Örvitinn

Stjórnmálaflokkar

Legg til að starfssemi stjórnmálaflokka verði bönnuð, þeir eru mannskemmandi. Leiða til þess að fólk hættir að hugsa og fer að fylgja línunni.

Handahófskennt val á þing, 63 einstaklingar úr þjóðskrá sem standast lágmarks greindar- og siðferðispróf. Sérfræðingar til aðstoðar. Þungir fangelsisdómar vegna spillingar. Allar ákvarðanir uppi á borði, allt opið, fullt aðgengi.

Allt er betra en þetta helvítis rugl sem við búum við í dag og um ókomna framtíð. Fábjánar vælandi um að hinn og þessi flokkurinn sé ómögulegur en þeirra langbestur.

Flokkarnir eru allir vonlausir. Þeir eru dæmdir til að verða það. Það er í eðli þeirra.

Fólk byrjar á að koma sér saman um hugsjónir en áður en það veit af er nauðsynlegt að gera málamiðlanir, hugsjónir víkja. Það vill það enginn en þannig er það bara. Svo er mynduð stjórn með öðrum flokki og þá koma enn fleiri málamiðlanir. Kreppa - málamiðlanir, góðæri - málamiðlanir. Hugsjónir falla á gólfið og er sópað undir teppið þar sem þær gleymast fram að næstu kosningum þegar fólk kíkir undir mublur og mottur í leit að einhverju sem það veit að það týndi en man ekki hvað er.

Bara ef minn flokkur væri við stjórn en ekki hinn, þá væri allt í allra besta lagi.

pólitík
Athugasemdir

Birgir Baldursson - 04/04/09 01:55 #

Mikið hjartanlega er ég sammála þér.

Borgarahreyfingin var t.d. að bera í mig víurnar núna á dögunum að taka sæti á lista þeirra, en ég held ég geti ekki verið annað en óflokksbundinn og fullkomlega frjáls að skoðunum. Gæti aldrei unnið eftir flokkslínu.

Lalli - 04/04/09 04:57 #

Ég væri nú alveg til í að sjá flokk skynsemishyggju sem beitti sér fyrir því að "kommon sens" væri haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum. Væri til í að ganga í slíkt apparat.

Þórhallur Helgason - 04/04/09 06:07 #

Hef verið að hugsa nákvæmlega þetta sama undanfarið, þessir flokkar eru drasl, allir með tölu...

GH - 04/04/09 09:11 #

Frábær hugmynd hjá þér, mikið er ég sammála!

Matti - 04/04/09 11:04 #

Ég var búinn að gleyma því hvað það er hressandi að láta allt flakka!

Ég væri nú alveg til í að sjá flokk skynsemishyggju sem beitti sér fyrir því að "kommon sens" væri haft að leiðarljósi í öllum ákvörðunum. Væri til í að ganga í slíkt apparat.

Svo lengi sem það væru engar málamiðlanir hljómar það ekkert illa. Ertu að reyna að stofna hreyfingu.

Það mætti bæta við listann hjá mér varðandi þing þjóðarinnar. Til ráðgjafar væru sérfræðingar sem gættu þess að allar umræður færu skynsamlega fram og í hvert sinn sem þingmaður beitti rökvillu væri blásið í þokulúður, þinghald stoppað í smá stund og farið yfir rökvilluna. Ekki yrði haldið áfram fyrr en þingmaður gerði sér grein fyrir því hvernig hann fór út af brautinni.

Matti - 04/04/09 11:30 #

Ég að sjálfsögðu ;-)

Ráðgjafarnir þurfa að fara í gegnum ráðningarferli, alveg eins og sérfræðingar í dag.

Einhversstaðar þarf að byrja ferlið, núllpunkturinn er núverandi ástand. Þegar kerfið er komið af stað mun almenningsþingið sjá um ráðningarnar - en ferlið verður opið og gagnsætt.

Ekki ætla ég að halda því fram að þetta sé framkvæmanlegt enda tek ég fram að við búum við núverandi kerfi um ókomna framtíð.

Gunnar Grímsson - 04/04/09 13:48 #

Alveg rétt, flokkakerfið er ónýtt og eitrar alla sem í því fara að starfa. Og ég hef heyrt vitlausari hugmyndir að breytingum en þessar að ofan.

Ég er hins vegar alveg ósammála þér um að við séum dæmd til að fara eftir núverandi kerfi um ókomna framtíð, það eru mjög margir mjög ósáttir við það í dag og kreppur eru einmitt oft góður tími til að koma í gegn breytingum.

En stóra vandamálið er hvernig á að koma því kerfi frá því það er kerfið sem ræður í dag. Atburðir síðustu daga sýna enn og aftur að þeir sem eru hluti af því kerfi ætla ekki að láta örðu af völdum til þjóðarinnar fyrr en í fulla hnefana.

Bjarki - 04/04/09 22:19 #

Handahófsval á þing er í alvörunni ekki verri hugmynd en núverandi fyrirkomulag. Ég veit ekki hversu mikil alvara þér er með fullyrðingunni um að núverandi kerfi sé komið til að vera um ókomna framtíð en margir hafa farið flatt á því í gegnum tíðina að lýsa yfir endalokum sögunnar. Fyrir mér er það fjarri því sjálfgefið að það flokksmiðaða fulltrúalýðræði sem iðkað er á vesturlöndum núna sé æðsta stig þróunarinnar. Auðvitað er alltaf "bylting" handan við hornið.