Örvitinn

Veitingastaðurinn Kitchen

fiskrétturinnFjölskyldan heimsótti Nepalska veitingastaðinn Kitchen þarsíðasta föstudag. Ég ætlaði að vera löngu búinn að segja frá því en trassaði það. Hér kemur því knappa útgáfan.

Í stuttu máli, þá fengum við fínan mat og góða þjónustu. Þar sem stelpurnar voru með pöntuðum við frekar milda rétti, Saag kjúklingur með spínati er eftirminnilegastur, fengum einn sterkan fiskrétt handa mér og Áróru. Hann var afskaplega góður.

Okkur þótti verðlag í hærra lagi, full nálægt því sem við eigum að venjast frá Austur Indíafélaginu. Fyrir þrjár forrétti, fjóra aðalrétti, meðlæti, gos og tvö hvítvínsglös borguðum við um tuttugu þúsund fyrir okkur fimm. Sátum niðri þar sem vel fór um okkur þar til hópur ungra manna í djammstuði mætti á svæðið og hafði frekar hátt. Við vorum þá að klára að borða og flúðum út. Gallinn við það að fara á veitingastað á föstudagskvöldi.

Nan brauðEinhver bullukollur hélt því fram að nan brauðið á Kitchen hefði verið djúpsteikt! Það var þá eitthvað allt annað en það sem við fengum. Pöntuðum tvær tegundir af nan brauði, annars vegar hvítlauks og hinsvegar fyllt. Bæði mjög góð en ekki alveg jafn góð og þau hjá Austur Indía. Nan brauð er vissulega eldað "þurrt" en yfirleitt er sett vel af smjöri á það áður en það er borið fram. A.m.k. pensla ég nan brauð alltaf með smjöri þegar ég grilla þau og á Austurlandahraðlestinni er brauðinu bókstaflega drekkt í smjöri enda er það ógeðslega gott.

Hrísgrjón þarf að panta sérstaklega. Það finnst mér óþarfa kjánaskapur, venjuleg hrísgrjón eiga að fylgja aðalréttum.

Við vorum a.m.k. nógu ánægð til að ákveða að kíkja aftur tvö hjónin.

ps. Ég vissi ekki að þessi staður væri til fyrr en Stefán Pálsson bloggaði um hann.

veitingahús
Athugasemdir

Einar Jón - 15/07/09 10:09 #

Þeir eru greinilega bara að fylgja sínum venjum. Ég hef búið á Indlandi í um ár, og á öllum veitingastöðum þar þarf að panta hrísgrjónin sér - meira að segja kínversku stöðunum.

En auðvitað mætti laga þetta að aðstæðum í hverju landi fyrir sig...

Óli Gneisti - 15/07/09 12:44 #

Þú lest bloggið mitt greinilega ekki nógu vel.

Matti - 15/07/09 14:59 #

Ég var bara búinn að gleyma því. Auk þess finnst mér að umfjöllun þín mætti vera örlítið ítarlegri :-)