Örvitinn

Exista bréfin

Þegar Exista fór á markað keypti ég bréf í félaginu fyrir um 220 þúsund krónur, mig minnir að útboðsgengið hafi verið 20.5 og þetta var sá skammtur sem fólki stóð til boða. Hæst fór gengi bréfanna í rúmlega 40. Mér fannst það glórulaust gengi en ákvað að eiga bréfin áfram þar sem þetta átti að vera langtímafjárfesting, ég ætlaði ekki að stunda brask.

Í gær fékk ég bréf frá lögmannsstofu þar sem yfirtökutilboð var útlistað, gengið orðið 0.02 og mér stendur því til boða að fá 220 krónur fyrir hlutabréfin mín.

Tvö hundruð og tuttugu krónur :-)

Lýður og Ágúst geta étið það sem úti frýs - fjandans krimmar.

dagbók
Athugasemdir

baddi - 15/04/09 22:26 #

Jam sæll. Ég átti líka smá í Exista. Mér var boðið 3 krónur fyrir mín bréf. Konan hló sig máttlausa þar sem bréfsefnin frá lögfræðiskrifstofunni kostuðu meira en það sem ég á eftir í þessu félagi. Bruðl.

Sammála - þetta eru krimmar.

Hjalli - 15/04/09 23:07 #

Sko, nú getur vel verið að í ljós komi að í tengslum við Exista hafi verið brotin lög, en það að virði bréfanna sé 1/2000 af því sem það einhverntíman var sannar auðvitað engan glæp - bara rugl.

Halli ríki - 15/04/09 23:09 #

"Buy low - Sell high" Warren Buffet

Matti - 15/04/09 23:11 #

það að virði bréfanna sé 1/2000 af því sem það einhverntíman var sannar auðvitað engan glæp - bara rugl.

Alveg rétt.

Þetta eru krimmar!

sigurður - 15/04/09 23:13 #

Datt þér virkilega ekki í hug að selja bréfin þegar þau höfðu hækkað tvöfalt í verði? Þú ætlaðir ekki að stunda brask, en af hverju keyptirðu bréfin ef þú ætlaðir ekki að græða á þeim?

Matti - 15/04/09 23:16 #

Datt þér virkilega ekki í hug að selja bréfin þegar þau höfðu hækkað tvöfalt í verði?

Jú, mér datt það í hug en ákvað að gera það ekki.

Þú ætlaðir ekki að stunda brask, en af hverju keyptirðu bréfin ef þú ætlaðir ekki að græða á þeim?

Þetta var hluti af sparnaði mínum (megnið var og er á bankareikning) og ég hafði hugsað þetta sem langtímafjárfestingu.

Getur fólk ekki gert eitthvað í þessu?

Nei, Exista er tæknilega farið á hausinn. Hluturinn er verðlaus. Þetta yfirtökutilboð er bara djók.

Agnar kr. Þorsteinsson - 15/04/09 23:36 #

Ég lenti í því að hafa verið rændur hlutabréfum mínum í Símanum, á síðasta ári af þessum hýenum sem hlaupa um hæðir Exista í sínum jakkafötum. Ég neitaði því tilboði en þá tóku þeir sig til og nýttu lagaglufu sem gekk út á það, að þeir gátu ákveðið verðið og brotið á mér eignarétt stjórnarskrárinnar, og hirt af mér bréfin.

Eftir sat ég eftir án ágætis hlutabréfa í Símanum en með handónýt bréf í Exista sem hrundu dags daglega. Eins og kom svo í ljós, þá voru þeir í stöðutökuleik gegn krónunni og margt fleira ólöglegt, sumt sem má jafnvel kalla hrein og tær landráð. Ég hef veirð að velta fyrir mér hvað maður getur gert til að svara svona svínarí, hvaða aðgerða maður getur gripið til. Á maður að storma inn á Exista og ná í hluti up í það sem stjórnendur þessa fyrirtækis hafa rænt af manni, á maður að fara að reyna að koma af stað aðgerðum gegn Bakkavör eða hvað?

Hði minnsta er allavega að gera þetta eins dýrt fyrir Bakkavararbræður, Erlend Hjaltason og alla þær hrollvekjandi verur sem bíða í myrkviðum Exista. Ekki láta þá fá bréfin nema þeir þurfi að hafa ærin tilkostnað til. Helst senda þeim kröfu á móti fyrir skaðann sem þeir hafa valdið þjóðfélaginu. Jafnvel grípa til beinni aðgerða gegn fyrirtækjum þeirra.

101 - 15/04/09 23:47 #

Fékk svona bréf þar sem mér voru boðnar 1270 kr. fyrir 1.276.000 kall sem ég borgaði fyrir hlutinn.

Setti bréfið í ruslið og vil láta þá eyða meiri pappír og frímerkjum til að fá þetta með lagagreininni sem Geir Haarde lét útbúa handa þeim. . Við seljum ekki - Við seljum ekki.

KrissiB - 16/04/09 00:05 #

Fékk sendan tíu síðna doðrant um að ég ætti heilar 4 (já, fjórar) krónur í Exista bréfum. Þetta var arðurinn frá Kaupþingi eitt árið. Best að láta ósagt hvert mér finnst að þeir ættu að troða þessum krónum.

Henrý Þór - 16/04/09 00:26 #

Hmm.. Spurning um að verða svolítið creative og bjóða hlutina til sölu á Ebay. Fyrir litlar mýs eins og mig sem aldrei keyptu hlutabréf þar sem ég skildi ekki markaðinn, og misstu þar af leiðandi af góðæris goldrushinu, og fyrir útlendinga sem vilja eiga þetta til að sýna að þeir eigi bút af íslenska hruninu.

Svona eins og fólk sem á bút úr Berlínarmúrnum á hillunni heima hjá sér.

Ég væri alltént til í að skoða að gera þér tilboð upp á 222kr.. :-P