Örvitinn

Eldsneytisverð og eftirlaun

Það tekur Alþingi hálfan dag að hækka gjöld á áfengi og eldsneyti en enn er ekki búið að lækka laun ráðamanna eða breyta eftirlaunaréttindum þeirra. Hentugt! Ætli við sjáum fleiri þingmenn í strætó á næstunni? Ég efast um það.

Ég byrjaði daginn á bensínstöðinni, borgaði 155,90.- fyrir dísel. Um daginn var ég að reikna út sparnaðinn miðað við hæsta verð á olíunni og sá fram á að þetta myndi vega eitthvað upp á móti annarri hækkun. Æi, það er gott að ríkið fær sinn skerf af því. Svo er líka undursamlegt að hækkunin fer beint út í vísitöluna og hækkar lánin okkar.

Jájá, ég veit að ég má ekki væla heldur á ég að vera með krónískt samviskubit yfir því að keyra bíl, með tvo bíla á heimili og þar af er annar slyddujeppi. Væri ég barnlaus myndi ég alveg örugglega taka strætó.

kvabb
Athugasemdir

- grettir - 12/12/08 10:16 #

Það er nú málið. Ef maður ætti ekki börn, þá væri maður ekki svona háður bílnum.

Eyja - 12/12/08 11:59 #

Ef maður á bíl á annað borð og býr ekki þeim mun lengra frá vinnustað þá er mun ódýrara að nota bílinn en að taka strætó. Ég bý í Kópavogi og vinn vestur á Melum. Bensínkostnaður til og frá vinnu 20 daga á mánuði er tæplega 3400 kr. Mánaðarkort í strætó kostar hins vegar 5600 kr. Ef ég keypti 9 mánaða kort kæmi ég u.þ.b. út á sléttu ef ég tæki strætó samviskusamlega til vinnu alla daga.

Til að það borgaði sig fyrir mig að nota strætó þyrfti ég hreinlega að losa mig við bílinn alveg. Þetta finnst mér afar fúlt, ég væri alveg til í að nota bílinn minna en búandi í úthverfi með 3 börn er eiginlega útilokað að vera alveg bíllaus.

Ég tek reyndar strætó í vinnuna u.þ.b. einu sinni í viku. Það geri ég eingöngu af umhverfisástæðum og af því að ég kann vel við það. Það kostar mig 454 kr. hvern dag sem ég geri það, miðað við að ég kaupi mér 11 miða kort á 2500 kr. Til samanburðar er bensínkostnaður til og frá vinnu innan við 170 kr (ofan á það má svo væntanlega bæta einhverju sliti á bílnum). Bensínið má hækka mikið áður en það fer að vera hagstætt að nota strætó, því miður.

Gummi Jóh - 12/12/08 13:11 #

Þó maður eigi ekki börn er maður samt háður bílnum.

Það myndi aldrei ganga upp að fara í hádegisbolta, kvöldbolta, kíkja í heimsókn til vina og fjölskyldu og útrétta og stunda fulla vinnu.

Dagurinn færi allur í strætóferðir og að eyða tímanum á skiptistöðvum.

Matti - 12/12/08 16:41 #

Það er alveg rétt. Við vinnufélagarnir samnýttum reyndar bíl í hádeginu, enda fórum við fimm héðan. Ég fór alltaf með strætó eða hjólandi í vinnuna þegar Gyða var í fæðingarorlofi fyrir sjö árum - en þá þurfti ég enda aldrei að standa í að sækja stelpurnar.

Þetta er líka ágætur punktur Eyja, fólk þyrfti að losa sig við bílinn til að það væri einhver alvöru sparnaður. A.m.k. taka af númerum til að spara tryggingar.

Bragi - 12/12/08 17:23 #

Þú sparar nú reyndar ekki tryggingarnar með því lengur. Aðallega er um að ræða árstryggingar á bílum og því ekki hægt að fá niðurfellingu á þeim.

Matti - 12/12/08 17:26 #

Fjandakornið. Sparar maður bifreiðagjöld?

Siggi Óla - 12/12/08 21:51 #

Humm hálfan dag?

Samkvæmt fréttum í dag tók allt ferlið við þetta frumvarp með kynningu, nefndarstörfum og öllu klabbinu 95 mínútur og kvað vera ein skjótasta afgreiðsla sem um getur.

Sumt er auðveldara en annað.

hildigunnur - 12/12/08 22:44 #

við gáfumst upp á bílleysi fyrir 13 árum en erum á hörkunni að vera bara á einum (bóndinn duglegri en ég, hjólar í vinnu í nánast öllum veðrum - en ég er meira í skutlinu og dreifðari vinna, reyndar).