Örvitinn

Rangt haft eftir Jesú

Misquoting JesusHvernig varð Biblían eiginlega til? Við vitum að Biblían er samansafn bóka og við þekkjum tilurð margra rita ágætlega. Það er ljóst að Biblían eins og við þekkjum hana í dag hefur breyst gegnum tíðina. Í bókinni Misquoting Jesus rekur Bart D. Ehrman þróun textans, hvernig hann hefur breyst og rekur ástæður þeirra breytinga.

Í fyrsta kafla rekur hann upphaf kristindóms og bendir á mikilvægi textans fyrir kristna trú. Ritin sem sum hver rötuðu síðar í Biblíuna voru send milli og lesin upp fyrir söfnuðina. Eins og gefur að skilja voru engar prentsmiðjur og á þessum tíma og því þurfti að afrita ritin með því að endurskrifa þau. Í upphafi kristni er afar sennilegt að leikmenn hafi séð um þetta en ekki vanir skrifarar.

Í öðrum kafla fer Ehrman yfir það hverjir afrituðu bækurnar í árdaga kristinnar trúar. Fljótt varð munur á handritum, mistök eða viljandi breytingar voru farnar að pirra menn snemma og kirkjufaðirinn Origen kvartaði t.d. undan því að afritarar lesi ekki yfir textann eða breyti honum eftir geðþótta. Kirkjugagnrýnandi Celsus hjó líka eftir þessu og gagnrýndi kristna fyrir að breyta guðspjöllunum trekk í trekk til að auðvelda þeim að svara gagnrýni.

Flestar breytingar á kristnum handritum komu þó ekki til vegna hugmyndafræði, þar sem texta var breytt svo hann passaði við skoðanir þess sem afritaði, heldur voru breytingarnar einfaldlega mistök þess sem afritaði textann. Stundum héldu menn jafnvel að þeir væru að leiðrétta mistök annarra og breyttu textanum þannig. Þetta gerir það að verkum að það getur verið erfitt að finna réttan texta því við eigum ekki upprunalega handritið heldur afrit af afriti. Þó er með ýmsum leiðum hægt að komast að því hvað er rétt, t.d. eru til tilvitnanir í eldri handrit sem sýna hvað í þeim stóð.

Í þriðja kafla fer Ehrman yfir það hvernig Nýja testamentið hefur verið sett saman í gegnum tíðina, hvernig þær þýðingar sem hafa náð dreifingu urðu til. Við þekkjum þessa umræðu dálítið hér á landi því stutt er síðan ný útgáfa af Biblíunni kom út hér á landi. Í kjölfarið urðu deilur um ýmislegt í þeirri útgáfu. Hér völdu menn þá leið að tóna niður flest sem hægt var að tóna niður, jafnvel þó það sé í sumum tilvikum gjörsamlega glórulaust. Ehrman fer yfir útgáfu Erasmusar og annarra, tekur saman á hvaða textum þeirra útgáfur byggja, fjallar um muninn á þeim og rekur pólitíkina í kringum útgáfurnar.

Kafli fjögur fjallar um leitina að upprunanum, hvernig fræðimenn hafa reynt að komast að því hvaða texti sé réttastur.

Fimmti kafli fjallar um aðferðirnar sem notaðar hafa verið til að finna hvaða texti er upprunalegur.

Í sjötta kafla er farið yfir guðfræðilega kvata þeirra sem breyttu texta, stundum var þetta hrein og klár kirkjupólitík, þeir sem trúðu því að Jesús hefði verið maður skrifuðu sína útgáfu af textanum en hinir sem andmæltu þeim breyttu textanum svo hann passaði síður við slík helgispjöll.

Sjöundi kafli fer svo út í samfélagslegar ástæður fyrir því að texta var breytt, t.d. viðhorf til kvenna. Það er t.d. fróðlegt að Páll virðist hafa verið jákvæðari í garð kvenna en texta hans var breytt í einhverjum tilvikum til að draga úr því viðhorfi og setja konur á "sinn stað".

Þetta er virkilega áhugaverð bók. Hér ræðir Bart Ehrman við Jon Stewart. Jon er augljóslega ansi hrifinn af bókinni.

The Daily Show With Jon StewartMon - Thurs 11p / 10c
Bart Ehrman
www.thedailyshow.com
Daily Show Full EpisodesPolitical HumorHealth Care Reform
bækur kristni
Athugasemdir

Steindór J. Erlingsson - 10/04/10 17:04 #

Sammála þér um ágæti bókarinnar. Mæli einnig með eftirfarandi bókum eftir Ehrman:
1. God's Problem: How the Bible Fails to Answer Our Most Important Question--Why We Suffer (2008).
2. Jesus Interrupted: Revealing the Hidden Contradictions in the Bible (and Why We Don't Know About Them) (2009).

Svavar Kjarrval - 10/04/10 17:31 #

Þessi bók sýnist vera nokkuð áhugaverð.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 10/04/10 18:41 #

Svona til gamans, þá var ég að taka eftir því að á morgun verður lesin í kirkjum landsins ein frægasta og augljósasta viðbótin í Nýja testamentinu:

Þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:] Andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. (1Jóh 5.7-8)

Arngrímur - 10/04/10 19:03 #

Næg eru vandkvæðin við aldur og varðveislu íslenskra miðaldatexta þótt maður láti sjálfa Biblíuna eiga sig. Ég hélt það væri almennt ekki talið mjög vísindalegt sport að reyna að nálgast upprunalega gerð gegnum yngri eftirrit.

Hversu langur tími líður frá atburðum Nýja testamentisins að elstu varðveittu frásögninni - óháð upprunalegri gerð? Ef svarið er eitthvað í námunda við það sem ég vil ímynda mér þá hlýtur maður að velta fyrir sér hversu mikill ávinningur sé að því að reyna að tjasla þessu saman.

Ég vil endilega vita meira, þetta hljómar spennandi.

Björn Ómarsson - 10/04/10 20:57 #

Arngrímur, þetta eru spurningarnar sem Ehrman reynir að svara í þessari bók, þannig að ég mæli eindregið með því að þú (og allir aðrir, trúaðir og trúlausir) lesir hana. Hún er frábær (og fljótlesin, 218 blaðsíður).

Við þær tvær bækur sem Steindór mælir með við ég bæta "Jesus: apocalyptic prophet of the new millennium". Þar fjallar Ehrman um það hver boðskapur Jesús var og hvernig við getum vitað það. Vægast sagt áhugaverð lesning.

Steindór J. Erlingsson - 10/04/10 21:40 #

Björn, takk fyrir að nefna "Jesus: apocalyptic prophet of the new millennium". Ætlaði að minnast á hana en gleymdi því. Hún er mögnuð lesning.