Örvitinn

Skemmdarvargurinn Jesús

Jesús ber mikla virðingu fyrir umhverfinu. Það segja sumir kristnir að minnsta kosti. Í Matt 21 sinnast Jesús við plöntu!

Fíkjutré við veginn

Árla morguns hélt Jesús aftur til borgarinnar og kenndi hungurs. Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: „Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu.“ Og fíkjutréð visnaði þegar í stað. Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: „Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?“ Jesús svaraði þeim: „Sannlega segi ég ykkur: Ef þið eigið trú og efist ekki getið þið ekki aðeins gert slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þið gætuð enda sagt við fjall þetta: Lyft þér upp og steyp þér í hafið, og svo mundi fara. Ef þið trúið munuð þið öðlast allt sem þið biðjið.“

Hvað í andskotanum? Af hverju í ósköpunum eyðilagði Jesús þetta fíkjutré? Er þetta ekki svipað og að brjóta rúðu í sjoppu vegna þess að hún er lokuð?

En eldri frásögnin í Markús, 11. kafla er jafnvel furðulegri því þar kemur fram að það var ekki fíknatíð - það átti ekki að vera neinn ávöxtur á fíkjutrénu!

Ekkert nema blöð

Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi Jesús hungurs. Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því fann hann ekkert nema blöð enda var ekki fíknatíð. Jesús sagði þá við tréð: „Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!“ Þetta heyrðu lærisveinar hans.

Maðurinn hefur verið sturlaður.

Jesús
Athugasemdir

Einar - 20/12/09 19:51 #

"Jesús ber mikla virðingu fyrir umhverfinu. Það segja sumir kristnir að minnsta kosti."

Strawman much?

Matti - 20/12/09 21:28 #

Hefur umræðan um kirkjuna og umhverfisvernd alveg farið framhjá þér? Er ekki verið að fara (eða er búið) að hringja öllum kirkjuklukkum landsins til að minna á umhverfið? En hvað með fjárans fíkjutréð?

ps. Nei, þetta er ekki strámaður því þetta er ekki upphaf að neinni röksemdarfærslu. Ég er ekki að skjóta niður umhverfisrök kirkjunnar - ég er bara að benda á hvað Jesús Biblíunnar er mikill skíthæll. Ég sakna þess óskaplega að enginn verji Jesús í athugasemdum. Það eina sem fólk getur komið með er þras um bókstarfstúlkun.

Einar - 20/12/09 22:07 #

Hún hefur reyndar farið algjörlega fram hjá mér, já, ég bý ekki á Íslandi. Það má vel vera að kirkjan hafi komið nálægt umhverfisvernd, en hafa þeir sérstaklega verið að halda því fram að Jesús hafi verið umhverfisverndarsinni?

Ég hef annars engan áhuga á að verja Jesús biblíunnar, biblían er bara gömul bók skrifuð af mönnum sem ég trúi ekki á frekar en aðrar gamlar bækur. Ef maður ætlar að trúa á gamla bók ætti maður a.m.k. að velja góða bók, Moby Dick t.d. :)

Mér fannst þessi opnunarmálsgrein bara frekar, umm, slöpp. Soldið eins og að segja "Það ætti að banna litlu jólin. Það segja sumir vantrúarsinnar að minnsta kosti". Hverjir? Það er auðvelt að segja "X, það segja sumir í hópi Y a.m.k." og erfitt að afsanna.

Matti - 20/12/09 22:11 #

Þér til fróðleiks, þá hefur kirkjan dálítið verið að tala um umhverfismál. Þér til fróðleiks þá er afar vinsælt hjá fólki að upphefja Jesús. Þessi opnunarmálsgrein var sett fram í léttum dúr. Þú mátt véfengja hana ef þú vilt, hún skiptir engu máli. Það sem skiptir máli er að textinn sem ég vitnaði í í dag lýsir Jesús sem fábjána.

Einar - 20/12/09 22:17 #

Alltaf gott að fá smá fróðleik. Líka gott að vita að það er í fínu lagi að setja fram fullyrðingar um ákveðna hópa sem standast ekki, svo lengi sem það er gert "í léttum dúr". :>

Óli Gneisti - 20/12/09 22:34 #

Efastu um það Einar að við getum fundið dáltin slatta af kristnu fólki sem segir að í boðskapi Jesú felist í raun umhverfisverndarstefna?

Haukur - 20/12/09 23:55 #

Tja, það er upplagt að athuga hvað páfinn sjálfur segir um málið. Hann fjallar einmitt um "verndun sköpunarverksins" í nýársávarpi sínu núna um áramótin og kemur þar talsvert inn á vistfræðilega þáttinn. Reyndar varar hann menn við að ganga of langt því að það geti leitt til "nýrrar algyðistrúar sem lituð væri af nýheiðni og hefði fyrir satt að hjálpræði mannsins væri fólgið í náttúrunni einni saman".

Matti - 21/12/09 00:01 #

Sagði páfadruslan eitthvað um fíkjutré?

Haukur - 21/12/09 00:17 #

Ég held að páfarnir hafi almennt verið mjög latir að standa vörð um þennan fíkjuboðskap. Annars mæli ég með þessari umfjöllun um "grænu biblíuna".

Óli Gneisti - 21/12/09 05:40 #

Ég held að hin almenna regla sé að fólk sé tilbúið að gera Jesú upp allar skoðanir sem það hefur sjálft.

Einar - 21/12/09 07:41 #

"Efastu um það Einar að við getum fundið dáltin slatta af kristnu fólki sem segir að í boðskapi Jesú felist í raun umhverfisverndarstefna?"

"Ég held að hin almenna regla sé að fólk sé tilbúið að gera Jesú upp allar skoðanir sem það hefur sjálft."

...og í framhaldi af því getið þið gert Jesú upp allar skoðanir sem þið þurfið af því að "þið gætuð örugglega fundið slatta af fólki" sem hefði þessar skoðanir og það myndi örugglega gera Jesú þær upp?

Mér er slétt sama um Jesú og öll hans rifrildi við plöntur, en finnst ykkur sem áhugamönnum um rökræður þetta í alvöru ekki frekar lélegur málflutningur:

"X, það segja sumir í hópi Y að minnsta kosti"

"Við gætum örugglega fundið einhvern í hópi Y sem segir þetta"

"Þessi setning skiptir engu máli, þetta var sagt í léttum dúr"

Matti - 21/12/09 07:59 #

Bendir eitthvað til þess að þessi setning sé aðalatriði færslunnar Einar? Bendir eitthvað til þess að hún skipti yfir höfuð einhverju máli?

Þér er slétt sama um Jesús og plöntur - en fjandakornið - þessi færsla fjallar um það.

Þú hefur svo sannarlega komið þínu á framfæri, til lukku með það :-)

Einar - 21/12/09 08:29 #

:) Gott mál. Og gleðileg jól!

Óli Gneisti - 21/12/09 11:32 #

Það þarf nú ekkert annað en að gúggla Jesus environmentalist til að sjá að það er fullt af fólki sem heldur því fram að hann hafi verið hörkuumhverfisverndarsinni.

Lárus Viðar - 22/12/09 07:18 #

Sagan af því þegar Jesús drap fíkjutréð með göldrum er alltaf í uppáhaldi hjá mér. Hún er svo innilega fáránleg, líklega hefur höfundurinn talið sig vera að koma á framfæri djúpum boðskap á sínum tíma. Núna er þetta einungis sorglegt rugl.

GH - 22/12/09 13:04 #

Ég hef aldrei haft áhuga á því að lesa biblíuna, en lærði biblíusögur í skóla og fékk innrætingu í sumarbúðum þannig að það er mjög áhugavert að lesa þessa pistla þína. Hvílíkt rugl. Að það skuli vera til heil stofnun í kringum þetta apparat á kostnað skattborgara og ákaft reynt að fá börnin okkar til að trúa á þetta. Það væri fyndið ef það væri ekki svona ömurlegt.

Bjarki - 22/12/09 18:55 #

Hvernig túlka líbó guðfræðingar nútímans fíkjusöguna? Hvaða skapandi útúrsnúningum beita þeir til þess að láta frelsarann sinn líta vel út?

Jesús birtist mér í þessum frásögnum sem barnalegur frekjuhundur og drullusokkur.

Isak Harðarson - 18/07/10 07:40 #

Ef við gerum ekki það sem (við vitum að við) EIGUM AÐ GERA - eigum við þá samt að fá að vera til?