Örvitinn

Bústaðahelgi

Skelltum okkur í bústað um helgina ásamt matarklúbbnum.

Keyptum grill í Hagkaup í Borgarnesi á leiðinni uppeftir. Ágætis grill sem fékkst á góðu verði (10% afláttur vegna galla og 10.000 fyrir gamla grillið). Versluðum í matinn í Bónus. Föstudagskvöldið var ansi rólegt og fólk fór snemma í bælið.

Á laugardag hentum við strákarnir gamla grillinu (þurftum semsagt ekki að afhenda það til að fá afsláttinn) og kíktum í Borgarnes að versla.

Um kvöldið grillaði ég læri sem ég hafði troðið af hvítlauk, rósmarín og basiliku. Humar í forrétt og fullt af meðlæti.

Stelpurnar drukku helling af mojito, ég drakk helling af bjór. Spiluðum Liverpool og vorum langt fram á nótt í heita pottinum.

Að venju bjó ég svo til eggjaköku úr afgöngum í dag. Notaði um tuttugu egg beint úr eggjabúinu í Kjós, afganga af lærinu, pylsur, beikon, sveppi og fleira.

Á bakaleiðinni stoppuðum við á bóndabæ og keyptum nautakjöt beint af bóndanum. Meira um í annarri færslu.

Ég tók afskaplega fáar myndir.

dagbók
Athugasemdir

Sindri Guðjónsson - 25/05/09 11:21 #

Spiluðuð Liverpool?

Hljómar eins og algjör snilldar helgi annars.

Matti - 25/05/09 12:18 #

Liverpool er spilað með venjulegum spilum. Veit ekki af hverju það heitir Liverpool eða hvaðan það nafn kemur. Spilað með þremur bunkum. Markmiðið að ná þrennum og röðum í ýmsum útgáfum (tvær þrennur fyrst, þrjár raðir og ein þrenna í lokaumferð).

Haukur H. Þórsson - 25/05/09 18:44 #

Var einmitt að pæla í þessu líka .... hefur semsagt ekkert með Liverpool Football Club að gera, eða fótbolta almennt? :-)

Sindri Guðjónsson - 25/05/09 18:58 #

Mér datt í hug að spilað hefði verið pool, en þar sem leikendur væru stuðningsmenn Liverpool, hefði leikurinn verið nefndur í höfuðið á Liverpool FC.