Örvitinn

Prestar, auglýsingamennska og drambsöm flón

Hnakkus - JesúsHnakkus er oft afskaplega skemmtilegur.

"LoL...setjum á þau kynfæri sem er ýkt stuð að juða við önnur kynfæri, og kveikjum svo í þeim ef þau fatta ekki að fara til hempuklædds embættismanns og fá ríkisvottun á juðið fyrst...lololol. Hey, og látum embættismennina allavega fá hálfa milljón á mánuði af skattfé, k"

Þessu vilja prestar að þú trúir, en hafa á sama tíma þungar áhyggjur af ónákvæmum myndum í auglýsingum fyrir krem sem einhverjir vitleysingar halda að geti snúið við öldrun húðarinnar?




Reynir skrifa fína grein á Vantrú og bregst við enn einum prestinum sem drullar yfir trúleysingja (svo væla þeir þegar þeim er svarað).

Birgir má trúa því mín vegna að Jesús sé opinberun Guðs. Vissulega er margt ágætt haft eftir þeim manni þótt maður ég búist við einhverju meira af opinberun Guðs, satt best að segja. En er ekki fulldjúpt í árina tekið hjá þessum opinbera starfsmanni í sínu opinbera starfi á þessum opinbera vettvangi að fullyrða að þeir sem trúi þessu ekki séu flón? Ber sú afstaða ekki vott um hofmóð og drambsemi prestsins, sem veit svona miklu betur en við hin?

Hins vegar er sú fullyrðing hans að trúlausir haldi að naflinn á þeim sjálfum sé skráargat himinsins svo arfavitlaus að engu tali tekur. Hvaðan hefur sérann þessa visku sína? Trúlausir eru ekki líklegir til að trúa á tilvist himinsins, í skilningi prestsins. Miklu líklegra er að þeir viti sem er að í víðáttum alheimsins er hvert og eitt okkar varla meira en afskaplega ómerkileg rykarða þegar á heildina er litið. Sú afstaða er allt annað en hofmóður, drambsemi og eigingirni.

Öllu nær væri að telja þá afstöðu prestsins að halda að hann hafi höndlað endanlegan sannleika lífs og dauða og að hann sé í persónulegu sambandi við skapara himins og jarðar, meira að segja launaður fulltrúi hans hér á jörðu, órækt vitni um hofmóð, drambsemi og eigingirni.

kristni vísanir
Athugasemdir

Einar K. - 18/11/09 10:31 #

Reynir er alltaf jafn yndislega beittur. Frábær grein hjá honum.

Steindór J. Erlingsson - 18/11/09 17:46 #

Ég sendi Birgi þessi skilaboð í Fréttablaðinu 21. desember 2006. Greinin birtist á ritstjórnasíðu blaðsins:

Í byrjun desember stofnuðu þrettán trúfélög hér á landi Samráðsvettvang trúfélaga, en markmið hans er samkvæmt fréttum „að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi“. Þjóðkirkjan er eitt þeirra trúfélaga sem aðild eiga að samráðsvettvanginum. Þátttaka hennar í þessum félagsskap fór hins vegar ekki vel af stað því nokkrum dögum eftir stofnun hans birtist á vef Þjóðkirkjunnar prédikun eftir sr. Birgi Ásgeirsson þar sem því er haldið fram að þeir sem hafna meintri tilvist Guðs kristinna manna séu „hluttakendur heimskunnar“.

Á einum stað í prédikuninni segir að mesta „hættan [sé] fólgin í afneituninni. Afneitun staðreynda. Afneitun Guðs. Afneitun þess að maðurinn er hluti sköpunarinnar. Afneitun þess að við erum Guðs börn og þurfum á því að halda að eiga samfélag við hann“. Hættan sem stafar af því að afneita Guði virðist samkvæmt sr. Birgi vera hnignun menningarinnar, en merki hennar „kemur helst fram, þegar við reynum að sníða trúna að eigin sjálfhverfu, duttlungum og hroka. En þannig verðum við einmitt hluttakendur heimskunnar. Heimskinginn segir: enginn Guð“.

Greinilegt er af samhengi sr. Birgis að þessum gagnrýnu ummælum er beint til trúleysingja og varpa þau sem slík skírara ljósi á hann sjálfan en þá sem hann gagnrýnir. Í sjálfhverfu sinni, svo við styðjumst við orðalag sr. Birgis, virðist hann hins vegar gleyma því að það eru ekki bara trúleysingjar sem hafna meintri tilvist Guðs kristinna manna, því allir þeir sem ekki játa kristna trú eru trúlausir gagnvart hinum kristna Guði. Samkvæmt skilgreiningu sr. Birgis eru því vel á fimmta milljarða jarðabúa, þ.e. allir þeir sem ekki játa kristna trú, heimskingjar. Þar sem þessi prédikun birtist á opinberum vef Þjóðkirkjunnar, www.tru.is, hlýtur málflutningur sr. Birgis að njóta stuðnings innan vébanda hennar. Ef sú er raunin ættu Baháísamfélagið, Félag Múslima á Íslandi, Ásatrúarfélagið, Búddistafélagið og önnur félög sem taka þátt í Samráðsvettvangi trúfélaga að vara sig á því að innan Þjóðkirkjunnar eru áhrifamiklir einstaklingar sem álíta meðlimi þessara félaga heimskingja.



hildigunnur - 18/11/09 20:27 #

Ég var í þessari messu þar sem Birgir var að prédika, (sonur minn var að syngja, hann er í Drengjakór Reykjavíkur, yngri dóttirin er í fermingarfræðslu (já já ég veit - peer pressure rokkar, right?) Alltaf gaman að láta kalla sig egóista og einblínandi á naflann á sér...

Matti - 18/11/09 21:58 #

Eins og ég hef alltaf sagt, þá fermast börn ekki útaf gjöfunum heldur vegna þess að þau fylgja hópnum. Það gerði ég.

Tókstu eftir þessu þegar Birgir prédikaði? Langaði þig ekkert að andmæla? :-)

hildigunnur - 19/11/09 19:39 #

Jámm, ég tók eftir því og jú langaði til þess. Gerði það nú samt ekki en úff hvað ég hristi ekki hramminn á prestsa eftir messu. Fór í hrikalega vont skap yfir þessu.

Ég var búin að lofa Freyju minni að gjafirnar yrðu ekkert færri þó hún færi í borgaralega fermingu þannig að já það passar. Hún er löngu búin að gefa út að hún sé ekki trúuð...