Örvitinn

Fasismi og nornaveiðar

Kirkjuliðið er búið að snúa fasisma upp á þá sem mótmæla óeðlilegu trúboði, kalla slíka hegðun umburðarlyndisfasisma. Nú eru það nornaveiðar og rannsóknarrétturinn sem þeir heimfæra upp á trúleysingja.

Hvað þurfa trúleysingjar eiginlega að gera til að uppskera slíkan titil? Vilja þeir banna trú eða pynta presta? Nei, það er nóg fyrir trúleysingjana að andmæla ekki þegar hjúkrunarfræðingur er látinn víkja úr starfi eftir að hafa boðið sjúklingum alveg ókeypis aukaþjónustu sem fólst í því að hún myndi biðja fyrir þeim. Ekki gekk að áminna hjúkkuna og senda á námskeið, hún hélt áfram bænaþjónustunni.

Ég held að enginn trúleysingi myndi láta það trufla sig ef hann frétti af því að hjúkkan góða hefði beðið fyrir sjúklingum sínum í einrúmi. En málið snýst um að hún var að bjóða sjúklingum upp á bænirnar - til hvers veit ég ekki. Ég hefði haldið að ljóst væri að trúboð er ekki liður í starfi hjúkkunnar og tel því ekkert óeðlilegt að henni sé vikið úr starfi fyrst ekki dugði að áminna hana og uppfræða. Fólk býður hana velkomna á heimili sitt í ákveðnum tilgangi og hún hefur enga ástæðu til að blanda trú sinni í málið. Trú sem henni er fullkomlega frjálst að aðhyllast og iðka á sínum tíma.

En nei, trúleysingjar sem andmæla ekki uppsögn hjúkkunnar eru víst hinn nýji rannsóknarréttur.

Hvað næst?

kristni
Athugasemdir

Sigga Magg - 09/02/09 10:07 #

Mér sýnist hún hafa boðið upp á þessa þjónustu. Var ekki öllum frjálst að hafna boðinu?

Matti - 09/02/09 10:48 #

Hún átti einfaldlega ekki að bjóða upp á þessa þjónustu, það var ekki í hennar starfslýsingu. Skjólstæðingar hennar áttu ekki að vera settir í þá stöðu að þurfa að hafna þessu.