Örvitinn

Ný ríkisstjórn

Ég er á báðum áttum með nýja ríkisstjórn. Er sáttur við utanþingsráðherrana, forsætis-, fjármála-, umhverfis- og menntamálaráðherra. Annað er sama bullið og vanalega. Félagsmálaráðherra hefur engan áhuga á félagsmálum, iðnaðarráðherra með ekkert vit á iðnaði og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er safngripur - a.m.k. ekki maður nýrra tíma í landbúnaði og sjávarútvegi. Samgönguráðherra er útdeilingarpólitíkus af gamla skólanum og utanríkisráðherra er brandari.

Evrópumálið er sennilega kjaftæði, skiptir engu máli næstu árin. Hverju á það að bjarga og hvenær? Ég hef litla trú á því að aðildarviðræður muni skapa gríðarlegt traust sem öllu bjargar. Ég er þó þokkalega hlynntur aðild að ESB ef það er hagstætt.

Hvað um það, þessi stjórn tekur vonandi erfiðar og óvinsælar ákvarðanir um eitthvað annað en klám og nektardans.

Mér finnst áhugavert að í umræðum um uppstokkun ráðuneyta hef ég ekki séð minnst á kirkjumál.

pólitík
Athugasemdir

Daníel - 11/05/09 10:22 #

Tveir menn labba inn til bankastjóra, báðir næstum því gjaldþrota, báðir þurfa að fá fyrirgreiðslu og aðstoð til að komast í gegnum erfiðleikana.

Annar kemur með plagg sem sýnir fram á að hann muni fylgja reglum bankans um sparnað, hann sýnir fram á að hann stefni að ná því sem að bankinn sjálfur kallar "nauðsynlegt jafnvægi til að ná fram stöðugleika." Hann skuldbindur sig til að fara í einu og öllu eftir þessum reglum, og reglugerðarverkið tryggir það að ef hann nær því, þá muni hann ná fram þessum stöðugleika.

Hinn maðurinn kemur inn til bankastjórans, og þegar að hann er spurður að því hvernig hann ætli sér að komast út úr erfiðleikunum, þá yppir hann öxlum og segir; ég redda þessu, þetta kemur bara í ljós, ég treysti því að einhverjir hjálpi mér, kemur í ljós."

Hvorum heldur þú að bankinn muni treysta betur til að fá peninga hjá sér?

EU leysir engan vanda eitt og sér, en það að fara í þetta ferli MUN skapa traust á Íslandi, einfaldlega vegna þess að leiðin sem að við þurfum að feta er þekkt, og hún hefur áður gefið árangur.

EU er engin töfralausn, og reyndar held ég að ferlið sjálft sé betra en sambandið.

Þetta er mín sýn á þetta, getur verið að hún sé röng, en ég sé ekki hverju við höfum að tapa.

Kannski töpum við sjálfstæði, en hvers virði er það ef að við erum í raun og veru í eigu erlendra kröfuhafa sem að geta öllu stjórnað? Sú staða getur komið upp ef ástandið versnar, hér heima eða erlendis.

Andrés - 11/05/09 10:46 #

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fær nýtt nafn.

"Dóms- og mannréttindamálaráðuneytið" held ég, eða eitthvað svoleiðis.

Matti - 11/05/09 11:01 #

Daníel, það er einmitt þetta sem ég er skeptískur á. Af hverju mun þetta eitt og sér skapa traust? Eru öll lönd ESB í góðum málum af því þau eru í ESB?

Þetta er mín sýn á þetta, getur verið að hún sé röng, en ég sé ekki hverju við höfum að tapa.

Ég er alveg sammála því enda hlynntur því að sótt verði um aðild.

Kannski töpum við sjálfstæði, en hvers virði er það ef að við erum í raun og veru í eigu erlendra kröfuhafa sem að geta öllu stjórnað? Sú staða getur komið upp ef ástandið versnar, hér heima eða erlendis.

Hverju stjórna erlendir kröfuhafar?

Andrés, ég hjó einmitt eftir því. Þetta orðalag finnst mér dálítið merkilegt vegna þess að þetta rifjar upp umræðuna um leik- og grunnskólalög. Þar var kristin arfleifð sett inn en mannréttindi komust ekki að. Vonandi er þetta dæmi um ákveða hugarfarsbreytingu.

Daníel - 11/05/09 11:08 #

Ég held, og vona, að það skapi traust eingöngu vegna þess að við höfum tapað trausti, menn trúa því ekki að við höfum getu / þekkingu til að snúa hlutunum við einir (ég er sammála því), þannig að með því að fara eftir reglugerðum sem að hafa sannað sig þá sjái þeir að við erum að fara eftir aðferðafræði sem að þeir hafa séð virka annarsstaðar, og þeir þekkja mjög vel.

Ef við gerum þetta ekki, þá mun það kosta okkur gríðalega að mínu mati að reyna að sannfæra aðra um að við séum að gera rétt.

Erlendir aðilar, t.d. Danske Bank, munu aldrei treysta því að það sé hægt að marka það sem að við segjum eftir að við stjórnvöld héldu því fram, fram á síðasta dag, að hér væri allt í himnalagi. Ef að við þurfum að fara eftir reglum sem að aðrir eru að vinna eftir, t.d. upplýsingareglum, þá verður LÍKLEGA auðveldara að þora að trúa því að þeir geti fengið upplýsingar sem hægt er að nota. Eða er það ekki líklegt?

Ríkisvaldið er kannski of veikt á Íslandi í fjármálageiranum?

Fólk gerir sér ekki grein fyrir því að erlendir kröfuhafar gætu í raun ráðið stórum fyrirtækjum innanlands, t.d. Landsvirkjun. Ef að þeir gera það, þá geta þeir samið við fyrirtæki úti, látið skilja hagnaðinn eftir úti til að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Hitaveita Suðurnesja gæti farið þessa leið, hún er í raun og veru farinn á hausinn eftir að hafa verið tæmd af lausafé í græðgi.

Daníel - 11/05/09 11:13 #

Varðandi þennan punkt hjá þér:

Eru öll lönd ESB í góðum málum af því þau eru í ESB?

Nei, auðvitað ekki, en hinsvegar erum við í miklu verri málum en flest löndin þar, aðallega vegna krónunnar.

Dæmi, hér kostaði þvottavél 65.000 IKR. Vegna breytinga á gengi krónunnar kostar hún núna 105.000 IKR. Launin hækka ekki, þannig að við erum í raun að taka á okkur kjaraskerðingu. Auk þess hækka lán, bæði innlend og erlend.

Frakki borgar sama fyrir þvottavélina og áður, auk þess sem að flestur matur hefur staðið í stað eða lækkað örlíltið vegna lækkunar á hráefni. Afborganir hans á lánum hafa hinsvegar LÆKKAÐ verulega vegna lækkunar á vöxtum. Hann á meira eftir mánuðinn en áður, umtalsvert.

Hvor staðan er betri fyrir almenning? Þið getið reynt að hrekja þetta, en þetta er staðreynd.

Matti - 11/05/09 11:16 #

Hvor staðan er betri fyrir almenning? Þið getið reynt að hrekja þetta, en þetta er staðreynd.

Hvaða "þið"? :-/

Ég er einfaldlega skeptískur á að þetta sé töfralausn.

Ég geri mér grein fyrir því að ýmislegt hefur hækkað ansi mikið og vextir eru út í hött. En það er ekkert sem kemur í veg fyrir að við lækkum einfaldlega vexti. Íslendingar ráða því sjálfir (látum eins og AGS sé ekki til í augnablikinu).

Daníel - 11/05/09 11:32 #

Sorry, ekki þið, hinir.... ;)

VIð munum aldrei getað lækkað vexti nógu mikið, né í raun ráðið því í raun. Sjáiði bara lönd sem setja á gjaldeyrishöft, þetta er vítahringur. Venezúela reyndi þetta, átti að vera í stuttan tíma. Höftin eru enn á, 8 árum seinna, official gengið á BS er 2150 á USD, raungengið úti á götu er 7000 á USD. 4 stærsta olíuland í heimi þar sem íbúar eru í raun ekki mjög margir, 28 millur.

Þetta er það sem gerist vegna þess að eftirspurnin er alltaf meiri en framboðið þegar að þessu er stýrt. Gengi krónu gagnv Euro er um 170 innanlands, en yfir 200 erlendis. Það er líklegra réttara gengi, því að þar eru viðskipti með Euro og krónu frjáls.

Ég myndi glaður vilja borga 5% vexti, sem er það hæsta sem þeir gætu verið á Íslandi ef að við værum í EU.

VIð verðum að komast út úr þessu rugli. Vonandi er EU lausnin, hún er líklega erfið og alveg pottþétt engin töfralausn, en er einhver önnur lausn?

Sindri Guðjónsson - 11/05/09 12:36 #

Ég er mjög ánægður með að Gylfi og Ragna séu áfram. Hins vegar skil ég ekki ýmislegt. Get tekið undir það með Matta. Hvers vegna er Katrín Júl Iðnaðarráðherra? Hún hefur enga sérstaka reynslu eða menntun sem undirbýr hana fyrir þetta starf.

http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=660

Ég reiknað annars með að hún sé ráðherra út af einhverjum aldurs og kynjakvóta pælingum. Hún var valin á pólitískum en ekki faglegum forsendum, eins og ýmsir aðrir úr ráðherra hópnum.

Matti - 11/05/09 13:33 #

Ég gleymdi alveg Ögmundi heilbrigðisráðherra. Ég veit ekki hvað ég á að segja um Ögmund. Ég treysti honum til að vega ekki að grunnstoðum heilbrigðiskerfisins. Hann mun stöðva þessa glórulausu einkavæðingartilraun sem þar var hafin, þar sem verkefni voru einkavædd óháð því hvort það væri hagkvæmara fyrir ríkissjóð og þjónusta betri fyrir sjúklinga.

Aftur á móti virðist mér Ögmundur eiga erfitt með að skera niður. Ég er t.d. algjörlega ósammála honum i því að taka til baka ákvarðanir fyrirrennara hans varðandi spítalann í Hafnafirði og þjónustu á Selfossi.

Heilbrigðisráðherra þarf að taka óvinsælar ákvarðanir.

En svo treysti ég aðstoðarmanni hans afskaplega vel.

Erlendur - 11/05/09 15:53 #

Ég held reyndar að hann sé alveg fær um niðurskurð, hann fer bara aðrar leiðir, sbr. þetta hér. Hann fór líka um landið á allar heilbrigðisstofnanir til þess að gera slíkt hið sama alls staðar, þ.e. skera niður en byrja á því að spyrja starfsfólkið hvar væri gott að gera það.