Örvitinn

Menningarnótt í fleiri orðum

Stelpurnar í strætóskýliMenningarnótt hófst eiginlega á föstudagkvöldi hjá okkur hjónum en þá fórum við út að borða í tilefni tíu ára brúðkaupsafmælis. Fórum á Austur Indía fjelagið og fengum yndislegan mat eins og allt. Skrifa sér færslu um það. Fórum á smá pöbbarölt eftir matinn en vorum ekki mjög lengi í bænum.

Tókum strætó í bæinn í gær og vorum kominn í miðbæinn á hádegi. Byrjuðum á því að fá okkur að borða á Sólon því öll vorum við glorhungruð . Maturinn var fínn og við fórum aðeins og dagskrá Menningarnætur. Þar sem ég sat og dundaði mér með myndavélina mína sá ég að á næsta borð var mættur útlendingur sem var ekki bara með eins myndavél og ég, hann var líka með D3. Það er fínt fyrir mig að sjá að ég er ekki mesti græjusjúklingur í heimi en hann var þó eflaust atvinnumaður.

Gyða og Áróra undir regnhlíf Eftir hádegismat röltum út í rigninguna, kíktum á Arnarhól þar sem við skoðuðum risastóra flugdrekann og lásum sögu hans. Klöppuðum svo dálítið fyrir hlaupurum sem voru að koma í mark missprækir.

Gengum því næst upp Skólavörðustíg og ætluðum að kíkja á systur mína en hún hafði brugðið sér frá þegar við komum. Skoðuðum markaðinn á Óðinsgötu en svo skyldu leiðir.

Áróra Ósk var að drepast í fótunum þannig að hún kom mér á English pub og sat úti í horni meðan ég glápti á Liverpool leik. Leikurinn leit ekki vel út en endaði stórkostlega. Á barnum var hópur Bandaríkjamanna að skemmta sér og segja kvenna og fylleríssögur frá fyrri kvöldum, ég er næstum viss um að einn þeirra er frægur leikari en er þó ekki viss. Dökkhærður, lágvaxinn og myndarlegur er frekar almenn lýsing!

Á sama tíma fór Gyða með stelpurnar í Miðbæjarskólann. Hún bloggaði nánar um það. Ég og Áróra röltum þangað, hittum stelpurnar og fengum okkur kökusneið.

Við fórum þaðan án þess að vita hvað hafa ákveðið hvað við myndum gera næst, vorum að spá í að kíkja á Listasafn Íslands en ákváðum af rælni að kíkja á tónleika í Fríkirkjunni. Þeir voru stórskemmtilegir og ég vildi ég gæti sagt meira um þá, en ég man ekki einu sinni hvað sönghópurinn heitir. Fletti því upp á eftir og uppfæri færsluna.

Tóti spilar gítarsólóEftir Fríkirkjutónleika gengum við inn í bæ, á Austurvelli heyrðum við kunnuglega tónlist og jukum hraðann að Ingólfstorgi, náðum að hlusta á eitt og hálft lag með Retro stefson (varúð, Myspace síða).

Áttum pantað borð á La primavera klukkan sex. Borðuðum kvöld þar ásamt foreldrum mínum, Didda, Jónu Dóru, Óttari og Ásdísi Birtu. Fengum ágætis mat en samt ekkert sérstakan. Parma skinka með geitaosti stóð upp úr, tagliatella með kjúkling og kóngasveppum var ekkert merkilegt og mamma varð fyrir vonbrigðum með skötuselinn.

HraunEftir kvöldmat röltum við í Ráðhúsið þar sem Hjálmar voru auglýsir en Sigurður Guðmundsson var að spila. Þegar þarna var komið við sögu var Áróra Ósk búin að gefast upp og Gyða rölti með henni til móts við strætó. Það gekk ekkert sérlega vel hjá þeim en er önnur saga. Við hin fórum í Kraum og hlustuðum á Hraun(varúð, Myspace síða) sem voru stórskemmtilegir. Í dagskrárblaðinu sem við höfðum undir höndum var reyndar auglýst að Svavar Knútur myndi spila sem trúbador. Hraun er greinilega hress hljómsveit (þó ég held þeir vilji ekki bara þekktir fyrir að vera hressir) og gerðu þetta afar vel, hljómsveitin var búin að dreifa sér um búðina og svo færðu þeir sig um set milli laga. Svavar var svo afar skemmtilegur milli laga. Stelpunum fannst afar fyndið þegar bassaleikarinn faldi sig í skiptaklefanum. Allir í hópnum voru stórhrifnir af Hraun.

GeirfuglarnirNæst skyldu leiðir, foreldrar mínir og systkyni fóru annað en við kíktum á Fræbblana. Ég stoppaði stutt í þvögunni, hlustaði á tvö eða þrjú lög.

Klukkan tíu fórum við að sjá Geirfuglana (varúð, Myspace síða) í Iðnó. Settumst á góflið og hlustuðum á útgáfutónleika. Geirfuglarnir voru stórskemmtilegir og við keyptum diskinn fyrir þúsund krónur að tónleikum loknum. Gyða var að reyna að rifja upp því hún á að kannast við flesta meðlimi hljómsveitarinnar úr MS, vantaði Kötu með sér til að hjálpa sér að muna. Stelpurnar voru orðnar ansi þreyttar og Inga María dottað á tímabili.

Glápt á flugeldasýninguÞá var ekkert eftir nema flugeldasýning, hittum foreldra mína hjá stjórnarráðinu og röltum með þeim út á Sæbraut framan við Sjávarútvegsráðuneytið. Horfum á glæsilega flugeldasýninu. Síðustu tvö ár höfum við horft á sýninguna úr nokkurri fjarlægð frá Sæbraut við Kirkjusand. Ég er ekki frá því að það sé skemmtilegra að vera nær.

Röltum að bílnum sem við höfðum skilið eftir kvöldið áður og ókum greiðlega heim. Umferðin var bara tiltölulega létt. Vorum öll ansi þreytt eftir langan dag.

Hér eru allar myndir dagsins. Ég tók miklu fleiri en þetta er ágætis sýnishorn.

menning
Athugasemdir

Kalli - 24/08/08 20:44 #

Mikið er gaman að sjá gaurinn með Nikon vélarnar. Ég er næstum alltaf með vélina mína yfir öxlina, reyndar bara litla D40 en oftast með 30mm Sigmu með grimma linsuderinu, og finnst ég skera mig dáldið úr þegar ég smelli henni upp á borð eins og þessi :)