Örvitinn

Stuðningsmenn Vefþjóðviljans

Vefþjóðviljinn reynir að telja okkur trú um að þau geti keypt rándýra skoðanakönnun frá Gallup og opnuauglýsingar í blöðum vegna þess að þau hafi fjölmarga stuðningsmenn.

Það er ekki útilokað.

Sennilegra þykir mér að hér sé það sama að gerast og í Bandaríkjunum þar sem repúblikanar reka áróður sinn í gegnum grasrótarsamtök sem fá fjárhagsstuðning frá fjársterkum aðilum. Þannig er baráttan gegn breytingum á heilbrigðistryggingakerfinu í Bandaríkjunum kostuð af tryggingafyrirtækjum en reynt að láta líta út fyrir að um mörg lítil félög sé að ræða. Þegar þráðurinn er rakinn endar dæmið alltaf hjá stóru aðilunum. Hér fjallar Rachel Maddow um þess taktík.

Það lítur nefnilega miklu betur út ef mótmælin koma frá grasrótinni en ekki flokknum eða fyrirtækjunum.

Næsta verk fjölmiðlamanna ætti því að vera að rekja peningana. Hverjir borga áróðursherferð Vefþjóðviljans?

Það er ekki útilokað að Vefþjóðviljinni hafi fjölmarga stuðningsmenn sem láta þá fá smá pening en hitt er sennilegra að mínu mati. Pólitík Sjálfstæðismanna hefur undanfarið fengið furðulega mikið að láni frá Bandaríkjunum og svo virðist sem Fox sjónvarpsstöðin sé í miklu uppáhaldi hjá þeim.

En Vefþjóðviljamenn geta að sjálfsögðu opnað bókhald sitt og sýnt hvernig þeir fjármagna þetta. Ég efast um að það gerist.

pólitík
Athugasemdir

Matti - 09/08/09 18:51 #

Samkvæmt mínum heimildum er kostnaður við birtingu auglýsingar, gerð hennar og framkvæmd skoðanakönnunar varlega áætlað að minnsta kosti hálf milljón.

Haukur - 10/08/09 16:13 #

Æ, hvað getur maður sagt um Vefþjóðviljann? Oft kemur hann með svo ágæta punkta og sjónarmið sem er gott að heyrist en fáir aðrir eru fulltrúar fyrir. Og mér finnst meira að segja fínt hjá honum að gera þessar skoðanakannanir núna síðast. En svo er hann svo hræðilega geðklofa í því hvort hann aðhyllist frjálslynda frjálshyggju eða kristna íhaldspólitík á bandaríska vísu að maður verður snarringlaður af að lesa hann.

Í dag birtir hann til dæmis pistil með ágætis-punkti, eitthvað á þessa leið: Eftir hryðjuverkaárásirnar 2001 urðu BNA-menn svo æstir að þeir misstu sjónar á mikilvægum mannréttindum og grundvelli réttarríkisins, við ættum að gæta þess að láta ekki okkar krísu draga okkur sömu leið. Menn geta verið sammála eða ósammála þessu en þetta er ágætis-pæling sem ég hef ekki séð annars staðar.

Hins vegar er Vefþjóðviljinn fráleitasti miðill í heimi til að koma með þennan punkt því að árum saman varði hann Bush-stjórnina og gjörðir hennar gegnum þykkt og þunnt, þar með talið innrásina í Írak. Jafnvel núna í þessum pistli í dag getur hann ekki almennilega fengið sig til að viðurkenna að Bush-stjórnin hafi gert eitthvað af sér í þessum málum en segir að þessu "hafi verið haldið fram" og hefur þetta allt meira og minna í viðtengingarhætti.

Ef þeir hefðu haft rænu á að gagnrýna offarir bandarísku hægristjórnarinnar á sínum tíma væru þeir núna í miklu trúverðugri stöðu til að gagnrýna íslensku vinstristjórnina og mögulegar offarir hennar.

Matti - 10/08/09 16:42 #

Og mér finnst meira að segja fínt hjá honum að gera þessar skoðanakannanir núna síðast.

Ég geri enga athugasemd við það, öfunda þá af því að hafa efni á þessu. Ég set bara spurningamerki við að þeir geti þetta vegna þess að fjölmargir hafi styrkt þá.

Við í Vantrú værum alveg til í að gera könnun á trúarviðhorfum þjóðarinnar og kaupa svo heilsíðu í Morgunblaðinu til að hvetja fólk til að skrá sig úr ríkiskirkjunni.

En við getum bara látið okkur dreyma um slíkt :-) Því miður eru engir fjársterkir aðilar sem hafa mikinn hag af okkar starfi.

Haukur - 10/08/09 16:59 #

Jamm, ég veit ekkert hvernig þetta er fjármagnað hjá þeim, sjálfsagt eru einhverjir stórir bitar í því. Sjálfur hef ég reyndar einu sinni eða tvisvar keypt einhverjar skræður af þeim svo að kannski ég sé einn af þessum "fjölmörgu stuðningsmönnum" :-)