Örvitinn

Gæska

GæskaSnemma í desember fékk ég pakka frá Forlaginu sem innihélt kynningareintak af bókinni Gæska eftir Eirík Örn Norðdahl. Ég verð að játa að þessi sending kom mér í opna skjöldu, ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, ég var steinhissa1 Mér þótti þetta upphefð en um leið fannst mér ég kominn í dálitla klípu. Ef ég fékk bókina ekki senda fyrir mistök var væntanlega verið að vonast (ætlast) til að ég myndi lesa hana og blogga fyrir jól. Út á það gengur kynningarstarf. Svo rambar höfundur bókarinnar af og til inn á bloggið mitt og þá sameinaðist klípan kvíðakasti2. Hvað átti ég að gera? Hvað ef mér þætti bókin leiðinlegt, gæti ég sagt frá því - Nýhil myndi örugglega berja mig.

Ég byrjaði á Gæsku fyrir jól, las um helming bókarinnar í bústað en svo endaði hún í bókapokanum (sem innihélt þá níu bækur) sem hefur legið óhreyfður í sjónvarpsstofunni þar til í gærkvöldi. Ég sat þá eirðarlaus uppi í rúmi, var búinn að klára internetið og nennti ekki að horfa á sjónvarpið. Hafði enga afsökun til að kíkja ekki í bók. Byrjaði á að lesa þrjár eða fjórar smásögur3 eftir Gyrði, teygði mig svo í rauðu bókina og hélt áfram þar sem frá var horfið.

Mér fannst fyrri hluti bókarinnar dálítið samhengislaus, verð að játa að stundum missti ég þráðinn, en seinni hlutinn er þéttari og í lokin fannst mér bókin afskaplega jákvæð í bölmóði sínum. Það fá eiginlega allir á baukinn í bókinni en sérstaklega finnst mér hægt að heimfæra hana yfir á bölmóðinn og sjálfsvorkunina sem einkennir samfélagið í dag. Við erum í alvörunni farin að bera okkur saman við lönd í þriðja heiminum þar sem læsi er lítið og fólk upplifir alvöru fátækt, þessa sem snýst um að eiga ekki fyrir mat og horfa upp á börnin sín veslast upp. Eiríkur setur þetta í samhengi.

Það voru nokkrir textar í bókinni sem mig langaði til að pikka inn, t.d. lýsing á Íslandi þar sem hraunað er yfir allt frá almenningssamgöngum til matarmenningar en ég læt þessa stuttu og einföldu lýsingu duga, ég tók hana nefnilega til mín.

Nema Óli Dóri sem trúði ekki á neitt og fannst jafnvel axlanudd jaðra við kukl.

Ég mæli með bókinni en er ekki viss um að hún sé fyrir alla. Mér finnst hún vel skrifuð, oft fyndin og gagnrýnin hittir iðulega í mark. Ég gat meira að segja tekið sumt til mín þó það sé að sjálfsögðu auðveldara að heimfæra þetta upp á alla hina asnana!

Ég geri alltof lítið af því að lesa bækur, sérstaklega skáldsögur.

1Til hvers að segja eitthvað einu sinni ef þú getur sagt það þrisvar?
2Nei, ég er að ýkja. Samt ekki.
3Ég man í alvörunni ekki hvort ég las þrjár eða fjórar smásögur. Djísus.

bækur
Athugasemdir

Eiríkur Örn - 12/01/10 10:00 #

Ég hef innkallað allar sveitir Nýhils og látið fjarlægja vörðinn við heimili þitt.

Ég var annars beðinn um að stinga upp á bloggurum sem ættu að fá kynningareintak, og ég stakk bara upp á bloggurum sem ég les. Það var nú ekki flóknara.

Gaman að þú hafðir gaman, einsog maðurinn sagði.

Matti - 12/01/10 10:05 #

Takk fyrir að benda á mig, mér fannst það óneitanlega dálítil upphefð að fá sent eintak.

Ég kláraði bókina í einum rykk í gærkvöldi, ætlaði bara að glugga í nokkra kafla en gat ekki lagt hana frá mér - sem verður að teljast jákvætt. Sem betur fer rumskaði frúin ekki til að segja mér að slökkva ljósið.

Allt í einu langar mig að lesa fleiri skáldskögur.

Teitur Atlason - 12/01/10 10:19 #

Ég fékk þessa bók í jólagjöf og er byrjaður á henni. Líst bara nokkuð vel á þótt ég sé ekki komin nema á blaðsíðu 19. Eiríkur er frábær íslenskumaður. Algerlega frábær.

Þessi lýsing á Alþingi varð til þess að vekja áhuga minn á bókinni.

"Síðan ultu þeir um eins og rýtandi afbendisgrísir í stíu, berandi leðjuna hver um annan með lúalegum hrákakjöftum, sjálfum sér öðrum og öllum til ómældrar hamingjuaukningar - rusluðu í sig blæðandi hræjum lýðræðis, réttlætis og gæsku, þar til ekkert var eftir handa komandi kynslóðum að leggja í eyði, sjúga merginn úr, drepa úr leiðindum - engir reðrar ósognir og allir hringvöðvar fyrir löngu sprungnir".

bls 15 og 16.

Matti - 12/01/10 12:15 #

Mér finnst snilld að prédikunin í byrjun bókar er skrifuð út frá prédikun á trú.is. Lýsing á biskup og presti er einnig afar fögur.

Mér finnst umfjöllunin um múslima samt frekar skrítin, en það er svosem margt skrítið í bókinni.