Örvitinn

Helgarskýrsla - hagamýs, piparkökur og laufabrauð

Við skelltum okkur í bústaðinn á föstudag. Vorum eiginlega hætt við að fara en hættum svo við að hætta! Það er kostur að geta brunað í bústað með litlum fyrirvara, þurfum ekki að taka mikið með okkur og verslum á leiðinni. Versluðum reyndar óskaplega mikið í Hagkaup í þetta skiptið, a.m.k. borguðum við ógurlega mikið.

Hagamýs

Þegar við komum í bústað um átta sáum við að hagamýs hafa gert sig heimkomnar undanfarið, ómögulegt að segja hve lengi en bústaðurinn hefur ekki verið í notkun síðustu tvo mánuði. Það var semsagt músaskýtur úti um allt eldhús og víðar.

Sem betur fer höfðu þær ekki komist inn í herbergin. Skápar og skúffur er einnig vel lokuð þannig að mýsnar komust ekki í dag. Þær höfðu þau dundað sér við að naga ýmislegt, t.d. gólfmottur og vaxliti.

Við byrjuðum því á að þrífa og henda. Kíktum undir allt með vasaljósi og að lokum fann ég eina vesæla mús undir ísskáp.

Ég skaust í Borgarnes og keypti músagildrur. Fjórar gamaldags og eina til að fanga mýs lifandi, plastprófíl með horni og loki - æi, útskýri þetta betur síðar! Skellti súkkulaðimolum á gildrur og dreifði þeim í eldhúsinu. Seinna um kvöldið fangaði ég músina og veitti frelsi utandyra. Þegar við fórum í dag dreifði ég gildrunum í eldhúsinu og færði myndavélina/skynjarann þannig að ég hafi útsýni yfir eldhúsið. Tróð einnig dagblöðum í allar hugsanlegar rifur til að reyna að koma í veg fyrir að mýsnar komist aftur inn. Veit ekki hve vel það dugar en væntanlega fáum við góða vísbendingu um hvar þær koma inn ef þetta dugar ekki.

Piparkökur

PiparkökurÍ gær dunduðu stelpurnar sér við að baka og mála piparkökur. Við skelltum okkur svo í bæjarferð í Borgarnes, ég til að glápa á fótbolta en stelpurnar til að versla og skella sér á kaffihús. Unglingurinn var einn eftir í bústað til að læra fyrir latínupróf. Það var lokað á Dússabar og Vinabar er sjaldan opinn, ég endaði því á bensínstöð Skeljungs þar sem ég sat einn, sötraði bjór og glápti á leikinn. Hann var ekkert sérlega skemmtilegur en bjórinn var ágætur.

Laufabrauð

Komum til höfuðborgarinnar klukkan tvö í dag, brunuðum beint í Hafnarfjörð til að skera laufabrauð hjá foreldrum mínum. Unglinurinn varð eftir í Bakkaselinu að stúdera latínuna en við Tjarnargötu voru 120 kökur skornar og steiktar. Meira að segja ég tók til hendinni og skar heilar þrjár kökur. Hér er Greipur bílasjúklingur með laufabrauð sem Ásmundur pabbi hans skar út.

Greipur með laufabrauð

Ég hafði ætlaði mér að taka norðurljósamyndir um helgina en sá lítið til himins, það var alskýjað aðfararnótt laugardags og hálfskýjað í gærkvöldi.

Piparkökumyndir og laufabrauðsmyndir.

dagbók
Athugasemdir

Freyr - 07/12/09 09:50 #

Mýsnar naga sig í gegnum dagblöð án vandræða. Stálull er málið.

Matti - 07/12/09 09:56 #

Ég á ekki von á öðru en að þær komist í gegn - en ég mun þá vonandi sjá hvar þær koma inn. Vona bara að þær sem stelast inn endi í gildrunum.