Örvitinn

Vaxtabætur og meðaltal Borgarahreyfingar

Ég horfði á jómfrúarræðu Þórs Saari í beinni, nennti ekki að horfa á aðra enda þessar ræður yfirleitt viðbjóðslega leiðinlegar.

Í ræðu sinni nefndi Þór Saari vaxtabætur:

Og svo eru það vaxtabæturnar.

Hinar stórauknu vaxtabætur verða að meðaltali um 25 þúsund krónur á ári á hvert heimili, eða ríflega tvö þúsund krónur á mánuði. Jahá.

Þetta, er einfaldlega gagnslaust.

Þetta, er einfaldlega villandi. Vaxtabætur eru tekjutengdar og því er ekki rétt að tala um meðaltal á hvert heimili. Ég geri t.d. ekki ráð fyrir að mitt heimili fái nokkrar vaxtabætur í ár og það á við um fjölmörg önnur heimili á landinu.

Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

Annars hefur Borgarahreyfingin komið mér skemmtilega á óvart það sem af. Ekki bara vegna þess að 3/4 flokksins (allir nema framsóknarmaðurinn) skrópuðu í kirkju heldur vegna þess að þau virðast standa fyrir það sem þau lofuðu, meira/betra lýðræði. Þau verða samt að passa sig á að nota ekki villandi framsetningu í málflutningi sínum, láta aðra flokka um það.

pólitík
Athugasemdir

hildigunnur - 20/05/09 11:03 #

jamm, við fáum engar vaxtabætur og höfum ekki fengið í fjöldamörg ár. Sem betur fer er fullt af fólki sem skuldar ekki mikið í íbúðunum sínum og er þal. ekki að borga mikla vexti. Meðaltal á engan veginn við í þessu samhengi.

Matti - 20/05/09 11:27 #

Ég hefði eiginlega átt að segja að vaxtabætur eru bæði tekju- og skuldatengdar.