Örvitinn

McDonalds fer

Ég mun svosem ekki sakna McDonalds mikið en það hlakkar ekkert í mér yfir því að staðurinn hætti á Íslandi. Ég gat valið að sleppa því að versla við þá og gerði það. Dætur mínar voru aftur á móti hrifnar af staðnum, aðallega heilluðu barnaboxin og dótadraslið en þær borðuðu líka alltaf borgarana og brimsöltu frönsku kartöflurnar.

Þessi þörf stelpnanna er náttúrulega tilbúin, McDonalds hefur beint auglýsingum töluvert að börnum. Yfirleitt greip ég einhvern annan skyndibita handa okkur hjónum þegar stelpurnar fengu McDonalds. Það truflar mig ósköp lítið þó annað fólk borði eitthvað sem mér finnst ekki spennandi og staðurinn hefur ekki beint þvælst fyrir mér - það eru ágætis hamborgarar í boði á öðrum stöðum.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því að allt hráefni væri innflutt enda var töluvert fjallað um það á sínum tíma að McDonalds hefði vottað innlenda framleiðendur. Í athugasemd hjá Stefáni Páls bendir Kristinn á að kjötið hafi lengi vel verið innflutt framleitt hér á landi en svo hafi þurft að flytja það inn "tímabundið". Ætli þetta hafi ekki einfaldlega verið miklu hagstæðara þegar krónan var mjög sterk. Auðvitað er eitthvað fáránlegt við að flytja inn niðurskorinn lauk og borga morðfjár fyrir þegar laukur er enn tiltölulega ódýrt hráefni.

Það er einnig ágætur punktur sem Gunnar G. bendir á í athugasemd hjá Stefáni, McDonalds hefur aldrei verið sérlega ódýr staður hér á landi.

matur
Athugasemdir

Arnar - 27/10/09 15:38 #

".. að kjötið hafi lengi vel verið innflutt en svo hafði þurft að flytja það inn.."

Á þetta ekki að vera :

".. að kjötið hafi lengi vel verið innlent en svo hafi þurft að flytja það inn.."

Matti - 27/10/09 15:40 #

Þykist þú vera prófarkalesarinn minn ;-)

Arnar - 27/10/09 16:03 #

Sorry, ómeðvituð eftirköst þess að hafa aldrei fengið einkun í stafsetningu/málfræði í framhaldsskóla.. og að vera giftur MR-ingi.

Kenni samt Guðrúnu Eigils algerlega um, það kemur betur út fyrir hjónabandið mitt..

Prófarkalesari götunnar - 27/10/09 16:41 #

".. hafa aldrei fengið einkun.."

Þetta á að vera:

".. hafa aldrei fengið einkunn.."

".. samt Guðrúnu Eigils algerlega .."

Þetta á að vera:

".. samt Guðrúnu Egils algerlega .."

Arnar - 27/10/09 16:47 #

Yeah yeah rub it in.

Sagði aldrei að stafsetningin hefði eitthvað skánað hjá mér á síðustu 15 árum :)

En, fyrra i-ið í Eigils var reyndar innsláttarvilla..

Matti - 27/10/09 17:05 #

Já þið segið það. McDonalds er samt að loka á Íslandi - hvað segið þið um það?

Ekki það að nokkur þurfi að segja nokkuð um það.

Bragi Skaftason - 27/10/09 18:32 #

Ég hef lítið um það að segja nema að ég gleðst yfir þessum 10-15 störfum sem skapast vegna þessarrar nafnabreytingar. Dettur mönnum aðrar nafnabreytingar í hug sem skapa störf?

Sævar Helgi - 27/10/09 20:09 #

Ha? Skapast störf af öðru en álverum á Íslandi?

Annars er mér slétt sama þótt McDonalds hverfi.

Arnar - 28/10/09 09:38 #

Ef það væri ekki búið að blása þetta upp sem eitthvað svaka mál í fréttum og 'bloggheimum' þá hefði ég sennilega ekki tekið eftir þessu.

Nema kannski eftir nokkur ár að ég myndi hugsa; vá hvað það er langt síðan krakkarnir hafa sníkt McDonalds..

Matti - 28/10/09 09:42 #

Dettur mönnum aðrar nafnabreytingar í hug sem skapa störf?

Allar nafnabreytingarnar á bönkunum sköpuðu ótal störf hjá auglýsingastofum, almannatengslaráðgjöfum og við skiltagerð :-)

Björn Friðgeir - 28/10/09 10:00 #

Hef ekki farið á MickeyD í mörg ár (nema einusinni í 5 tíma bið á flugvelli): http://www.mcspotlight.org/issues/

Þannig það verður fínt að fara í bílalúguna á Metró niðri í Fenjum skammt frá heimilinu og fá íslenskan borgara án þess að styðja McD, svona þegar maður nennir ekki að bíða eftir betri borgurum annars staðar.