Örvitinn

Styrkir, prófkjör og frægð

Varúð, þetta er leiðinleg og dálítið samhengislaust blaður. Eflaust hef ég óskaplega rangt fyrir mér.

Nú er til siðs að skammast í þeim frambjóðendum sem þáðu styrki frá vissum fyrirtækjum fyrir prófkjör. Þeir sem ekki þáðu háa styrki eru stikkfrí.

Hverjir þáðu ekki háa styrki? Í sumum flokkum voru reglur um hvað mátti auglýsa og því þurftu frambjóðendur ekki að safna miklum peningum til að taka þátt í prófkjöri. Í prófkjöri VG í Reykjavík nú nýlega kynnti ég mér frambjóðendur í bæklingi sem ég fékk sendan heim og svo skoðaði ég heimasíður frambjóðenda. Einn frambjóðandi hringdi í mig (meðan ég var á klósettinu, ég spjallaði í dálítinn tíma) og fulltrúi annars hringdi í mig en ég hafði ekki tíma til að spjalla. Hafði þó rætt við hana um frambjóðandann skömmu áður.

Reglur um auglýsingar frambjóðenda voru ekki í öllum flokkum, stundum var mikið auglýst og án auglýsinga áttu frambjóðendur ekki möguleika á vænlegu sæti.

Þeir sem ekki þurftu styrki í þeim hópum skiptast í tvo hópa. Annars vegar eru það þeir sem eru vellauðugir og hins vegar þeir sem eru frægir. Bjarni Ben þurfti enga styrki, hann á nóg af peningum. Það sama gildir um Sigmund Erni, Pétur Blöndal, Þorgerði Katrínu og eflaust fleiri. Ef þú ert nógu andskoti ríkur þarftu ekki styrki.

Ef fram heldur sem horfir verður bara tvennskonar fólk á þingi. Ríkt eða frægt. Ríka fólkið getur auglýst sig, fræga fólkið þarf ekki að auglýsa - það þekkja allir andlitið.

Þannig verða það ekki fyrirtækin sem hafa áhfrif á það hver kemst á þing heldur fjölmiðlafólkið - líkt og þegar Egill Helgason kom Bjarna Harðar á þing á sínum tíma. Sigmundur Ernir gat gengið inn á þing án þess að hafa upp á nokkuð að bjóða annað en andlit sem fólk þekkir og loforð um að vinna fyrst fyrir norðlendinga, svo restina af þjóðinni. En svo er það náttúrulega hitt fræga fólkið, það sem verið hefur á þingi og hefur þar af leiðandi verið mikið í fjölmiðlum.

Þannig vill fjölmiðlafólk væntanlega hafa það - eða hvað? Það er jú mikilvægasta fólk landsins. Það á sjálft fína möguleika á að komast til áhrifa eða getur a.m.k. stýrt því hvaða fólk á séns.

Í öllum látunum kringum Besta flokkinn gleymist að hann er ekki bara að fá fylgi í skoðanakönnunum útaf húmornum eða vegna þess að fólk er þreytt á hinum flokkunum - hann er líka að fá fylgi vegna þess að í Besta flokknum er frægt fólk. Engu máli skiptir þó það blaðri eins og bjánar og djóki á fullu - það er frægt og þá er hægt að kjósa það.

Það er augljóst að prófkjör eins og þau hafa farið fram eru vandamál. Annað hvort verður fólk að hafa aðgang að styrkjum eða einungis ríkt eða frægt fólk kemst á þing.

En æi, höldum áfram að skammast. Það er ekki móðins að spá meira í þessum málum.

pólitík
Athugasemdir

Villi - 30/04/10 23:19 #

Þetta eru skemmtilegar pælingar og sennilega réttar. Ég hefi verið í svipuðum pælingum. Hvað ef "góð" fyrirtæki hefðu verið hér að verki?: Marel, Össur eða td. Helgi í Góu? Hefði glæpurinn verið jafn stór þá? Voru ekki bankarnir "góðir" á þessum árum? Hvað gat þeim gengið til, verandi "góð" fyrirtæki sem menn hrópuðu Húrra fyrir. "Góð" fyrirtæki með stjórnendur sem borga skatta með glöðu geði eru jú ekki í neinum monkeybisness? Í eðlilegu árferði sjáum við ekki banka í blóðugri samkeppni, eins og kannski verktakafyrirtæki. Þeir eru meir í ætt við kaldar stofnanir, hlutlausir og íhaldsamir enda yfirleitt gamlir. En vegna þess sem kom svo í ljós þá er greinilegt að stjórnmálamennirnir hljóta að hafa vitað þetta allan tímann, þótt við hefðum ekki grun um það sjálf, almúgamenn, og því verða það þeir sem verða hengdir. Það verður jú einhver að axla ábyrgð..bera syndir okkar.

Andrés - 30/04/10 23:25 #

Hollt að rifja aðeins upp þetta samhengi. Þú mátt eiga það að þú þorir að halda fram óvinsælum skoðunum.

Matti - 01/05/10 10:29 #

Góður punktur Villi varðandi góð og vond fyrirtæki.

Andrés, ætli pr-fólk myndi ekki banna mér að birta margt að því sem ég skrifa hér :-)

Kristín í París - 01/05/10 21:01 #

Er ekki niðurstaðan alltaf að þetta fokkans kerfi er úrelt? Varð það líklega með fyrstu auglýsingu pólitíkuss (usar?). Anarkí það er málið.

Matti - 02/05/10 17:48 #

Annað hvort anarkí eða einveldi (þar sem ég ræð) :-)