Örvitinn

Veruleiki guðleysingjans

Ef Guð er ekki til þá er tilveran aðeins ein stór tilgangslaus tilviljun. Lífið er þá aðeins samsull efna og ferð án fyrirheita. Við lifum þá til þess eins að deyja í deyjandi alheimi. Ef Guði er varpað fyrir róða þá er gert út um eiginlegan tilgang með lífinu þegar allt kemur til alls. Við sviptum okkur og lífið sjálft gildi sínu. Ekkert í lífinu, hvorki gott né vont, hefur nokkurn hinsta tilgang þegar allt kemur til alls því það hefur alls engin áhrif á það sem óhjákvæmilega bíður allra. Þetta er sá veruleiki sem guðleysinginn situr uppi með og er fastur í. #

Hvað er hægt að segja um svona fólk? Gunnar Jóhannesson er ekki bara ríkiskirkjuprestur heldur er hann fræðimaður útskrifaður úr Háskóla Íslands með fimm ára nám að baki. Samt skrifar hann svona ótrúlega þvælu.

Svo erum það við guðleysingjarnir sem erum ítrekað úthrópaðir sem fordómapúkar af ríkiskirkjuprestum.

Ég finn til með fólki sem heldur að lífið sé tilgangslaust án trúar. Óskaplega á það bágt.

kristni
Athugasemdir

Teitur Atlason - 16/06/09 17:26 #

Sannarlega stór orð :)

"Við sviptum okkur og lífið sjálft gildi sínu"

...með því að trúa ekki á Ríkiskirkjuguðinn eða bara hvað guði sem er...

Steindór J. Erlingsson - 16/06/09 18:10 #

Það er ekki skrýtið að einstaklingar sem byggja allt líf sitt á "visku" Biblíunnar haldi slíku fram. Eins og sr. Svavar gerði um daginn, opinberar Gunnar hér fádæma fáfræði um manninn og eðli hans. Ég þyrfti að senda honum sama leslistann og ég lagði fyrir Svavar. Hvað ætli Gunnari finnist um Svíþjóð þar sem milli 70-80% þjóðarinnar eru "non-religious"?

Matti - 16/06/09 18:12 #

Ég hef rökstuddan grun um að séra Gunnar gerist skoðanalaus um leið og á hann er gengið. Hefur skoðanir svo lengi sem fólk lofar að láta þær ekki fara lengra.

Steindór J. Erlingsson - 16/06/09 18:24 #

Þó við og ýmsir aðrir vitum að þessi málflutningur Gunnars og annarra talsmanna ríkiskirkjunnar er argasta vitleysa er það sorgleg staðreynd að ef lýginn er endurtekinn nógu oft breytist hún í sannleika í hugum margra. Þetta hef ég áþreifanlega orðið var við í vetur og vor þegar ég hef gert fólki grein fyrir að sonur hyggðist ekki fermast þar sem hann tryði ekki á guð (hann varð 14 ára í maí). Ruglið sem sumir hafa látið út úr við þessa frétt er yfirgengilegt. Með þessum málflutning viðheldur Ríkiskirkjan fordómum margra gegn þeim sem ekki eru haldnir ranghugmyndum kristinnar trúar.

Kristján Hrannar - 16/06/09 19:38 #

Ég trúi því varla að þetta sé skrifað af manni sem fæddist eftir Upplýsinguna.

Sævar Helgi - 16/06/09 20:15 #

Aumingja maðurinn. Svona tómleiki hlýtur að vera ömurlegur. Hann á eftir að uppgötva hvað veröldin er stórkostleg. Tek undir með þér Matti, ég finn til með svona fólki.

Arnold - 16/06/09 20:36 #

Ég held samt að hver meðalgreind manneskja sjái hvað málflutningur Gunnars er aumur. Ég er þá ekki bara að tala um þessa grein heldur líka þær fjölmörgu sem frá honum hafa komið síðustu ár. Ég held að hann geri kirkjunni meira ógagn en gagn með skrifum sínum þ.e. ef nokkur les þetta annar en þeir sem fylgjast með trúmálaumræðunni. Fjöldinn hefur hreinleg engan áhuga á þessu blaðri.

Matti - 16/06/09 20:38 #

Af hverju haldið þið að ég sé alltaf að reyna að vekja athygli á þessum prestaskrifum ;-)

Arnold - 16/06/09 22:40 #

Ég held við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því hvað prestarnir segja í kirkjum, tru.is og fjölmiðlum. Held að það fari fyrir ofan garð og neðan hjá lang flestu fólki. Það stafar mest hætta af prestunum þar sem þeir komast í návígi við börn. Enda er mesti þunginn hjá kirkjunni í barnastarfinu. Þetta er alla vega mín skoðun í seinni tíð. Ég get haft rangt fyrir mér í þessu eins og oft áður.

hildigunnur - 16/06/09 23:37 #

æh, voðalega er þetta sorgleg heimsmynd!

GH - 17/06/09 00:52 #

Ég held að Íslendingar séu latir upp til hópa og að það sé ekki möguleiki að tæplega 90% þjóðarinnar aðhyllist kristna trú þótt þeir séu í þjóðkirkjunni. Hvernig var það um árið þegar krisnihátíðin var haldin. Mættu 100 manns eða voru þeir kannski færri? Ég veit að bílastæðaverðirnir á svæðinu léku sér í rólegheitum að því að skapa íslenska fánann með bílum, létu rauða bíla leggja þarna, bláa þarna osfrv. Viðbúnaðurinn var alla vega bráðfyndinn en búist var við þúsundum, jafnvel tugþúsundum. Ég skammast mín fyrir letina, að hafa ekki skráð mig enn úr þjóðkirkjunni en finnst svosem ekki mikið skárra að guðfræðideildin í HÍ fái peningana mína í stað kirkjunnar. Ætla samt að gera það af því að það er yfirlýsing. Arnold, sammála þér með presta og börn. Þúsundir foreldra eru sinnulausir og sætta sig við trúboð í skólum og leikskólum og senda þar að auki börn sín í trúarlegar sumarbúðir þar sem mikil trúarleg innræting fer fram.

Birgir Baldursson - 17/06/09 01:54 #

Guðfræðideildin fær ekki peningana þína þegar þú skráir þig utan trúfélaga. Kirkjan virðist hafa komið af stað þessum orðrómi svo fólk sjái ekki tilganginn við að skrá sig úr henni.

Eyja - 17/06/09 09:05 #

Tja, ég er nú alveg sammála þessu að hluta til. Ég fæ ekki séð hvernig er hægt að trúa því að líf okkar hafi einhvern æðri tilgang í einhverjum kosmískum skilningi án þess að trúa á einhverja veru sem ætlar sér eitthvað með okkur. Það er hins vegar rangt að það að líta á lífið sem tilgangslaust í þessum kosmíska skilningi þurfi að fela í sér einhverja neikvæða heimsmynd. Eins og fleiri hafa bent á erum við fullfær um að setja okkur sjálf ýmiss konar markmið sem mér sýnist nú flest okkar gera. Auk þess getum við litið svo á að við höfum einhvern tilgang í smærri skilningi. Eing og flestir foreldrar ungra barna lít ég t.d. svo á að líf mitt hafi m.a. þann tilgang að hlúa að börnunum mínum. Og það er alrangt að gefa sér að tilgangsleysi feli í sér eða leiði af sér gildisleysi, þetta tvennt er alls ekki það sama. Ef trúleysingjar upp til hópa litu á líf sitt sem gildislaust væru þeir fremjandi sjálfsmorð í unnvörpum. Ég er fullkomlega sátt við að líf mitt hafi engan "hinsta tilgang" en mér finnst það svo sannarlega hafa gildi og sé enga ástæðu til að blanda þessu saman. Litirnir í fallegu sólsetri hafa t.d. engan sérstakan tilgang en þeir hafa samt sem áður gildi meðan þeir gleðja augu okkar.

En sem sagt er ég alveg til í að taka undir það að lífið sé tilgangslaust ef einhver háfleygur skilningur er lagður í það hugtak.

Matti - 17/06/09 10:01 #

Alveg sammála Eyja. Ég efast um að presturinn sé bara að ræða um æðri tilgang. Í besta falli held ég að hann sé viljandi að hræra þessu saman.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 17/06/09 10:45 #

Já, Gunnar virðist vera að segja: Það er enginn æðri tilgangur með lífinu, og þar af leiðandi er allt ömurlegt.

Ég vildi vita hvað Gunnari fyndist ef það kæmni í ljós á morgun að geimverur hefðu búið til líf á jörðinni, í þeim einum tilgangi að borða okkur. Myndi hann segja: "Jibbí, loksins hef ég tilgang með lífinu, vinir og fjölskylda voru algerlega tilgangslaus, raunverulegur tilgangur minn er að vera étinn af geimveru."?

Þess má til gamans geta að Gunnar gæti ef til vill svarað þessum skrifum Matta í tölvupósti, en hann væri líklega algjörlega á móti því að birta svarið sitt.

Steindór J. Erlingsson - 17/06/09 12:07 #

Eyja þetta er góð ábending hjá þér. Vandamálið er að ummæli sem þessi leiða til þess að fólk álítur að þeir sem trúa ekki á guð álíti sitt eigið líf tilgagnslaust. Prestar gera ekki greinarmun á kosmískum tilgangi og tilgangi einstaklingsins, enda trúa þér að guði sé umhugað um hvert okkar. Þetta skýrir afhverju "skynsamt" fólk spyr mig stundum af hverju ég fari bara ekki út og drepi fólk fyrst líf mitt sé "tilgangslaust" og hvernig fari með "siðferðisvitund" sonar míns fyrst hann er ekki fermdur. Kosmískt tilgagnsleysi er því talið fela í sér persónulegt gildisleysi.

Óli Gneisti - 17/06/09 12:51 #

Ég hef, ólíkt sjónvarpinu mínu, engan fyrirfram gefinn tilgang.

Ásgeir - 17/06/09 23:41 #

Ég tek undir með Eyju en myndi vilja ganga lengra. Engin æðri tilgangur er mögulegur, því að ef eitthvað slíkt væri til, þá væri alltaf hægt að spyrja til hvers hann væri, og það myndi leiða til vítarunu.

-DJ- - 18/06/09 00:13 #

Jamm

Arnold - 19/06/09 11:30 #

Og ekki er opið fyrir athugasemdir við svargrein Gunnars á tru.is. Það er eins og kirkjufólkið reyni allt til að ekki fari skilvirk og gagnleg rökræða um þessi mál. Hvernig á að halda utan um þetta ef maður hefur áhuga. Hvar á Kristinn að svara grein Gunnars? Væntanlega á sínu bloggi. Þetta kallar maður að nota illa kosti netsins. Svona vinnur kirkjan með netið einfaldlega til að fram fari lítil og ómarkviss umræða. Eða eins og einhver sagði, kirkjan forðast það eins og heitan eld að ræða við fullorðið fólk um trúna. Kirkjan vill preidika og láta hlusta á sig. Lengra nær það ekki.

Gutti - 20/06/09 14:53 #

Eins og þið bentuð á þá er hann að rugla saman æðri tilgangi lífsins og tilgangi þess að lifa almennt. Mér hefur alltaf fundist þessi grundvallarspurning sem allir eru alltaf að spyrja kjánalega, meira að segja áður en ég gekk af trúnni. Ég held það sé enginn ákveðinn tilgangur með "Lífinu", markhyggja er bara bull í vísindum. Lífverur hafa ekki einu sinni þann tilgang að fjölga sér. Hvað gerði fólk ef það fengi allt í einu svar af himnum? Væri það ekki skrýtið og þrúgandi ef við hefðum öll einhvern einn ákveðinn tilgang?

Við búum bara til okkar eigin tilgang af því að okkur þykir vænt um sjálf okkur aðra. Valið er þitt. Er það ekki grundvöllur tilvistarstefnunar.