Örvitinn

Trúlausir aðdáendur trúarbragða

Sumir yfirlýstir trúleysingjar eru miklir aðdáendur trúarbragða. Þeir fara stundum dálítið í taugarnar á mér. Yfirleitt vegna þess að þeir virðast halda að gagnrýni á trúarbrögð og önnur hindurvitni sé eitthvað þroskastig sem fólk þurfi að komast yfir. Ekki nenna þeir að kynna sér málflutning þeirra sem gagnrýna hindurvitnin heldur endurtaka þeir yfirleitt rangfærslur frá áróðursdeildum trúfélaganna.

Einnig virðast þeir hafa mikla þörf fyrir að tengja nær alla trúargagnrýni við Dawkins. Dawkins kemur málinu lítið sem ekkert við.

Þeir virðast ekki átta sig á því að hér á landi snýst umræðan fyrst og fremst um trúfrelsi og jafnrétti. Málið er í raun ekkert flóknara. Það kemur mér ekkert við hverju aðrir trúa, svo lengi sem við stöndum öll jafnfætis. Svo lengi sem ekki er verið að mismuna fólki á grundvelli lífsskoðana.

Hefðir eru til að læra af, ekki ríghalda í. Þó eitthvað hafi verið gert á ákveðinn máta langalengi er ekki þar með sagt að ekki megi breyta því. Það er engin góð ástæða til að mismuna fólki út frá lífsskoðunum á Íslandi í dag.

kristni
Athugasemdir

Teitur Atlason - 15/01/09 00:25 #

Ég er komin á þá skoðun að málið sé flóknara. Í stuttu máli þá tel ég að trúlausir aðdáendur trúarbragða líti pragmatískt á málið. Þeir sjá að félagslega virka trúarbrögð stundum sem leið til hamgingu og til betra samfélags þrátt fyrir að kenninga-gumsið sé ótækt.

Þessvegna eru trúlausir stundum aðdáendur trúarbragða.

Óli Gneisti - 15/01/09 00:29 #

Maður veit að sumir hugsa einfaldlega þannig að trúleysi sé allt í lagi fyrir rétta fólkið en múgurinn þurfi trú.

Kristín í París - 15/01/09 02:10 #

Hvað með fólk eins og mig sem er trúuð og bið mínar bænir (alltaf í einrúmi þó) en er algerlega sammála baráttumálum Vantrúar og Siðmenntar um aðskilnað ríkis og kirkju og afnám trúboðs í skólum?

Matti - 15/01/09 08:00 #

Fólk eins og þú fer ekkert í taugarnar á mér ;-) Trú þín þvælist ekkert fyrir mér.

evilpiggie - 15/01/09 09:29 #

Ég skil reyndar að nokkru leiti þessa 'trúlausu áhangendur trúarbragða' og þá einmitt akkúrat þetta með þroskastigið, því að ég upplifði þennan þroska sjálfur. Þegar ég var unglingur var ég oft að hnýta í trúarbrögð af eintómum töffaraskap til að sjokkera fólk. Síðan þroskaðist það af mér og lengi vel lét ég trúarbrögð í friði þótt mér fyndist þau bjánaleg. Það vantar hins vegar hjá þessum 'trúlausu áhangendum trúarbragða' næsta þroskastigið - þ.e. þegar maður fer að átta sig á því að þetta er meira en bara bjánalegar hugmyndir til að gera grín að eða láta í friði. Þessar hugmyndir hafa mikil og raunveruleg áhrif á umheiminn og þar með á okkur sjálf.

Jón Yngvi - 15/01/09 09:40 #

Þetta er eiginlega hálfgert dylgjublogg meðan þú nefnir ekki dæmi Matti. Varstu kannski að horfa á Kiljuna?

Matti - 15/01/09 09:48 #

Ég horfði á Kiljuna en var að hugsa þetta almennt, hafði t.d. Bjarna Harðarson og þennan í huga.

Kristinn - 15/01/09 10:38 #

Málið er kannski það að við sem nennum að fárast út í trúarbrögð erum gjarnan að gagnrýna hugmyndina um hindurvitni í heild sinni, s.b. Vantrú.

Umræðan um jafnrétti er ekkert svo flókin, þó að margir geti vissulega ekki einu sinni skilið það sjónarmið, heldur vilja margir ekki að amast sé út í einlæga trú fólks.

Einn benti mér á þann vinkil, þó vont sé að bera hann á borð, að folk sem trúi sé einfaldlega þannig gert, og það því eins og að stríða þroskaheftum að amast út í trú þeirra.

Þetta er náttúrulega púðurtunna, en það er sannleikskorn í þessu finnst mér.

Kristinn - 15/01/09 13:26 #

...og þá á ég vitaskuld ekki við að trúaðir séu þroskaheftir, þetta er kannski óheppileg samlíking ;)

Matti - 15/01/09 13:29 #

Sjúkk, ég hafði áhyggjur af þér á tímabili :-)

LegoPanda - 15/01/09 15:22 #

Þessi hugmynd Kristins finnst mér óhugguleg ef tekin í samtogi með hugmyndinni að trú sé góð fyrir almúgann - því það gerir enn meira úr elítunni. Trú er fín fyrir almúgafólkið, og það er í raun þannig gert að það er ekki hægt að rökræða við það.

En mér finnst hún eiginlega verri að því leyti að hún segir manni að gefast upp á fólki. Voru Astekar bara þannig gerðir að þeir trúðu því að það yrði að fórna mannslífum til að sólin myndi rísa á hverjum degi? Af hverju ættum við að líta öðrum augum á trúarhugmyndir nútímans?

Matti - 15/01/09 15:29 #

Þessi grein Óla Gneista á Vantrú tengist umræðunni: Að koma fram við trúað fólk af virðingu

Það sem angra mig mest við þetta viðhorf er að það gerir svo lítið úr trúuðu fólki. Af hverju ætti maður að koma fram við alla trúaða eins og þeir séu brotthættir? Er í raun hægt að svívirða lífsskoðun einhvers á verri hátt heldur en að úrskurða að aðalástæðan fyrir henni sé viðkvæmni þeirra sem hana aðhyllast?