið að banna fólki að hafa þessar vitlausu skoðanir. Það er eins og fólk geti ekki gert greinarmun á umræðu og fasisma. Ef ég held því fram að þú hafir rangt fyrir þér er ég ekki að hóta því að skjóta þig fyrir að hafa bjánalega skoðun. Ég er einfaldlega að gagnrýna skoðun þína. Það væri ritskoðun ef ekki mætti gagnrýna hugmyndir annarra - ekki satt?

Bubbi má hafa hvaða skoðun á Björk sem er og jafnvel trúa á hvaða Gvuð sem er. Heiðinginn ég áskil mér rétt til að hafa mínar skoðanir á Bubba, Björk og Gvuði. Hvað sem öðrum finnst.

kvabb
Athugasemdir

hildigunnur - 21/07/08 23:35 #

heh, minnir mig á þegar moggabloggstjórar lokuðu á rasistann og mogglingarnir létu eins og það væri búið að skrúfa fyrir hans málfrelsi - væntanlega hvergi hægt að tjá sig nema á blog.is...

Kristján Hrannar Pálsson - 22/07/08 15:31 #

Já ég fann mig knúinn til að gera athugasemd við þetta á moggablogginu mínu(sem ég hafði þó forðast í lengstu lög). Hvers vegna sakar enginn Nelson Mandela um vanrækslu í dýravernd, eða PETA um hirðuleysi gagnvart mansali?

Eyja - 23/07/08 11:36 #

Ég held að þegar fólk segir "A ætti nú frekar að berjast gegn X heldur en Y" þá meinar það í raun "ég vil ekki að neinn berjist gegn Y því að ég á þar hagsmuna að gæta".

Matti - 23/07/08 18:18 #

Ég held þú hafir rétt fyrir þér.