Örvitinn

Brigðult minni

Í byrjun desember var jólahlaðborð vinnunnar haldið hér í höfuðstöðvunum. Ég sá um að elda kjötið og mætti því á staðinn með stóra plastskál (fyrir fyllingu), kjöthitamæli og pumpu (fyrir soðið). Á mánudeginum eftir jólahlaðborð skellti ég kjöthitamælinum og pumpunni í skálina og fór heim með allt draslið.

Svo týndist skálin. Ég fann hana hvergi sama hvað ég leitaði. Vissi að ég hafði komið með hana heim. Leitaði í eldhúsinu, í búrinu og út um allt. Kjöthitamælir og pumpa voru á sínum stað í eldhúsinu.

Í dag rölti ég inn í búr í vinnunni þar sem skálin blasti við upp á efstu hillu. Ég hafði aldrei tekið hana heim, minningin um að kjöthitamælir og pumpa hafi farið í skál var uppdiktuð. Ég hafði blandað saman minningunni frá því ég fór með dótið í vinnuna og þegar ég fór með það heim.

Stundum er ágætt að efast, minni okkar getur verið afskaplega brigðult. Brigðul dómgreind er annað og hugsanlega verra mál.

efahyggja
Athugasemdir

LegoPanda - 12/01/09 23:03 #

Svona er minnið alveg ótrúlega furðulegt :P

Maður getur einfaldlega ekki treyst því jafn vel og haldbærum sönnunum.

Allah - 13/01/09 09:23 #

Guð er líklega að refsa þér, heldurðu það ekki?

Matti - 13/01/09 09:49 #

Guð er líklega að refsa þér, heldurðu það ekki?

Það finnst mér ósennilegt þar sem ég trúi ekki á tilvist nokkur gvuðs. Aftur á móti er skemmtilegt að spá í því að allir gvuðir stóla á brigðult minni og brigðula dómgreind. Án þessara tveggja eiginleika manna væru gvuðir ekki til.