Örvitinn

Útúrsnúningar ríkiskirkjuprests

Undanfarið hafa raddir lýst eftir viðbrögðum hinna andlegu leiðtoga þjóðarinnar mitt í þeim aðstæðum sem þjóð okkar er stödd í. Ég hef verið spurð:„Af hverju segið þið ekkert, hvar eru ykkar raddir?” Ég fagna breyttu viðhorfi því stutt er síðan að mörg okkar börðust hart gegn röddum sem kvörtuðu undan hinum andlegu leiðtogum, við vorum of hávær og kirkjan allt of áberandi innan stofnana samfélagsins. Í takt við ríkjandi frjálshyggju áorkuðu þessar raddir ýmislegt. #

Trúir Guðbjörg þessu eða lýgur hún blákalt?

Getur verið að það séu ekki sömu "raddir" sem um er að ræða? Er hugsanlegt að eitthvað fólk telji að ríkiskirkjan megi ekki stunda trúboð í leik- og grunnskólum en prestar megi eigi að tjá sig um líðandi stund? Ég er ekki í þeim hópi en útiloka ekki að slíkt fólk sé til.

Ég fullvissa Guðbjörgu og annað ríkiskirkjufólk um að þær raddir sem hafa kvartað undan þessum "andlegu leiðtogum" (prestum) sem eru of háværir og alltof áberandi innan stofnana samfélagsins (leik- og grunnskóla) munu ekki þagna fyrr en hér verður alvöru trúfrelsi og búið að aðskilja ríki og kirkju. Kreppan breytir því ekki.

Guðbjörg tengir þetta við "ríkjandi frjálshyggju" eins um sé að ræða neikvætt afl, hugsanlega vill hún að fólk hugsi um útrásarvíkinga og kreppu. Þessi frjálshyggja er samt af öðrum toga og er það afl sem olli því að ríkiskirkjan hefur næstum því tekið samkynhneigða í sátt. Þessi ríkjandi frjálshyggja er það afl sem kom því til að Guðbjörg getur verið prestur. Þessi ríkjandi frjálshyggja er ekkert annað en baráttan fyrir jafnræði og mannréttindum. Ég get ekki annað en verið stoltur af því að hafa áorkað ýmsu í krafti hennar.

Í þeim aðstæðum sem og aðstæðum þjóðfélagsins talar hin kristna trú og hinir andlegu leiðtogar hennar og hún er til staðar fyrir öll þau sem til hennar leita og hún leitar einnig þeirra sem hana vilja finna eins og alltaf áður.

Leit kirkjunnar er vandamálið, hún er nefnilega ansi ágeng. Auk þess eru prestar ekki "andlegir leiðtogar" heldur einfaldlega trúboðar hinnar Evangelísku lúthersku Þjóðkirkju.

kristni
Athugasemdir

Teitur Atlason - 27/01/09 12:16 #

Ótrúlegt! Hún tengir saman Daviðs-frjálshyggjuna við grundvallar-mannnréttindi. Telur það sama hlutinn!

-Heimskan er hið mesta böl.