Örvitinn

Byssur, sýklar og stál

Það er ansi langt síðan ég las megnið af Guns, germs and steel eftir Jared Diamon en ég kláraði hana í gær, las síðasta kaflann, lokaorðin og viðbótarkaflann.

Bókin fjallar um það af hvernig samfélög hafa þróast með mismunandi hætti á heimsálfunum síðustu þrettán þúsund ár. Af hverju silgdu Evrópubúar til Ameríku og tóku yfir álfuna en ekki öfugt?

Helsta niðurstaða bókarinnar er að megin orsakavaldurinn sé umhverfið, ekki mismunur á eiginleikum kynþáttanna. Hvítu mennirnir voru ekkert betri en frumbyggjar Ameríku, þeir voru bara heppilega staðsettir. Tja, þetta er kannski ekki alveg svo einfalt en þetta er þó grunnurinn.

Forsendur fyrir því að samfélög byrjuðu að þróast "betur" var að hægt væri að afla meiri matar en fólk þurfti frá degi til dags. Með akuryrkju voru komnar forsendur fyrir því að mynda fjölmennari samfélög þar sem stór hluti vann við annað en að afla matar. Evrópa og asía (evrasía) hefur miklu betri forsendur til akuryrkju en önnur svæði heimsins, á þessum svæðum var veðurfar heppilegra og matjurtir í meira mæli en á öðrum svæðum.

Húsdýr skipta líka mjög miklu máli. Þau voru forsenda þess að menn gátu ræktað mat á sumum svæðum, bæði með því að draga plóginn og veittu áburð. Þéttbýli ásamt nálægt við húsdýr olli því svo að sýklar bárust úr dýrum í menn og fólk á þessum svæðum myndaði ónæmi fyrir þeim (það sem drapst ekki strax). Þessir sýklar voru svo hættulegasta „vopn“ Evrópubúa og drápu miklu fleiri heldur en vopnin.

Það er svo afar fróðlegt að bera saman Kína og Evrópu. Kína stóð Evrópu svo miklu framar að það er eiginlega hlægilegt. Á fyrri hluta fimmtándu aldar sendu Kínverjar marga flota sem hver samanstóð af hundruðum skipa, sem hvert var meira en hundrað metrar á lengd, með samtals á þriðja tug þúsunda manna í áhöfn, þvert yfir Indlandshaf allt að austurströnd Afríku. Þetta var áratugum áður en Kólumbus fór með þrjú skip yfir Atlantshafið og „fann“ Ameríku. Það er í raun magnað að hugsa út í þetta. Svo hættu Kínverjarnir bara siglingum og lögðu niður flotana í einhverju rugli. Fróðlegar kenningar um það í bókinni.

Þetta er semsagt afskaplega fróðleg bók þar sem fram koma margar áhugaverðar (sumar umdeildar) kenningar.

bækur
Athugasemdir

Sverrir - 07/07/09 11:34 #

Bækur Jareds Diamonds eru góðra gjalda verðar en kenningin um að Kínverjar hafi „misst af lestinni“ á 15. öld er pínulítið úrelt og hæpin, aðallega vegna nauðhyggjunnar sem felst í henni.

Flestir fræðimenn eru sammála um að mörgum öldum siðar, eða um 1800, hafi Kína enn verið ríkasta hagkerfi heimsins. Þá hófst iðnbyltingin í Evrópu og þá drógust Kínverjar aftur úr en það var þó ekki óhjákvæmilegt. Japan var t.d. miklu lokaðra og einangraðra samfélag sem samt náði á mjög skjótum tíma að iðnvæðast.

Orsakir þess að Kínverjar drógust aftur úr Evrópu á 19. öld eru eflaust margar en mér finnst hæpið að kenna um einni ákvörðun á 15. öld sem langur tími gafst til að snúa við.

Annað sjónarmið er t.d. að það hafi ekki borgað sig fyrir Kínverja að stunda millilandasiglingar á 16. öld. Þeir höfðu það mikið forskot í framleiðslu að fjármagn leitaði á endanum þangað, t.d. silfrið frá Ameríku. Þannig hafi forskot Kínverja gert þá værukæra - sem skýrir kannski hvers vegna forystuþjóðir missa eiginlega alltaf forystuna á endanum.

Matti - 07/07/09 13:10 #

Enda passaði ég mig á að nefna að kenningarnar eru sumar umdeildar :-)

Í bókinni er semsagt talað um að þar sem Kína hafi verið undir einni stjórn hafi fáir aðilar geta tekið ákvarðanir (eins og þá að leggja niður siglingar) sem hafi haft áhrif á allt svæðið. Á meðan Evrópa var sundurleitt svæði þar sem enginn einn gat tekið jafn drastíska ákvörðun. En þó Evrópa væri sundurleit dreifðust hugmyndir hratt á milli landa.

Þannig hafi Kólumbus getað gengið milli þjóðarleiðtoga þar til hann fann einhvern sem var til í að kosta för hans.

Í bókinni er þessi hugmynd svo tekin áfram, m.a. í viðbóka, og tengd við stærð fyrirtækja og eininga. Það er reyndar einnig nefnt að þessi samkeppni milli eininga þurfi ekki endilega að vera jákvæð. Þarna er þetta reyndar orðið ansi froðukennt :-)

Stefán Pálsson - 07/07/09 13:16 #

Jamm, aðalvandinn í viðskiptum Evrópubúa við Kína var langt fram eftir öldum að þótt Kínverjar ættu fullt af vörum sem Evrópubúar ágrintust, þá var það samband ekki gagnkvæmt.

Þess vegna er ekkert skrítið við það að Kínverjar hafi lítt hirt um að sinna sjálfir millilandaverslun til vesturs.

Menningar- og efnahagslegu skýringarnar virðast því rökréttari hér en landafræðiútskýringar Jared Diamonds.

Sýklaskýring Diamonds er ágæt þegar kemur að því að útskýra skjóta landvinninga Evrópumanna í Ameríku - en sem söguleg löggengiskenning hefur hún sína galla. Samkvæmt henni hefðu íbúar hinnar strjálbýlu Norður- og Vestur-Evrópu varla átt að eiga séns í liðið frá pestarbælunum við austanvert Miðjarðarhaf. Gleymum því ekki að farsóttir eru velflestar upprunnar í Asíu en ekki í Evrópu.Hefðu Asíubúarnir þá ekki átt að verða voldugastir með sýklana sína að vopni?

Bragi Skaftason - 08/07/09 09:22 #

"Evrópa og asía (evrasía) hefur miklu betri forsendur til akuryrkju en önnur svæði heimsins, á þessum svæðum var veðurfar heppilegra og matjurtir í meira mæli en á öðrum svæðum."

Þessi fullyrðing er einnig í meira lagi vafasöm þar sem nokkur búsældarlegustu svæði heimsins finnast í Norður Ameríku og Suður Ameríku. Ágætis dæmi um forsendu sem fólk hefur ekki ástæðu til að setja spurningamerki við án þes að hafa þekkingu á málefninu.

Matti - 08/07/09 12:14 #

Lykilatriðið er matjurtir og landlega. Þær voru ekki til staðar í sama magni á þeim svæðum. Þetta kemur allt fram í bókinni.

Það er miklu stærra svæði á evrasíu flekanum sem hentar til akuryrkju heldur en á ameríku flekanum, enda liggur hann frá norður til suðurs og því minna svæði sem er á "réttum" breiddargráðum.

Þarna koma húsdýrin svo sterk inn. Þau voru ekki til staðar í ameríku og fólk þurfti því að vinna jarðveginn með höndunum.