Örvitinn

Veitingastaðurinn Saffran

Við hjónin kíktum á veitingastaðinn Saffran í Glæsbæ í hádeginu. Fyrsta heimsókn okkar á þann stað.

Mættum rétt rúmlega tólf og þá var staðurinn fullur. Pöntuðum mat til að borða á staðnum þar sem afgreiðslustúlka gerði ráð fyrir að borð myndi losna áður en við fengjum matinn.

Beðið eftir sætum og mat

Því miður voru sumir gestir þaulsetnir. Saumaklúbbur tók fjögur borð undir hálftíma skvaldur eftir mat og aðrir skemmtilegir kúnnar voru dálítið frekir og tróðu sér framfyrir þannig að við biðum lengi eftir borðum. Vorum ekki komin með borð eftir tuttugu mínútunur þegar maturinn minn var tilbúinn. Örskömmu síðar fengum við sæti.

Þá kom babb í bátinn, maturinn hennar Gyðu skilaði sér ekki. Bakan hafði gleymst þó afgreiðslufólk reyndi að telja okkur trú um að hún hefði bara farið seint í ofninn. Það pirrar mig alltaf dálítið þegar fólk kemur ekki hreint fram. Miklu betra hefði verið að segja einfaldlega hver staðan var og afhenda okkur nan brauð eða eitthvað álíka meðan Gyða beið eftir matnum sínum.

Það er hátt til lofts á Saffran sem gerir það að verkum að það bergmálar óskaplega þarna inni og erfitt að halda uppi samræðum.

Maturinn

Maturinn er ljúffengur. Ég fékk mér Tandoori lamb og paprika á teini og Gyða pantaði Marokkóska böku. Lambið var meyrt og bragðgott og bakan afskaplega góð þó reyndar væri dálítið mikið af ansi sterkum rauðum chili á henni, Gyða týndi piparinn af eftir að hafa bitið í einn bita.

Verðlag er hóflegt, lambið kostaði um 1500.- og bakan um 1000.- Skammtarnir eru hæfilega stórir, ég hefði getað borðað meira en hefði ekki endilega haft gott af því!

Þrátt fyrir að hafa þurft að bíða eftir sætum og klúður með bökuna hennar Gyðu erum við staðráðin í að kíkja aftur á Saffran, stefnum á að grípa mat á heimleiðinni einhvern daginn. Þetta er góð viðbót í skyndibitaflóruna.

veitingahús
Athugasemdir

Jóhannes Proppé - 06/05/09 18:41 #

Þú mátt hafa í huga að kíkja á Gló í listhúsinu á móti hilton. Þar er frábær matur, hollur og hóflega verðlagður. Sennilega eina hollustusjoppan sem ég fer á í hádegismat.