Örvitinn

Snarbilað fíkniefnastríð

Fyrst menn eru farnir að loka skólabyggingum og þúsund nemendur þar inni til að leita að fíkniefnum legg ég til að fari verði lengra. Næst geta menn lokað fjölbýlishúsum og leitað í öllum íbúðum og á öllum íbúum. Þar á eftir er hægt að loka götum og tékka á öllum og áður en langt um líður getum við barasta lokað heilu hverfunum til að leita að fíkniefnum.

Ég legg til að fyrst þetta þykja eðlileg vinnubrögð hjá fíkniefnalögreglunni verði næst farið í Alþingi og aðrar opinberar byggingar.

Fjandakornið, stríðið gegn fíkniefnum er komið út í algjöra vitleysu.

„Þetta gekk vonum framar og er frábær forvörn," sagði Aðalheiður [Sigursveinsdóttir, samskiptastjóri skólans]

Engin fíkniefni fundust en allir voru sakaðir um glæp. Þetta er ekki "frábær forvörn", þetta er brot á mannréttindum. Stjórnendur Tækniskólans eru fábjánar og nemendur ættu að sýna kjark og kæra þetta athæfi.

Stríðið gegn fíkniefnum minnir á trúarofstæki í sumum löndum. Ofstæki gegn borgurum er réttlætt með vísan til óljósrar og ýktrar ógnar sem stafar frá einhverju utanaðkomandi sem þarf að útrýma. Hver veit, kannski lendir fólk í því að vera látið pissa í glas til að sanna að það sé ekki undir áhrifum þó það hafi ekkert gert af sér. Það væri fáránlegt.

Æi, alveg rétt.

eiturlyf
Athugasemdir

Sævar Helgi - 11/02/10 17:12 #

Vááá hvað þetta fáránlega fíkniefnastríð er mikil bilun. Ættum við að skella okkur heim til Aðalheiðar og fjarlægja allt áfengi sem hún kann að hafa í fórum sínum. Það væri alveg frábær forvörn, enda áfengi með hættulegri vímuefnum, samanber þessa frétt.

Teitur Atlason - 11/02/10 17:12 #

Sammála. Þetta er út úr öllu korti. Það á að reka bjálfann sem skipulagði þessa árás.

pallih - 11/02/10 17:14 #

Þetta getur bara ekki verið löglegt.

Davíð - 11/02/10 18:36 #

Vá. Mér fallast hendur. Tungumálið er á orwellskum/stasi-esque skala: "Þetta gekk vonum framar og er frábær forvörn". Í þremur fréttum á netmiðlum er enginn sem setur spurningamerki við aðferðafræðina. Þetta er svo sannarlega sturlað.

Tinna G. Gígja - 11/02/10 18:50 #

Auðvitað er þetta út í hött. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað þyrfti til að breyta lögunum - og viðhorfi sumra hóstGuðrúnSæmundsdóttirhóst - og dettur ekkert í hug.

Skaðsemin af efnunum sjálfum er minni en af banni, en þegar rætt er við Guðrúnar þessa lands er engu líkara en þær haldi í fullri alvöru að "vímuefni" séu einhverskonar 50's hryllingsmyndaskrímsli sem ræðst á fólk - eins og lesa mátti úr orðum kerlingarinnar í Tækniskólanum þegar hún talaði um að "vernda nemendur gegn fíkniefnum".

Ásgeir - 11/02/10 19:26 #

Í hvaða skilningi er þetta frábær forvörn?

Þórður Ingvarsson - 11/02/10 21:33 #

Tja... mér dettur í hug að forvörnin gæti verið sú að eftir 5 ár þá verður allt morandi af reiðum lögfræðingum og löglærðum pizzusendlum út um borg og bý.

Gæti komið sér vel í forvörn gegn þessari vítaverðu og afspyrnu bjánalegri stefnu yfirvalda.

svansson - 11/02/10 21:38 #

Ég held að þetta geti verið fullkomlega löglegt ef þetta er framkvæmt með réttum hætti. Öðru gilti ef þetta væri heimavist og þeim væri hleypt inn í herbergi, eða ef húsvörður opnaði alla skápa fyrir lögreglunni, eða ef allir væru tuktaðir í líkamsleit. Þarna virðist lögreglan einfaldlega hafa farið með hunda um skólann - þeir þurfa áreiðanlega ekki meira en leyfi frá skólameistara til þess.

Það er frekar kjánalegt að tala um þetta sem forvörn, svona eins og menn búist við því að krakkarnir komi með efni til að neyta í skólanum. Eina gildið sem ég sé fyrir mér að þetta geti haft frá sjónarhóli skólans er ef þá grunar að verið sé að selja fíkniefni í skólanum - sem er skv. íslenskum lögum öllu alvarlegri glæpur en að eiga fíkniefni til einkaneyslu.

Líklega hefði meikað meiri sens að gera þetta á skólaballi, frekar en við hefðbundna kennslu og inni í miðri viku.

Arnar Gunnarsson - 12/02/10 09:14 #

Ég kíki stundum hérna inn frá vantru.is. Það sem mér datt í hug hvar ber þeim niður næst? Á að leita í bönkum? Skrifstofum Baugs (eða Haga eða hvað þetta allt heitir? Á að leita á Alþingi? Það eru ekki bara ungmenni sem neyta fíkniefna.

Matti - 12/02/10 09:17 #

Það er einmitt málið, er þetta í lagi bara vegna þess að um unglinga er að ræða?

Forvarnargildið er varla nokkuð og fyrst stjórnendur skólans þverneita fyrir að nokkur tilefni hafi verið til er þetta enn furðulegra.

Sigurlaug - 12/02/10 11:08 #

Lögreglumenn með fíkniefnahund koma reglulega í heimsókn einu sinni til tvisvar á önn hér á mínum vinnustað. Lögreglumenn rölta með hundinn um ganga skólans, stoppað við skápa o.þ.h. en enginn ónáðaður nema hundurinn sýni merki.

Skólanum er ekki lokað, hér er fjöldi flóttaleiða, 3 aðalinngangar auk 1-2 flóttaleiða úr hverri álmu.

Ath. lögreglan fer að sjálfsögðu einnig með hundinn um stjórnunarrými og kennarastofur skólans.

Matti - 12/02/10 12:39 #

Af hverju þykir það eðlilegt að leitað sé á vinnustað fólks?

Ég myndi segja upp daginn sem lögreglan mætti með fíkniefnahund á minn vinnustað.

Tryggvi R. Jónsson - 12/02/10 18:02 #

En ef hundurinn væri sérþjálfaður í að þefa uppi presta og aðra trúboða ;-) ?

Góða helgi.

Sigurlaug - 12/02/10 19:52 #

Þessi heimsókn er ekki skilgreind sem leit í mínum skóla. Undankomuleið er opin hverjum sem vill.

Kristinn - 14/02/10 18:20 #

...og hvað er gert ef hundurinn sýnir merki?

Sigurlaug Hauksdóttir - 15/02/10 08:22 #

Þá er málið kannað nánar. Það nákvæmlega sama og gert er hvar sem lögreglan er á ferð með hundinn, í formlegri leit eða ekki. Um leið og hundurinn sýnir merki, þá skilst mér að kominn sé grundvöllur til frekari viðbragða. Það er ekki hægt að líta framhjá því þegar hundurinn gefur til kynna að hann hafi fundið fíkniefni eða leyfar þess.

Egill - 15/02/10 17:48 #

Það er verið að fara í kringum sannleikann þegar skólayfirvöld segja að engin efni hafi fundist, enda er svona frekar hæpið að menn mæti með slíkt í skólann. Hins vegar fundu hundarnir lykt af nokkrum einstaklingum. Ég heyrði í einum af þeim um helgina, sem var við það leiddur af lögreglunni úr stappfullum matsal skólanns, og hann var sendur heim og átti að mæta í vikunni í viðtal við 'forvarnarfulltrúa' og var hreint ekki viss um framtíð sína í skólanum. Af því að fíkniefnahundar lögreglunnar fundu af honum graslykt við hópleit sem hann hafði aldrei samþykkt að gangast undir sjálfur og gat ekki komist undan.

Þetta er ekki alveg allt í lagi.

Erlendur - 16/02/10 18:18 #

Ég hélt að það þyrfti dómsúrskurð til þess að leita á manni án leyfis. Hvað er þetta annað en að leita á þér án þíns leyfis?

Mummi - 16/02/10 20:36 #

Það meikar ekki sens. Ef hundurinn sýnir viðbrögð við ferðatösku á flugvellinum, má löggan (tollurinn) þá ekkert gera nema fá leyfi til að leita?

Fyrir utan það að leita í nærumhverfi þínu getur vart verið skilgreint eins og að leita á þér?

Spyr sá sem ekki veit.

Sigurlaug - 17/02/10 10:08 #

Ég vil taka það fram vegna þessarar umræðu hér, að skv. þeim lýsingum sem maður hefur heyrt af þessari "leit" í Tækniskólanum, þá finnst mér persónulega hafa verið of hart fram gengið. Flóttaleiðir lokaðar og leitað á/þefað af einstaklingum.

Þær heimsóknir sem lögreglan kemur í hér eru annars eðlis, og hugsaðar sem ákveðin forvörn. Það er ekki gengið að fólki og hundurinn látinn þefa af því. Allar flóttaleiðir eru opnar eins og venjulega, og lögreglan tekur létta göngu með hundinn um ganga skólans og samkomurými. Það er ekki farið í kennslustofur og kennsla trufluð nema þeim sé boðið inn.

Þetta er afar stór skóli með um 1.400 nemendur í dagskóla og yfir 100 kennara auk annars starfsfólks. Hér eru yfirleitt 2 húsverðir á vakt í einu (erum með 3 húsverði) og ekki fræðilegur möguleiki á að þeir geti gert sér grein fyrir hvort einhver einstaklingur í samkomurými eða á göngum sé nemi í skólanum eða ekki.

Hér eru því t.d. alveg klárlega einhverjir einstaklingar á hverjum degi að þvælast í skólanum sem í raun eiga ekkert erindi hingað, og staðfestur grunur um að einhverjir þeirra séu að selja.

Hér eru auglýsingatöflur út um allt þar sem hægt er að hengja upp tilkynningar og auglýsingar. Í ljós kom að þetta var misnotað og auglýstur var ólöglegur varningur "undir rós". Nú er svo komið að ekki er heimilt að hengja neitt þarna upp nema það sé samþykkt af skrifstofu eða nemendafélaginu.

Það er líka ljóst að í hvert sinn sem lögreglan kemur með hundinn þá fer í gang "viðvörunarkerfi" með sms skilaboðum, og þá brestur stundum flótti á stöku einstaklinga innan veggja skólans, þeim hefur aldrei verið meinuð brottför.

Arnar - 17/02/10 10:55 #

http://www.visir.is/article/20100216/FRETTIR01/54114096

Eina fréttinn sem ég hef séð þar sem það er minnst á grun um fíkniefnasölu.

Full harkaleg framganga samt að mínu áliti en það er stigsmunur á því hvort það er 'leita' á mér(eða öðrum) að ástæðulausu eða hvort það sé rökstuddur grunur á bakvið.

Finnst ummræðan einhvern vegin vera þannig að löggunni hafi bara dottið í hug að fara í þetta af því að þeir höfðu ekkert annað að gera.

Sigurlaug - 17/02/10 11:00 #

Já, sammála því, fréttir hafa verið nokkuð misvísandi hvað þetta varðar.