Örvitinn

Hrunið

Þegar allt fór til andskotans á Íslandi í byrjun október í fyrra vorum við hjónin stödd í London að bruðla með gjaldeyri. Við kveiktum stundum á Sky News meðan við sátum á hótelherberingu og sáum því að áhlaup yrði gert á bankana. Vissum að þetta væri búið. Við misstum af því þegar Geir bað Gvuð að blessa Ísland, komum heim á þriðjudeginum.

Hrunið, Ísland á bjarmi gjaldþrots og upplausnar fjallar um aðgraganda hruns, hrunið sjálft og búsáhaldabyltinguna.

Það er dálítið skrítið að lesa samantekt á svo nýliðnum atburðum. Mér finnst bókin ágætt yfirlit og eflaust verður nokkuð stuðst við hana síðar. Guðni styðst nokkuð vi ð bloggsíður og Facebook athugsemdir sem er fróðlegt en stundum dálítið furðulegt. Hvernig velur hann blogg og einstaklinga sem hann vitnar í? Kommentarar á Eyjunni og moggabloggarar fá t.d. furðumikið pláss, það hlýtur t.d. að teljast stórmerkilegt að sagnfræðingurinn telji tilefni til að vitna í Stefán Fr. til að lýsa ástandinu.

Mér fróðari menn segja að einn helsti galli bókarinnar sé að höfundur hafi í raun ekki nægilegan skilning á umfjöllunarefninu, þ.e.a.s. fjármála- og bankaheiminum. Ég veit ekkert um það. Aftur á móti finnst mér afskaplega forvitnilega að rifja upp þessa atburðarás og fá innsýn í hasarinn kringum hrun þegar menn voru að reyna að bjarga einhverju.

Þó verð ég að segja fyrirvara við það sem ég þó þekki. Ég var t.d. staddur við Alþingishúsið við þingsetningu 20. Janúar og mér finnst frásögn af aðgerðum lögreglu ekki í takt við það sem ég sá.

Kristján MöllerÁður en þessu er lýst segir Guðni frá því þegar þingfundur er að fara að hefjast:

„Þingmenn sáust halda úr skálanum til þingfundar. Kristján Möller samgönguráðherra ku hafa brosað til fólks...“

Það er ágætt að varast fullyrðingar en þegar myndir eru til af atburðum er allt í lagi að tala hreint út. Kristján Möller glotti til mótmælenda.

Svo segir Guðni frá aðdraganda þess að lögreglan beitti piparúða á mótmælendur fyrir aftan þinghúsið.

„Tvennt mun hafa valdið þessari útrás: Í garðinum hafði verið kveikt á einhvers konar reyksprengju svo appelsínugulan mökk lagði yfir. Meira máli skipti þó að mati lögreglu að glerveggur gangsins milli Skála og þinghúss myndi rofna, yrði ekkert að gert. Brestir voru þegar komnir í einhverjar rúður, ein brotnaði, og síðar um daginn gekk sú saga meðal sumra mótmælenda að lögregla hefði haft „grunsemdir um eða heimildir að einhver 50 manna hópur ætlaði sér að ryðjast inn í þinghúsið.“ “

Fullyrðingar um að lögreglan hafi beitt gasi vegna þess að hún hafi óttast að gluggar í tengibyggingu myndu brotna gengur einfaldlega ekki upp. Ég sá ekki nokkrar sprungnar eða brotnar rúður á tengibyggingu og engin merki eru um slíkt á myndunum sem ég tók gegnum þessar rúður sem menn áttu að vera hræddir um að færu að bresta. Áður en óeirðalögreglumenn mættu réðu almennu lögreglumennirnir við tengibygginguna ágætlega við hópinn. Varla var appelsínuguli reykurinn nægilegt tilefni til aðgerða? Þegar lögreglan byrjaði að sprauta óþverra voru mótmælendur komnir nokkuð langt frá tengibyggingunni.

Þetta er kannski ekki stórt atriði, en hvað með frásagnir af öðrum atburðum sem ég varð ekki vitni að? Hversu nákvæmar eru frásagnirnir og hve mikið er að marka heimildarmenn sem í sumum tilvikum eru bloggarar eða einhverjir sem skrifa athugasemdir á Eyjuna?

Það er afskaplega forvitnilegt að rifja upp aðdraganda Icesave samkomulagsins í ljósi umræðunnar þessa dagana. Hvernig við neyddumst í raun til að semja um Icesave þar sem engin þjóð stóð með okkur og aðkoma IMF var algjörlega háð slíkum samningi. Við gátum ekki annað en samið. Það var ekkert annað í stöðunni og í dag erum við einfaldlega að klára þann pakka. Því miður.

bækur
Athugasemdir

pallih - 07/07/09 00:09 #

Ha? Það lagði engan reyk yfir eitt né neitt af þessari reyksprengju. Hann hvarf á mínútu.

Matti - 07/07/09 00:16 #

Akkúrat. Þessi frásögn gengur engan vegin upp. Ég var að bæta við vísun á mynd af "mekkinum".

hildigunnur - 07/07/09 10:47 #

Heyrði einn í gær lýsa því yfir að í hvert sinn sem hann gerðist bjartsýnn um framtíð mannkyns slægi hann á það með því að skoða komment á Eyjunni...